Aðskiljum skóla og kirkju

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

01/11/2000

1. 11. 2000

,,Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentsins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists.“ Þetta er ein af mörgum vafasömum setningum sem eru að finna, ekki á heimasíðu sértrúarsöfnuðar heldur, í námskrá Björns Bjarnasonar um grunnskólann. Við á Skoðun höfum reglulega bent á siðleysið […]

,,Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentsins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists.“ Þetta er ein af mörgum vafasömum setningum sem eru að finna, ekki á heimasíðu sértrúarsöfnuðar heldur, í námskrá Björns Bjarnasonar um grunnskólann.

Við á Skoðun höfum reglulega bent á siðleysið sem felst í því að stunda trúboð í ríkisreknum skólum eins og óneitanlega er gert hér á landi. Trúboð í grunnskólum er auðvitað bein afleiðing þess að hér á landi eru ríki og kirkja ekki aðskilin heldur ein og sama stofnunin. Önnur alvarleg afleiðing eru hreinræktaðar sögufalsanir sem eru að finna í nýútgefinni námsskrá um grunnskóla.

Líf, starf og dauði Jesú eru ekki sögulegir atburðir. Engar sagnfræðilegar heimildir benda til þess. Hvað þá meint upprisa hans. Það getur varla talist eðlilegt að í ríkisreknum almenningsskólum sé sagt frá gömlum goðsögnum rétt eins og um sagnfræðilegar staðreyndir séu að ræða. Sannleikurinn er einfaldlega sá að Jesú er ekki sagnfræðileg persóna ekki frekar en Herkúles, Óðinn, Bel eða Mithra. Eftir hann liggja engin rit né heldur eftir meinta samferðarmenn hans.*

Ef það er eitthvað sem ætti að banna kennurum að gera með lögum þá er það að ljúga beint eða óbeint að nemendum sínum. Ef stjórnvöld telja það nauðsynlegt að segja börnum frá trúarbrögðum þá verður sú kennsla ávallt að vera byggð því sem rétt og satt er. Þetta þýðir að banna á kennurum að kenna goðsagnir trúarbragða nema að það sé tekið skýrt fram að þetta séu einmitt goðsagnir en ekki sagfræðilegar staðreyndir. Einnig verður að gera öllum trúarbrögðum og lífsskoðunum (t.d. trúleysi) jafnt undir höfði. Annað er óeðlilegt í lýðræðisríki.

Trúboð skólanna
Trúarleg innræting eða ,,siðferðiskennsla“ tengd ákveðnum trúarbrögðum ætti aldrei að eiga sér stað í opinberum skólum eins og dæmin sanna því miður að nú er gert. Nokkrar vel valdar setningar úr námsskrá um grunnskóla sýna þó glögglega að trúarleg innræting er eitt af markmiðum grunnskólans:

,,Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans…“.

Markmiðin með kristinfræðikennslu eru samkvæmt námsskrá meðal annars að nemendur:

,,efli trúarlegan… þroska sinn“.

,,verði betur fær um að skilja og njóta trúarlegrar tjáningar í tónlist, myndlist og bókmenntum“.

,,kynnist kristinni sköpunartrú og skoði sjálfan sig, umhverfi sitt og samskipti við aðra í ljósi hennar“. (Í ljósi gamallar goðsagnar?).

,,kynnist frásögunum af fæðingu Jesú, læri einfalda jólasálma og kynnist íslenskum jólasiðum“. (Er það í verkahring menntamálaráðherra að kenna börnum sálma? Jólin eru auk þess upprunalega heiðin hátíð þar sem verið er að fagna fæðingu sólarinnar).

,,hafi öðlast góða innsýn í kristilegt siðgæði og tileinkað sér samskiptareglur sem byggjast á kærleika, mannhelgi, félagslegu réttlæti og umhyggju fyrir öðrum mönnum, öllu lífi og umhverfi“. (Hér er orðinu kristilegt ofaukið).

,,kynnist völdum sögum af lækningakraftaverkum Jesú, m.a. sögunni af lama manninum, krepptu konunni og holdsveiku mönnunum tíu.“ (Sem væntanlega eru sagnfræðilegar staðreyndir rétt eins og upprisa Jesú).

,,geri sér grein fyrir því hvaða þýðingu krossdauði Jesú og upprisutrúin hefur fyrir kristna einstaklinga andspænis dauðanum og þá von sem henni tengist“. (Á að kenna þetta í skólum? Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir trúlausa og þá sem eru annarar trúar?)

,,læri um frásagnir Matteusar guðspjallamanns af aðdragandanum að fæðingu Jesú og atburðum sem tengjast komu vitringanna frá Austurlöndum“. (Þetta eru sögusagnir byggðar á ónafngreindum guðspjöllum sem enginn veit hver skrifaði).

,,skilji merkingu bænarinnar Faðir vor“. (Á bænakennsla heima í skólum?)

,,kunni skil á siðbót Marteins Lúters…“. (Á Íslandi er gyðingahatarinn Lúter oftast kynntur nemendum sem siðbótamaður og sem hálfgerður dýrlingur. Það er ósatt og því ekki viðeigandi kennsluefni).

Ný námsskrá – martröð fríþenkjarans
Ný námsskrá menntamálaráðherra og það trúboð sem stundað er í íslenskum skólum er áfall fyrir fríþenkjara og lýðræðisþenkjandi fólk og sýnir okkur hve nauðsynlegt er að ríki og kirkja verði tafarlaust aðskilin.

Undirritaður bíður nú spenntur eftir því að einhver duglegur fjölmiðlamaður taki sig til og krefji menntamálaráðherra svara um hvers vegna trúboð er stundað í grunnskólum landsins sem með réttu ættu að vera borgaralegar stofnanir en ekki trúarlegar.

* Nánari umfjöllun um þessa fullyrðingu má m.a. finna í greininni Formaður félags ungra jafnaðarmanna segir satt. En þar svara undirritaður ásökunum um að stunda sögufölsun.

Deildu