Eitt sem ég get ekki annað en furðað mig á er hversu hrifnir margir fjölmiðlamenn eru af skoðanakönnunum, sérstaklega skoðanakönnunum sem þeir ættu að geta sagt sér sjálfir að eru með öllu ómarktækar. Gott dæmi um þetta er einn af uppáhalds fjölmiðlamönnunum mínum. Egill Helgason, hinn spræki umsjónarmaður þess ágæta þáttar Silfurs Egils, virðist hafa ofvirka trú á skoðanakönnunum sem framkvæmdar eru á netinu. Hann hefur í tveimur síðustu þáttum sínum gert mikið úr niðurstöðum netkannana án þess að minnast á verulegar takmarkanir slíkra kannana.
Netkannanir eru einskis virði
Nú ætla ég ekki að þykjast vera neinn snillingu þegar aðferðafræði er annars vegar. Ég veit þó að það eru fjölmargar ástæður fyrir því að við eigum ekki að taka nokkurt minnsta mark á skoðanakönnunum.Ég læt mér samt duga að benda á tvennt. Eitt sem við verðum að athuga er hvernig úrtakið (svarendur) er valið. Í netkönnunum er úrtakið sjálfvalið, hver og einn svarandi ákveður hvort hann svarar eða ekki (og jafn vel hversu oft hann svarar, það sé mismunandi auðvelt frá einni könnun til annarrar en alls staðar hægt að kjósa oft ef viljinn er fyrir hendi). Annað sem vert er að athuga er hversu vel úrtakið endurspeglar heildina. Í netkönnunum má gera ráð fyrir að svarendur séu yngri og tæknivæddari en almennt gerist meðal þjóðarinnar, að því ógleymdu að það er afskaplega misjafnt hverjir leita hvert á netinu. Fleira má nefna um réttmæti skoðanakannana sem á jafnt við hvort sem spurt er á netinu eða með öðrum hætti. Hvernig er spurt? Hvaða svarmöguleikar eru gefnir? Við hvaða kringumstæður er spurt? Síðasta á ef til vill sérstaklega við um netkannanir, það er til dæmis vert að athuga hvaða umfjöllun er við hlið könnunarinnar og hvaða áhrif hún hefur á niðurstöðurnar.
Ég ætla svo sem ekki að segja að allar netkannanir séu illa unnar af þeim sem framkvæma þær, þó það læðist óneitanlega að mér sá grunur að menn leggi minni metnað í svo ódýra könnun en könnun sem kostar tugi eða hundruðir þúsunda. Ég er hins vegar ekki í nokkrum vafa um að niðurstöður þeirra eru með öllu ómarktækar. Reyndar er ágætt að geta rannsóknar Þorláks Karlssonar og Þórólfs Þórlindssonar sem þeir gerðu á niðurstöðum úr könnunum Gallups þar sem úrtakið var valið með slembivali úr þjóðskrá annars vegar og könnunum Morgunpóstsins, DV og Stöðvar 2 hins vegar þar sem úrtakið valdi sig sjálft með því að hringja í ákveðin símanúmer. Vissulega munaði ekki nema 3% í einni spurningu (hvort skattleggja ætti blaðburðarbörn, nær allir voru á móti) en í fimm af sjö spurningum var munurinn 10%, 20% og allt upp í 47% (hvort Reykjavíkurlistinn hefði staðið sig vel í stjórn borgarinnar, 33,6% voru ánægðir í sjálfvalda úrtakinu en 80% í skoðanakönnun Gallup).
Aftur að fjölmiðlamanninum frækna
Í þætti sínum fyrir viku lagði Egill út af skoðanakönnun sem gestir á heimasíðu hans hafa getað svarað. Þar komst hann að því að mikill meirihluti er fyrir því að einkavæða Ríkisútvarpið í hluta eða heild. Gott og vel en það vöknuðu hjá mér nokkrar spurningar. Hverjir svöruðu? Hversu gamlir eru þeir? Hvaða stjórnmálaskoðanir hafa þeir? Hvar á landinu eru þeir búsettir? Síðast en ekki síst vaknaði spurningin: Hver hefði niðurstaðan orðið í nákvæmlega sömu könnun ef hún hefði ekki birst á heimasíðu Egils Helgasonar heldur á heimasíðu Ríkisútvarpsins?