Af hverju er setning Alþingis kirkjuleg athöfn?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

06/10/2000

6. 10. 2000

Það er fáránlegt og í raun algjört hneyksli að setning Alþingis allra Íslendinga skuli ár hvert hefjast með messu og bænagjörð í trúarhúsi sumra landsmanna. Síðast þegar ég gáði þá komu störf Alþingis kristinni trú nákvæmlega ekkert við. Ráðamenn eru duglegir við að lýsa því yfir að hér á landi ríki trúfrelsi en mýmörg dæmi […]

Það er fáránlegt og í raun algjört hneyksli að setning Alþingis allra Íslendinga skuli ár hvert hefjast með messu og bænagjörð í trúarhúsi sumra landsmanna. Síðast þegar ég gáði þá komu störf Alþingis kristinni trú nákvæmlega ekkert við. Ráðamenn eru duglegir við að lýsa því yfir að hér á landi ríki trúfrelsi en mýmörg dæmi sýna fram á annað.

Alþingi – kristilegur vinnustaður
Tengsl ríkis og kirkju, kristnihátíðin á Þingvöllum og kristin“fræðsla“ í grunnskólum landsins eru þekkt dæmi um hvað það vantar verulega mikið upp á að hér ríki raunverulegt trúfrelsi. Það að löggjafarþing Íslands sé að hluta til kristilegur vinnustaður er annað alvarlegt dæmi um skort á trúfrelsi hér á landi.

Sú staðreynd að setning Alþingis er að hluta til kirkjuleg athöfn er hreinasta móðgun við lýðræðisþenkjandi fólk og þá sem játa ekki kristna trú. Er það hluti af starfi alþingismanna að hlusta á predikun um gildi kristninnar og að fara með bænir? Ég hélt ekki. Hvað með þá alþingismenn sem játa ekki kristna trú og eru jafnvel trúleysingjar? Eiga þeir kannski ekki heima á þingi? Það er að minnsta kosti það sem gefið er í skyn. Ég bíð bara eftir því að alþingismenn verði krafnir um að fara með bænir áður en þeir stíga upp í ræðustól og verði látnir fara með trúarjátninguna áður en þeir fá að taka þátt í þingstörfum Alþingis.

Alþingi á að vera óháð stofnun
Alþingi á skilyrðislaust að vera hlutlaus borgaraleg stofnun og ætti því auðvitað að vera algjörlega óháð kirkjunni og öðrum valdastofnunum. Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er sífellt að verða háværari meðal almennings en alþingismenn og stjórnmálaflokkar veigra sér enn við að taka afgerandi afstöðu í þessu mikilvæga máli. En er það nokkuð undarlegt? Hvernig er hægt að ætlast til að alþingismenn geti tekið hlutlausa afstöðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju þegar vinnustaður þeirra er að forminu til Þjóðkirkju-kristilegur?

Deildu