Fyrir hvað stendur G?

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

11/10/2000

11. 10. 2000

Í gær skrifaði G. Pétur Matthíasson, fráfarandi deildarstjóri afnotadeildar RÚV athygliverða grein þar sem hann málar svarta mynd að hætti vísindaskáldsagnahöfunda af framtíð þar sem RÚV hefur verið fært í hendur einkaaðilum. Reyndar sýnist mér að G. þessum gangi gott eitt til með greinarskrifum sínum og hann bendir á margar skynsamlega þætti sem verður að […]

Í gær skrifaði G. Pétur Matthíasson, fráfarandi deildarstjóri afnotadeildar RÚV athygliverða grein þar sem hann málar svarta mynd að hætti vísindaskáldsagnahöfunda af framtíð þar sem RÚV hefur verið fært í hendur einkaaðilum. Reyndar sýnist mér að G. þessum gangi gott eitt til með greinarskrifum sínum og hann bendir á margar skynsamlega þætti sem verður að hafa til hliðsjónar í þeirri umræðu um framtíð ríkisfjölmiðlunar á Íslandi. Hinsvegar er ekkert í rökum hans sem útilokar einkavæðingu ríkisútvarpsins.


Í upphafi greinarinnar hrapar hann að þeirri ályktun að þeir einkaaðilar sem tækju við rekstri RÚV myndu rugla dagskrána og margfalda afnotagjaldið. Þetta finnst honum vond tilhugsun enda er erfitt að sjá hversvegna nokkur maður myndi borga sjálfviljugur fyrir dagskrárgerð Sjónvarpsstöðvar ríkisins. Það sem hann kýs að líta framhjá er að það er ekki sjálfgefið að nýir eigendur kysu að takmarka aðgang fólks að stöðinni. Afnotagjöld eru hverfandi hluti af tekjum fjölmiðla auk þess sem opin sjónvarpsstöð er vænlegri kostur fyrir auglýsendur, sem eru helsta tekjulind fjölmiðla.

Mér þótti þó mun verra þegar G. reynir að telja lesendum sínum trú um að það séu mikil foréttindi að fá að greiða afnotagjald af RÚV. Fyrir tilstilli afnotagjaldsins sé RÚV útvarp þjóðarinnar en væri það sett á fjárlög ríkisins væri það ekki lengur miðill fólksins. Þó ég sé á móti því að RÚV sé sett á fjárlög þá get ég ekki annað en bent á þá rökvillu sem G. gerir. Ríkissjóður og þeir fjármunir sem ríkið hefur úr að moða eru peningar þjóðarinnar. Eign þjóðarinnar á RÚV er í gegnum ríkið en ekki afnotagjaldið. Það skrítna er að þrátt fyrir að RÚV sé ríkisrekin sameign þjóðarinnar, og að þjóðin greiði þessi afnotagjöld, þá hefur þjóðin ekkert að segja um þennan rekstur.

Mér fannst líka skrítið þegar G. dró máli sínu til stuðnings mótmæli eldriborgara fyrir utan Alþingishúsið og tengdi skylduákrift af RÚV við kjarabætur þeirra. Hann taldi að fæstir eldriborgara hefðu efni á að greiða svimandi háar fúlgur fyrir aðgang að sjónvarpi. Hann leit hinsvegar framhjá barnafjölskyldum, námsmönnum, láglaunafólki, öryrkjum og þeim eldriborgurum sem ekki hafa áhuga á að neyta dagskrár RÚV og hafa ekki efni á að kosta neyslu þeirra sem það hafa. Hann gleymir því líka að ekki er sjálfgefið að nýir eigendur RÚV vildu rugla dagskránna.

Sterkustu rök Gés voru hinsvegar þau að myrkur upplýsingaskorts og einangrunar myndi leggjast yfir sveitir landsins ef RÚV væri einkavætt enda væri óarðbært að höfða inn á svo fábreyttan markað. Ég felst á að þetta sé hætta en hana má fyrirbyggja með því að úthlutun á útsendingarétti fylgi sú kvöð að miðillinn nái til allra landsmanna innan ákveðinna tímamarka. Auk þess munu tækniframfarir sjá okkur fyrir ódýrari lausnum til dreifingar útvarpsefnis en þeirri að viðhalda kostnaðarsömum endurvarpsstöðvum.

G. lendir svo endanlega í mótsögn við sjálfan sig í niðurlagi greinar sinnar. Eftir að hafa dásamað RÚV sem ódýran kost í samanburði við ruglaðar stöðvar fer hann að bísnast yfir því að RÚV sé haldið í spennitreyju enda hafi þeir aðeins fengið að hækka afnotagjöld sín um fimm prósent á síðustu árum. Þetta hafi orðið til þess að þeir hafi þurft að bæta sér tekjumissinn með auglýsingum og kostun en ekki verði seilst lengra í þá átt. Þessi orð Gés má skilja sem svo að yfirvofandi séu gjaldskrárhækkanir en það fer engan veginn saman við rök hans um að ágæti stöðvarinnar felist í því hve lág afnotagjöld hennar eru.

G. virðist ríða fram á ritvöllinn vegna þess að hann vill verja það sem hann telur hag þjóðarinnar. Á sama tíma mælir hann fyrir rekstri sem augljóslega er það ekki. Fyrir vikið eru skoðanir hans fullar af rökvillum og mótsögnum. Því vil ég varpa fram spurningunni: Fyrir hvað stendur G?

Deildu