Andaheimar og vilji Guðs

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/09/2003

26. 9. 2003

Einvígið milli Gunnars í Krossinum og Þórhalls „miðils“ í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær var áhugavert. Fréttamennska stjórnenda þáttarins var stórkostleg enda voru þeir gjörsamlega gagnrýnislausir. Umræðan snérist fyrst og fremst um það hvor þeirra hefði rétt fyrir sér. Engum datt í hug að velta þeim möguleika upp að hvorugur þeirra hefði […]

Einvígið milli Gunnars í Krossinum og Þórhalls „miðils“ í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær var áhugavert. Fréttamennska stjórnenda þáttarins var stórkostleg enda voru þeir gjörsamlega gagnrýnislausir. Umræðan snérist fyrst og fremst um það hvor þeirra hefði rétt fyrir sér. Engum datt í hug að velta þeim möguleika upp að hvorugur þeirra hefði rétt fyrir sér. Það var gefið fyrirfram að til væri líf eftir dauðann.


Undirritaður er trúleysingi og efasemdarmaður en hefur engu að síður alltaf borið meiri virðingu fyrir lífsskoðun spíritista en sanntrúaðra. Ástæðan er einföld. Sanntrúaðir eru í flestum tilfellum á móti gagnrýnni hugsun og siðferðiskennd þeirra byggist ekki á hugsun og umhyggju fyrir líðan náungans heldur á utanbókarlærdómi. Það sem segir í biblíunni er rétt, annað er rangt. Einfalt, þægilegt og stórhættulegt.

Spíritistar eru hins vegar að jafnaði umburðarlyndir og stjórnast ekki af kreddum eða gömlum biblíuskipunum. Spíritistar vilja fá „sönnun“ fyrir því að til sé líf eftir dauðann. Þeim nægir ekki að lesa gömul trúarrit til að svala fróðleiksfýsn sinni, heldur vilja þeir fá persónulega sönnun fyrir trú sinni, þó sú sönnun sé sjaldnast vísindaleg.

Ólíkt því sem tíðkaðist í samfélagi spíritista víðs vegar um heiminn um miðbik síðustu aldar er lítið um viðleitni til vísindalegra vinnubragða hjá spíritistahreyfingum í dag. Miðlar eru sjaldan eða aldrei rannsakaðir með gagnrýnu hugafari og vísindalegum aðferðum og það er deginum ljósara að margir þekktir sem óþekktir „miðlar“ hafa verið afhjúpaðir sem loddarar og fjárplógsmenn. Því hlýtur sú ákvörðun Stöðvar 2 að sýna frá miðilsfundum og auglýsa þá sem heilagan sannleik, án þess að gefa kost á gagnrýnni umræðu (viðtal við Gunnar í Krossinum er ekki gagnrýn umræða), að teljast stórt siðferðilegt álitamál. Þetta vita forsvarsmenn Stöðvar 2 og ættu því að skammast sín fyrir að gera út á trú, ótta og sorg manna.

Kristnir geta ekki trúað á líf eftir dauðann
En aftur að einvígi Gunnars og Þórhalls. Sem áhugamaður um trúarbrögð og spíritisma get ég auðveldlega bent á að Gunnar hafði rétt fyrir sér sem kristinn maður. Kristinn maður getur ekki trúað því að miðill nái samband við framliðna. Ekki bara vegna þess að það er bannað að leita eftir slíku sambandi samkvæmt biblíunni, heldur einfaldlega vegna þess að samkvæmt kristinni trú eru framliðnir ekki til!

Það er ein grundvallarkenning kristinnar trúar að þeir sem eru látnir hvíla í gröfum sínum þar til að dómsdegi kemur. Þá fyrst munu þeir sem trúa á Jesú rísa upp úr gröfum sínum og lifa að eilífu fyrir trú sína (á meðan við hin brennum í helvíti). Flestir Íslendingar trúa hins vegar á líf eftir dauðann og að hægt sé að ná sambandi við framliðna í gegnum miðla. Óaðvitandi eru því fæstir Íslendingar kristnir. Þeir eru miklu frekar spíritistar.

Gunnar hafði aftur rétt fyrir sér, sem kristinn maður
Gunnar bannfærði Þórhall í umræddum þætti og sagði hann útsendara djöfulsins, hvorki meira né minna. Aftur hafði Gunnar auðvitað rétt fyrir sér enda eru fordómar hans allir studdir hinu „óvéfengjanlega orði Guðs“.

Gunnar vitnaði til Annarar Mósebókar þar sem miðlar eru bannfærðir. Reyndar segir þar orðrétt:

„Eigi skalt þú láta galdrakonu lífi halda.“ – Önnur Mósebók 22:18.

Þannig að ef við eigum að túlka „orð Guðs“ bókstaflega eins og Gunnar og aðrir biblíuþrælar segja er það í raun skylda allra sem þetta lesa og aðhyllast kristna trú að lífláta Þórhall. Sanntrúuðum þykir þessi setning í biblíunni mikilvæg og óvéfengjanleg og við „verðum að fara að vilja Guðs“.

Fordómafullir biblíuþrælar nota sömu „rök“ þegar þeir fordæma til að mynda samkynhneigða. Siðfræðingarnir á kristnu sjónvarpsstöðinni Omega vitna til að mynda án afláts í biblíuna til að fordæma samkynhneigð, og réttilega því þeir sem eru kristnir og trúa á biblíuna eiga að fordæma samkynhneigða. Enda segir í þriðju Mósebók:

„Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.“ – Þriðja Mósebók 20:13.

Hinir sanntrúuðu segja að við eigum að fara eftir orði Guðs og því hlýtur það að vera á verkefnaskrá hvers kristins manns að myrða samkynhneigða.

Þórhalli til varnar
Þórhallur varðist afar illa í umræddum þætti, enda augljóst á málflutningi hans að hann hefur lítið kynnt sér kristna trú og svo virtist sem hann hefði lítið kynnt sér heimspeki spíritista (í það minnsta eins og hún var boðuð um miðbik síðustu aldar og þar áður).

Þórhallur hefði auðveldlega getað skotið Gunnar í kaf með því að nota sama vopn og hann, þ.e. biblíuna. Hann hefði getað bent á að í 22. kafla Annarar Mósebókar er fjallað um fleira en „galdrakonur“. Hvernig væri að skoða allar skipanir Guðs settar fram í 22. kafla og fara eftir þeim öllum. Ef þú sem þetta lest ert kristinn og tekur ritningargrein 18. alvarlega verður þú líka að taka allar hinar 30 alvarlega:

2. Mósebók 22:1-31

1. Ef maður stelur nauti eða sauð, og slátrar eða selur, þá gjaldi hann aftur fimm uxa fyrir einn uxa og fjóra sauði fyrir einn sauð.
2. Ef þjófur er staðinn að innbroti og lostinn til bana, þá er vegandinn eigi blóðsekur.
3. En ef sól er á loft komin, þá er hann blóðsekur. Þjófurinn skal greiða fullar bætur, en eigi hann ekkert til, skal selja hann í bætur fyrir stuldinn.
4. Ef hið stolna finnst lifandi hjá honum, hvort heldur það er uxi, asni eða sauður, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur.
5. Ef maður beitir akur eða víngarð og lætur fénað sinn ganga lausan og hann gengur í akri annars manns, þá skal hann bæta með því, sem best er á akri hans eða í víngarði hans.
6. Ef eldur kviknar og kemst í þyrna og brennur kerfaskrúf, kornstangir eða akur, þá bæti sá fullum bótum, er eldinn kveikti.
7. Nú selur maður öðrum manni silfur eða nokkra gripi til varðveislu og því er stolið úr húsi hans, og finnist þjófurinn, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur.
8. En finnist þjófurinn ekki, þá skal leiða húseigandann fram fyrir Guð, og synji hann fyrir með eiði að hann hafi lagt hendur á eign náunga síns.
9. Fari einhver óráðvandlega með uxa, asna, sauð, klæðnað eða hvað annað, er tapast hefir og einhver segir um: Það er þetta, þá skal mál þeirra beggja koma fyrir Guð, og sá sem Guð dæmir sekan skal gjalda náunga sínum tvöfalt.
10. Ef maður selur öðrum manni asna eða naut eða sauð eða nokkra aðra skepnu til varðveislu, og hún deyr eða lestist eða er tekin svo að enginn sér,
11. þá skal til koma eiður við Drottinn þeirra í millum, að hann lagði ekki hönd á eign náunga síns, og skal eigandi þann eið gildan taka, en hinn bæti engu.
12. En hafi því verið stolið frá honum, þá gjaldi hann bætur eigandanum.
13. Ef það er dýrrifið, þá skal hann koma með það til sannindamerkis. Það sem dýrrifið er skal hann ekki bæta.
14. Ef maður hefir fengið einhvern grip léðan hjá öðrum manni og hann lestist eða deyr, sé eigandi ekki viðstaddur, þá bæti hinn fullum bótum,
15. en sé eigandi við, bæti hann engu. Ef það var leigugripur, þá eru bæturnar fólgnar í leigunni.
16. Ef maður glepur mey, sem ekki er föstnuð manni, og leggst með henni, þá skal hann hana mundi kaupa sér að eiginkonu.
17. En ef faðir hennar vill eigi gifta honum hana, þá skal hann greiða svo mikið silfur sem meyjarmundi svarar.
18. Eigi skalt þú láta galdrakonu lífi halda.
19. Hver sem hefir samlag við fénað skal líflátinn verða.
20. Hver sem færir fórnir nokkrum guði, öðrum en Drottni einum, skal bannfærður verða.
21. Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi.
22. Þér skuluð ekki leggjast á ekkjur eða munaðarleysingja.
23. Ef þú leggst á þau, og þau hrópa til mín, mun ég vissulega heyra neyðarkvein þeirra.
24. Þá skal reiði mín upptendrast, og ég skal drepa yður með sverði, svo að konur yðar verði ekkjur og börn yðar föðurlaus.
25. Ef þú lánar peninga fólki mínu, hinum fátæka, sem hjá þér er, þá skalt þú ekki vera við hann eins og okrari. Þér skuluð ekki taka leigu af honum.
26. Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði, þá skila þú honum henni aftur áður sól sest,
27. því að hún er hið eina, sem hann hefir til að hylja sig með, hún skýlir líkama hans. Hvað á hann annars að hafa yfir sér, er hann leggst til hvíldar? Þegar hann hrópar til mín, skal ég heyra, því að ég er miskunnsamur.
28. Þú skalt ekki lastmæla Guði og ekki bölva höfðingja þíns fólks.
29. Lát eigi undan dragast að færa fórn af korngnótt þinni og aldinsafa. Frumgetning sona þinna skalt þú mér gefa.
30. Hið sama skalt þú gjöra af nautum þínum og sauðum. Sjö daga skal frumburðurinn vera hjá móður sinni, en hinn áttunda dag skalt þú færa mér hann.
31. Helgir menn skuluð þér vera fyrir mér. Það kjöt, sem rifið er af dýrum úti á víðavangi, skuluð þér eigi eta, heldur kasta því fyrir hunda.

Að sama skapi verða þeir sem taka 13. ritningargrein 20. kafla Þriðju Mósebókar alvarlega að taka hinar 26 skipanir Guðs jafn alvarlega:

3. Mósebók 20:1-27

1. Drottinn talaði við Móse og sagði:
2. Og þú skalt segja við Ísraelsmenn: Hver sá Ísraelsmanna, eða útlendra manna, er búa í Ísrael, sem færir Mólok nokkurt afkvæmi sitt, skal líflátinn verða. Landslýður skal lemja hann grjóti.
3. Og ég vil snúa augliti mínu gegn þeim manni og uppræta hann úr þjóð sinni, fyrir þá sök að hann hefir fært Mólok afkvæmi sitt til þess að saurga helgidóm minn og vanhelga heilagt nafn mitt.
4. En ef landslýður hylmir yfir með slíkum manni, er hann færir Mólok afkvæmi sitt, og líflætur hann ekki,
5. þá vil ég snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gegn ætt hans. Og ég mun uppræta hann og alla þá, er verða honum samsekir í því að taka fram hjá með Mólok, úr þjóð þeirra.
6. Sá sem leitar til særingaranda og spásagnaranda til þess að taka fram hjá með þeim, gegn honum vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni.
7. Helgist og verið heilagir, því að ég er Drottinn, Guð yðar.
8. Fyrir því skuluð þér varðveita setningar mínar og halda þær. Ég er Drottinn, sá er yður helgar.
9. Hver sá, sem bölvar föður sínum eða móður sinni, skal líflátinn verða. Föður sínum eða móður sinni hefir hann bölvað, blóðsök hvílir á honum.
10. Þá er einhver drýgir hór með konu annars manns, drýgir hór með konu náunga síns, þá skal líflátinn verða bæði hórkarlinn og hórkonan.
11. Og leggist maður með konu föður síns, þá hefir hann berað blygðan föður síns. Þau skulu bæði líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.
12. Og leggist maður með tengdadóttur sinni, þá skulu þau bæði líflátin verða. Svívirðing hafa þau framið, blóðsök hvílir á þeim.

13. Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.
14. Og taki maður bæði konu og móður hennar, þá er það óhæfa. Skal brenna hann í eldi ásamt þeim, svo að eigi gangist við óhæfa meðal yðar.
15. Og eigi maður samlag við skepnu, þá skal hann líflátinn verða, og skepnuna skuluð þér drepa.
16. Og ef kona kemur nærri einhverri skepnu til samræðis við hana, þá skalt þú deyða konuna og skepnuna. Þau skulu líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.
17. Nú tekur einhver systur sína, dóttur föður síns eða dóttur móður sinnar, og sér blygðan hennar og hún sér blygðan hans, þá er það skömm. Þau skulu upprætt verða í augsýn samlanda sinna. Blygðan systur sinnar hefir hann berað og bakað sér sekt.
18. Leggist maður með konu, sem hefir tíðir, og berar blygðan hennar hefir beran gjört brunn hennar og hún hefir sjálf berað brunn blóðs síns, þá skulu þau bæði upprætt verða úr þjóð sinni.
19. Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar eða föðursystur, því að sá maður hefir bert gjört náið skyldmenni sitt, þau hafa bakað sér sekt.
20. Og ef einhver leggst með sifkonu sinni, þá hefir hann berað blygðan föðurbróður síns. Þau hafa bakað sér synd, barnlaus skulu þau deyja.
21. Og ef einhver tekur konu bróður síns, þá er það saurgun. Blygðan bróður síns hefir hann berað, barnlaus skulu þau vera.
22. Varðveitið því allar setningar mínar og öll lög mín og haldið þau, svo að landið, sem ég mun leiða yður inn í, til þess að þér byggið það, spúi yður ekki.
23. Þér skuluð ekki breyta eftir setningum þeirrar þjóðar, sem ég rek burt undan yður, því að þeir frömdu allt þetta og þess vegna bauð mér við þeim.
24. Fyrir því sagði ég yður: Þér skuluð eignast land þeirra, og ég vil gefa yður það til eignar, land sem flýtur í mjólk og hunangi. Ég er Drottinn, Guð yðar, sem hefi skilið yður frá þjóðunum.
25. Gjörið því grein hreinna ferfætlinga og óhreinna, og óhreinna fugla og hreinna, og gjörið yður eigi viðurstyggilega á skepnum, fuglum né neinu, sem hrærist á jörðinni, því sem ég hefi greint frá, til þess að það væri yður óhreint.
26. Og þér skuluð vera heilagir fyrir mér, því að ég, Drottinn, er heilagur, og hefi skilið yður frá þjóðunum, til þess að þér skuluð vera mínir.
27. Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim.

Annað hvort taka menn biblíuna alvarlega eða ekki. Þitt er valið lesandi góður. Undirritaður kýs að gera það ekki.

„Ignorance is the curse of God. Knowledge is the wing wherewith we fly to heaven.“ – Shakespeare.

Deildu