Kirkjulegt siðferði afhjúpað

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/08/2003

18. 8. 2003

Jóhannes Páll páfi hefur nýverið ítrekað andstyggð sína, og kirkjunnar, á samkynhneigð. Þann 31. júlí sendi Páfagarður frá sér tólf blaðsíðna hvatningu til kristinna manna um að berjast gegn hjónaböndum samkynhneigðra og rétti þeirra til að ættleiða börn. Á sama tíma er verið að dæma fjölmarga kaþólska presta í fangelsi fyrir að misnota börn kynferðislega […]

Jóhannes Páll páfi hefur nýverið ítrekað andstyggð sína, og kirkjunnar, á samkynhneigð. Þann 31. júlí sendi Páfagarður frá sér tólf blaðsíðna hvatningu til kristinna manna um að berjast gegn hjónaböndum samkynhneigðra og rétti þeirra til að ættleiða börn. Á sama tíma er verið að dæma fjölmarga kaþólska presta í fangelsi fyrir að misnota börn kynferðislega og fram eru komin skjöl sem sanna að Páfagarður hefur gert sitt besta til að koma í veg fyrir að þessi ógeðfellda iðja þeirra spyrjist út.

Fram kom nýverið í frétt BBC að bandarískur lögmaður fólks, sem hefur sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu kaþólskra presta, hefur afhent yfirvöldum afrit af fyrirmælum til biskupa frá Páfagarði, sem gefin voru út árið 1962, þar sem þess er krafist að mál af þessu tagi séu meðhöndluð með algerri leynd.

Í hinu leynilega skjali sem var innsiglað af Jóhannesi 23., þáverandi páfa, kemur skýrt fram að þeir klerkar sem voga sér að segja almenningi frá þessum viðurstyggilegu afbrotum eigi það á hættu að verða bannfærðir. Talsmenn Páfagarðs hafa viðurkennt að skjalið sé ófalsað en halda því enn fremur fram að með því hafi ekki verið reynt að hylma yfir barnaníðingum innan kirkjunnar. Kirkjan virðist því ekkert skammast sín og heldur áfram að spinna vef lyga og fordóma.

Hið vestræna kristna samfélag
Þessar tiltölulega nýju upplýsingar ættu svosem ekki að koma neinum á óvart. Þó kirkjan telji það í dag sína helstu ,,siðferðislegu skyldu“ að berjast gegn samkynhneigð ættum við ekki að gleyma að hinar ýmsu kirkjudeildir hafa barist hatramlega gegn mannréttindum og umborið siðleysi eigin þjóna svo lengi sem menn muna.

Kirkjan var með þrælahaldi, á móti réttindum kvenna, barðist gegn gyðingum og múslimum og brenndi bækur (og stundum höfunda þeirra einnig). Þrátt fyrir þetta er okkur ætlað að trúa að þau mannréttindi sem við flest búum við séu tilkomin vegna kirkjunnar og kristinnar siðmenningar og við hvött til að leita í trúarbækur í leit að siðferði.

Áður en langt um líður verður barnaníðingsskapur almennt fordæmdur og afhjúpaður innan kirkjunnar og nú þegar sjást skref í átt til umburðarlyndis gagnvart samkynhneigðum (þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu páfa). Þegar fram líða stundir verður kirkjunni og ,,kristinni siðmenningu“ eflaust einnig þakkað fyrir baráttuna gegn kynferðislegri misnotkun barna og réttindum samkynhneigðra.

Hvar stendur íslenska kirkjan?
Í öllu fréttaflóðinu um kaþólsku kirkjuna og þjóna þeirra hefur lítið sem ekkert heyrst frá starfsbræðrum þeirra hér landi. Hvar stendur íslenski biskupinn? Telur hann samkynhneigð stríða ,,gegn siðferðilegum náttúrulögmálum“ eins og páfinn? Hefur Þjóðkirkjan sent Páfagarði formleg mótmæli vegna yfirlýsingu páfa sem vitað er að mun auka á fordóma og hatri gagnvart samkynhneigðum? Ef ekki, á íslenskur almenningur rétt á að vita hvers vegna.

Ítarefni:
Siðferði, trú og trúleysi.

Fordómar eða umurðalyndi?

Deildu