Það kann að hljóma undarlega en í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, landi frelsisins, er samkynhneigð bönnuð með lögum! Nú hefur þessu fáránlega banni verið aflétt í Texasfylki*, íhaldsmönnum til mikillar geðshræringar. Robert Knight, sem er framkvæmdastjóri Menningar- og fjölskyldustofnunarinnar (íhaldsamt smáborgarafélag með kristnu ívafi), telur að með lagabreytingunni fari allt til fjandans.
Rökrétt ályktun hans er ,,auðskiljanlega“ sú að nú séu ,,lög gegn vændi, sifjaspellum, tvíkvæni og jafnvel kynmökum manna við dýr“ í hættu.
Vændi og tvíkvæni eru auðvitað ekki siðlausar athafnir, ekki frekar en samkynhneigð og ,,hefðbundið“ kynlíf. Enda hlýtur enginn beinan skaða af. Ekki ef við gerum ráð fyrir því um sé að ræða athafnir upplýstra og samþykkra einstaklinga.
Menn eins og Knight finnast um allan heim. Oftast starfa þeir í íhaldssömum stjórnmálaflokkum og/eða trúarhreyfingum. Þetta fólk virðir frelsi og réttindi einstaklingsins að vettugi en krefst þess að allir séu lagalega þvingaðir til að tileinka sér gildismat íhaldsmanna.
Mér skilst að í sumum fylkjum Bandaríkjanna séu munnmök og endaþarmssamfarir einnig bannaðar af svipuðum ástæðum. Ef mönnum líkar ekki eitthvað finnst þeim ekki nóg lifa eftir eigin sannfæringu í sínu eigin einkalífi. Nei, það á að banna, banna, banna.
Einu tilfellin þar sem bönn eru réttlætanleg eru þau þegar athafnir fólks skaða aðra einstaklinga eða samfélagið beint. Þess vegna er einmitt stundum réttlætanlegt að banna frelsisskerðandi aðgerðir íhaldsmanna.
*Samkvæmt Rúnari félaga mínum hefur banninu víst verið aflétt í öllum fylkjum Bandaríkjanna. Ekki bara í Texas. Gott ef satt er.