Nú má telja ljóst að baráttan um að verða forsetaefni Demókrata er nú á milli sósíaldemókratans Bernie Sanders og Joe Biden. Frá því um helgina hafa þrír frambjóðendur í forvalinu hætt. Fyrst hætti milljarðamæringurinn Tom Steyer, síðan unga vonarstjarna miðjumanna Pete Buttigieg og nú síðast Amy Klobuchar öldungadeildarþingmaður frá Minnesota. Buttigieg og Klobuchar hafa bæði lýst yfir stuðningi við Joe Biden. Nú skiptir höfuðmáli hvað Elizabeth Warren mun gera en hún er almennt talin næst Sanders í skoðunum og líklegust til að taka fylgi frá honum.
Eins og Sanders hefur Warren talað fyrir gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi og gegn misskiptingu. Warren hefur gengið verr í forvalinu en bæði Buttigieg og Klobuchar sem bæði eru hætt eins og áður segir. Mikill þrýstingur er nú víða á að Warren dragi sig í hlé og styðji framboð Sanders.
Sanders er sigurstranglegur á Super Tuesday
Aldrei fyrr í sögunni hefur eins framsækinn frambjóðandi og Sanders átt möguleika á því að verða forsetaefni Bandaríkjanna. Sanders hefur sigrað í þrem fylkjum (Iowa, New Hampshire og Nevada) af þeim fjórum sem nú þegar haldið forval en Biden sigrað í einu (South Carolina). Kannanir undanfarna daga benda eindregið til þess að Sanders muni hljóta flesta kjörmenn í því forvali sem fram fer næsta þriðjudag, á hinum svokallaða „ofur-þriðjudegi“ (e. Super Tuesday). Þá verður kosið í 14 fylkjum, þar á meðal þeim fjölmennustu, California og Texas.
Ljóst er að íhaldið í Demókrataflokknum ætlar að gera sitt besta til að stöðva Sanders. Nú þegar Buttigieg og Klobuchar hafa bæði lýst yfir stuðningi við Joe Biden verður áhugavert að sjá hvað Warren mun gera, vonandi fyrir kosningarnar á þriðjudag.
Sjálf á Warren svo gott sem engan möguleika á því að sigra forvalið enda hefur hún verið langt frá því að sigra í þeim fylkjum sem þegar hefur verið kosið í og mælist illa í könnunum að undanförnu. Ef Warren dregur sig í hlé og styður Sanders af krafti gæti hún svo gott sem tryggt honum sigurinn og orðið hetja meðal þeirra sem vilja róttækar breytingar. Ef hún aftur á móti dregur lappirnar gæti hún skemmt fyrir Sanders sem stendur henni mun nær í pólitík en Joe Biden. Framsækið vinstrafólk í Bandaríkjunum, og um heim allan, myndi seint fyrirgefa henni það.