Hvorki mannlegur né guðlegur* máttur fær mann til að skilja hvers vegna í ósköpunum Íslendingar ættu að hafa, og hvað þá reka, her. Að Íslendingum stafar engin bein ógn, ef við utanskiljum þá ógn sem okkur stafar af heimskulegum hugmyndum. Í raun er aðeins hægt að hugsa sér eina gilda ástæðu fyrir því að óvinveittum aðilum dytti í hug að ráðast á þetta litla sker sem við köllum Ísland. Ástæðan er einmitt sú staðreynd að her, afar óvinsællar þjóðar víðs vegar um heiminn, er staðsettur hér á landi.
Sjaldan hafa heyrst eins gjaldþrota rök svífa um andrúmsloft Jarðar og þegar stuðningsmenn hers á Íslandi þenja raddböndin. Sumir þeirra halda því fram að við getum ekki talist sjálfstæð þjóð nema að við séum með her, aðrir virðast dauðhræddir um að einhver vitstola einræðisherra ráðist á okkur um leið og dátinn fer (líklegast til að leggja undir sig íslenskar lúpínur og önnur íslensk auðævi) og enn aðrir trúa vitleysunni í Bush, Rumsfeld og Birni Bjarnasyni. Það er að al-Qaida og önnur hryðjuverkasamtök bíði spennt eftir því að fjárfesta í dúnúlpum og skíðagleraugum og leggi leið sína á Frón um leið og herinn flýgur burt. Jafnvel til að undirbúa mesta hryðjuverk sögunnar.
Áhyggjum hersinna svarað
Í fyrsta lagi geta Íslendingar allt eins lokað sjoppunni ef þeir eru sannfærðir um að þeir geti ekki verið sjálfstæðir án þess að hér á landi búi nokkur byssuglöð ungmenni, íslensk eða aðflutt, sem eru sérþjálfuð í því að drepa.
Í öðru lagi eiga Íslendingar enga óvini. Það er engin þjóð nálægt okkur sem ógnar öryggi Íslands. Kannski var ástandið annað á tímum kalda stríðsins, en í dag eigum við enga óvini. Auk þess er það ljóst að ef ástandið í heiminum myndi skyndilega breytast okkur í óhag, til dæmis ef Færeyingar kæmu sér upp kjarnorkuvopnum, þá tæki það bandalagsþjóðir okkar í NATO ekki nema nokkra klukkutíma að senda eins og fjórar herflugvélar til landsins (sem á víst að vera nóg til að tryggja varnir Íslands) og það tæki ekki nema örfáa daga til viðbótar að senda okkur nokkur flugmóðurskip (og Jay Leno til að hressa uppá mannskapinn).
Í þriðja lagi er ótti Frónverja við hryðjuverk hlægilegur. Það hefur enginn hryðjuverkamaður áhuga á að koma til Íslands (nema hann sé einnig þýskur túristi). Bæði er þjónusta Flugleiða vart mönnum bjóðandi auk þess sem hér er ekkert að sprengja upp. Nema jú herstöð Bandaríkjamanna. Ef einhver hryðjuverkamaður veit á annað borð að Ísland er til, og að sá staður er á Jörðinni, þá er það vegna þess að hér er bandarísk herstöð.
Besta leiðin til þess að koma í veg fyrir hryðjuverk á Íslandi er því að breyta varnarstöðinni í herminjasafn og kjósa stjórnmálaflokka til valda sem ekki eru Kanasleikjur í utanríkiseiginhagsmunamálum.
*Enda er undirritaður trúleysingi.