Hvernig á að svindla í kosningum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/12/2000

15. 12. 2000

Hingað og ekki lengra. Ég er búinn að fá mig fullsaddann á tilvísunum manna í niðurstöður einhverra skoðanakannana á netinu. Ég er þó aðallega orðinn þreyttur á öllum þeim ruslpósti sem ég fæ reglulega sendan frá hinum og þessum sjálfskipuðu „spindocturum“ þar sem ég er hvattur til að taka þátt í einhverri ömurlegri skoðanakönnun á […]

Hingað og ekki lengra. Ég er búinn að fá mig fullsaddann á tilvísunum manna í niðurstöður einhverra skoðanakannana á netinu. Ég er þó aðallega orðinn þreyttur á öllum þeim ruslpósti sem ég fæ reglulega sendan frá hinum og þessum sjálfskipuðu „spindocturum“ þar sem ég er hvattur til að taka þátt í einhverri ömurlegri skoðanakönnun á Silfri Egils, Pressunni eða öðrum ágætum vefmiðlum. Ástæðan er auðvitað sú að netkannanir eru svo ómarktækar að upplýsingagildi þeirra er nákvæmlega ekki neitt. Til þess að sýna fólki fram á þessa staðreynd, og í veikri von um að losna við ruslpóst, hef ég ákveðið að sjóða saman einfaldar leiðbeiningar um hvernig má auðveldlega svindla í netkönnunum.


Áður en ég hefst handa við að sýna ykkur hve auðvelt er að svindla í netkosningum vil ég segja eftirfarandi: Þó að ekki væri hægt að svindla í þessum kosningum þá væru niðurstöður þeirra engu að síður algjört bull. Það eru svo margir aðferðafræðilegir gallar á þessum könnunum að ég get ómögulega skilið hvers vegna fjölmiðla- og fréttamönnum dettur yfirleitt í hug að fjalla um niðurstöður þeirra.

Tvær ofureinfaldar leiðir til að svindla

1) Notaðu alla vafrana þína
Ólíkt þeim skoðanakönnunum sem eitthvað mark er takandi á er ekkert sem hindrar mann í því að kjósa oft í netkönnunum. Ef þú ert bæði með vafrana Internet Explorer og Netscape setta upp á tölvunni þinni þá getur þú til dæmis auðveldlega kosið með þeim báðum. Þú getur í raun sett fjölmarga vafra í tölvuna þína og kosið með þeim öllum ef þú vilt. Einfaldara getur það varla verið.

2) Slökktu á cookies
Eina ástæðan fyrir því þú getur yfirleitt bara kosið einu sinni í netkönnunum er sú að vefsvæðið sem geymir netkönnunina setur nokkurskonar merkimiða (mín þýðing á enska orðinu cookies) með upplýsingum um þig á vafrann þinn þegar þú nýtir þér kosningarétt þinn. Næst þegar þú ferð á síðuna „sér“ vefsíðan þennan merkimiða og bannar þér að kjósa aftur. Málið er að þú sem notandi getur ráðið því hvort vefsíður setja slíka merkimiða á vafrana þína. Hér koma einfaldar leiðbeiningar um hvernig þú kemur í veg fyrir að vafrinn þinn taki við slíkum merkimiðum:

Fyrir Internet Explorer notendur:
Farðu með músarbendillinn á valstikuna og veldu Tools og svo Internet Options…. Þegar Internet Options valmyndin birtist smelltu þá á Security-flipann. Veldu þar Custom Level og þá birtist gluggi sem kallast Security Settings. Í Security Settings eru að finna ýmsar stillingar en það eina sem þú þarft að gera er að finna orðið Cookies og smella á Disable þar sem stendur „Allow cookies that are stored on your computer“ og „Allow per session cookies [not stored]“.

Fyrir Netscape notendur:
Farðu með músarbendillinn á valstikuna og veldu Edit og svo Preferences…. Þegar Preferences valmyndin er komin á skjáinn skaltu smella á orðið Advanced sem þú finnur vinstra megin í glugganum. Veldu síðan Disable cookies.

Til hamingju. Nú getur þú kosið eins oft og þú vilt í flestum skoðanakönnunum á netinu. Ef þú hefur áhyggjur af því að uppáhalds stjórnmálaflokkurinn þinn sé að verða undir í einhverri könnuninni á netinu þá þarftu ekki að ónáða vini þína með leiðinlegum ruslpósti. Þú getur einfaldlega stillt vafrann þinn og séð sjálfur um að leiða þína menn örugglega til sigurs. En mundu, það er ljótt að svindla.

Deildu