Ég, um mig, frá mér, til mín

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

12/12/2000

12. 12. 2000

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er uppáhalds sjónvarpsmaðurinn minn. Einu sinni í viku kveiki ég á sjónvarpinu til að horfa á þennan frakka og glaðlega stjórnmálaspeking tjá sig um menn og málefni. Vinir/Óvinir Það er aldrei leiðinlegt að horfa á Hannes þó stundum sé hann pínulítið einhæfur í málflutningi. Eftir að hafa horft á hann nokkrum sinnum […]


Hannes Hólmsteinn Gissurarson er uppáhalds sjónvarpsmaðurinn minn. Einu sinni í viku kveiki ég á sjónvarpinu til að horfa á þennan frakka og glaðlega stjórnmálaspeking tjá sig um menn og málefni.


Vinir/Óvinir
Það er aldrei leiðinlegt að horfa á Hannes þó stundum sé hann pínulítið einhæfur í málflutningi. Eftir að hafa horft á hann nokkrum sinnum er ég búinn að komast að því að Hannes hatar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Ólaf Ragnar Grímsson og Jón Ólafsson. Hannes dáir Davíð Oddsson og sjálfan sig.

Bókspekingurinn
Í gær ákvað Hannes að leggja sitt innlegg í jólabókaflóðið og tók fyrir ýmsar bækur sem allar virtust hinar áhugaverðustu. Það var samt pínlega áberandi að Hannes var vilhallur undir bækur sem snertu hann á einhvern hátt. Fyrstu tvær bækurnar sem hann tók fyrir voru Í hlutverki leiðtogans eftir Ásdísi Höllu og Forsætisráðherrann eftir Dag B. Eggertsson. Í báðum bókum var minnst á Hannes og það gladdi Hannes ákaflega að geta bent á það, sérstaklega hvað varðar bók Ásdísar en þar gat hann blandað saman tveimur aðaláhugamálum sínum, sjálfssdýrkun og hatri á borgarstjóranum.

Við Hannes erum báðir sammála um það að bókin um Einar Ben er einkar áhugaverð. Því miður talaði Hannes ekkert um bókina heldur einbeitti hann sér að gamalli bók um Jón Þorláksson sem hann skrifaði sjálfur. Hann bar saman persónur Jóns og Einars og komst að þeirri niðurstöðu að Jón hefði verið meiri maður en Einar. Fyrir vikið virtist honum finnast hann sjálfur vera meiri maður en ævisöguritari Einars enda hefði hans maður haft vinninginn í þessum samanburði.

Að lokum notaði Hannes tækifærið til að auglýsa bók sem hann hafði sjálfur tekið saman sem samanstendur af gamansögum af ýmsum Íslendingum. Af forsíðunni var mynd af Össuri Skarphéðinssyni sem bendir til þess að Hannes hafi fundið einhverjar spaugilegar og líklega pínlegar sögur af formanni Samfylkingarinnar og gaman væri að sjá hvort sambærilegar sögur af forsætisráðherra hafi ratað í rit Hannesar.

holmsteinn.is
Ég ætla að halda áfram að horfa á Hannes. Hann gerir mig svo glaðan. Það er ekki alltaf gaman að vera ég en ég er þó a.m.k. ekki Hannes. Hannes er hinsvegar Hannes, og hæst ánægður með það. Hann virðist samt gera sér grein fyrir því að megin þorri almennings deilir ekki aðdáun hans á sjálfum sér. Hann deyr þó ekki ráðalaus. Sem áróðursmaður veit hann að ef sama lygin er endurtekin nógu oft fer fólk að trúa henni. Þess vegna mun hann halda áfram að upphefja sjálfan sig í sjónvarpi þangað til að hvert mannsbarn á Íslandi verður meðlimur í aðdáendaklúbbi Hannesar Hólmsteins. Sem formaður þess félags býð ég ykkur velkomin.

Deildu