Stríðsglæparéttarhöldin eftir lok síðari heimsstyrjaldar áttu að tákna að menn gætu ekki lengur forðast að axla ábyrgð á þeim glæpum sem þeir drýgðu á stríðstímum. Samt fór svo að drýgstur hluti þeirra sem brutu af sér slapp við að axla ábyrgð á gerðum sínum, ekki hvað síst þeir sem mesta ábyrgð báru.
Valur Ingimundarson sagnfræðingur hélt athyglisverðan fyrirlestur um stríðsglæpi og stríðsglæparéttarhöld í Norræna húsinu í gær. Þar lýsti hann ferlinu sem verið hefur á meðferð stríðsglæpa frá lokum seinni heimsstyrjaldar og var margt athyglisvert í máli hans eins og við var að búast.
Þannig var athyglisvert að heyra lýsingar hans á því hversu mjög viðhorf manna, þó helst í Þýskalandi og Frakklandi, til stríðsglæpa og réttarhalda yfir þeim sem þá hafa framið hafa breyst á þessari hálfu öld sem liðin er frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Fyrir utan Nurnberg réttarhöldin, sem var beint að Þjóðverjum meðan samverkamenn þeirra og stríðsglæpamenn annarra aðila heimsstyrjaldarinnar sluppu að mestu, var ekki lagt mikið upp úr því að draga þá fyrir dómstóla sem brotið höfðu af sér.
Þannig lögðu Frakkar höfuðáherslu á þá ímynd að þeir hefðu barist hetjulegri baráttu gegn hernámsliði Þjóðverja frá falli Frakklands til innrásarinnar í Normandí. Hetjum, raunverulegum og ímynduðum, var haldið á lofti en umræðu um glæpi Vichystjórnarinnar sópað undir teppið. Í Þýskalandi var lögð áhersla á að meintir stríðsglæpamenn yrðu ekki saksóttir ellegar að dómar þeirra yrðu mildaðir eða látnir niður falla. Það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem Frakkar fóru að horfast í augu við sannleikann. Þá þurfti bandarískan fræðimann sem leitaði gagna í þýskum skjalasöfnum. Frumkvæðið var ekki Frakka og því var illa tekið. Þó dugði það til þess að koma umræðunni af stað. Reyndar svo mjög að á síðasta ári var sakfelldur fyrir stríðsglæpi lágt settur embættismaður í Vichystjórninni. Aldraður mjög og síst verri en ýmsir þeir sem áður höfðu verið náðaðir eða ekki réttað yfir. Viðhorfið hafði hins vegar snúist algjörlega við. Í stað þess að reyna að þaga yfir glæpum Vichystjórnarinnar eins og gert var fyrsta aldarfjórðunginn eftir stríðið var maður dæmdur, ekki endilega einvörðungu fyrir eigin glæpi heldur til marks um að gert væri upp við fortíðina.
Það var einnig áhugavert að heyra lýsingar Vals á því hvernig stjórnmálamenn og kirkjunnar menn börðust harkalega fyrir því eftir stríð að ekki yrði réttað yfir meintum stríðsglæpamönnum ellegar dómar þeirra mildaðir eða felldir niður. Þannig gerðu áhrifamenn minna úr glæpunum en efni stóðu til og fórnarlömbin fengu ekki uppreisn æru. Því varð það svo að ýmsir þeirra sem fyrirskipuðu glæpi sluppu að mestu við refsingu fyrir gerðir sínar meðan þeir sem tóku við skipunum og var réttað yfir síðar urðu að gjalda gerða sinna harðar en þeir sem fyrirskipanirnar gáfu.
Víti til varnaðar
Réttarhöld yfir stríðsglæpamönnum seinni heimsstyrjaldar voru um margt gölluð. Of margir sluppu við refsingu fyrir glæpi sína. Of mikið var gefið eftir til að reyna að komast hjá sárum endurminningum í nafni þjóðarsáttar um betri framtíð. Of einhliða var litið á Þjóðverja sem stríðsglæpamenn meðan samverkamenn þeirra og stríðsglæpamenn annarra aðila styrjaldarinnar sluppu. Á þeim 55 árum sem eru liðin frá síðari heimsstyrjöld ættu menn að hafa lært af mistökum fortíðarinnar. Þannig væri vonandi að rannsókn stríðsglæpa í borgarastríðinu í Júgóslavíu og Rúanda tæki mið af þeim lærdómi. Þess í stað er hætt við að áfram verði haldið að beita valbundnu réttlæti þar sem einn er sóttur til saka en annar sleppur. Mér dettur ekki til hugar að segja að þannig sé betur heima setið en af stað farið en ég fullyrði að það er hægt, og á, að gera betur.