Það hefur vakið athygli að Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, hefur þegið laxveiðiferð í einni dýrustu á landsins frá Kaupþingi-Búnaðarbanka og telur að eigin sögn ekkert óeðlilegt við það. Það hlýtur hins vegar að vekja enn meiri athygli að Davíð Oddsson, forsætisráðherra, neitar að svara því til hvort hann hafi farið í slíkar ferðir í boði fyrirtækja. Davíð telur að það komi ekki kjósendum við hvort hann fái gjafir frá stórfyrirtækjum og valdamönnum og segist ekki svara spurningum um frítíma sinn!
Kemur almenningi ekki við
Vitað er að stórfyrirtæki og valdamenn hafa haft áhrif á stjórnmálamenn víðs vegar um heiminn og það er beinlínis barnalegt að halda að slíkt hið sama geti ekki gerst hér á Íslandi. Þess vegna er nauðsynlegt að almenningur fái að vita hvort stjórnmálamenn hafa þegið gjafir eða ekki.
Er til að mynda í lagi að öflug fyrirtæki bjóði forsætisráðherra heimsreisu, svo lengi sem það sé gert í sumarfríi ráðherrans? Davíð Oddsson virðist telja að svo sé. Það sem meira er telur forsætisráðherra að komi kjósendum hreinlega ekki við hvort hann eða aðrir stjórnmálamenn þiggi slíkar gjafir.
Lokað bókhald
Þessi afstaða forsætisráðherra ætti svosem ekki að koma á óvart, enda hefur hann hvað harðast barist gegn því að sett verði lög um opið bókhald stjórnmálaflokka. Auðvitað ekki af því að hann og flokkur hans hafi eitthvað að fela. Okkur, hinum aumu kjósendum, kemur einfaldlega ekki við hverjir eiga flokkana.
Davíð og öðrum andstæðingum opins og gagnsæs stjórnkerfis fannst hins vegar, eins og menn muna, hræðilegt þegar almenningur fékk ekki að vita hverjir áttu Fréttablaðið og gagnrýndu leyndina harðlega. Rökin sem þeir notuðu voru góð og gild. Hvernig getur almenningur fyllilega metið fréttaflutning fjölmiðils þegar hann veit ekki einu sinni hverjir eru eigendurnir?
Það sama gildir auðvitað um bókhald stjórnmálaflokkanna og gjafir til einstakra ráðamanna. Hvernig í ósköpunum eiga kjósendur að geta metið flokka og menn ef þeir vita ekki hverjir eiga þá, eða í það minnsta eiga í þeim?
Ítarefni:
Pólitískir peningar