Jafnaðarmenn vilja að öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta sé gjaldfrjáls með öllu. Sjúklingar eiga ekki að þurfa að taka upp veskið þegar þeir fara til læknis eða leysa út nauðsynleg lyf. Nauðsynleg tannlæknaþjónusta og sálfræðiþjónusta á að sjálfsögðu einnig að vera gjaldfrjáls. Það er réttur okkar að hafa greiðan aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu.
Stjórnmálamenn sem berjast gegn þeim sjálfsögðu mannréttindum um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu skilja annað hvort ekki að margir samlandar þeirra hafa ekki efni á viðeigandi þjónustu eða þessum stjórnmálamönnum skortir einfaldlega samkennd.
Þegar nauðsynleg heilbrigðisþjónusta eins og sálfræðiþjónusta er haldið fyrir utan samtryggingarkerfið er það ekkert annað en skattur á fátækt fólk.
Ég þekki kostnaðinn sem til fellur vegna geðheilbrigðisþjónustu of vel sjálfur. Kostnaðurinn er gríðarlegur, stundum hátt í 100 þúsund á mánuði. Sem betur fer er ég með ágætar tekjur og á skilningsríka fjölskyldu. Þannig er það ekki hjá öllum.
Tugir Íslendinga falla fyrir eigin hendi á hverju ári, margfalt fleiri en látast í umferðarslysum svo dæmi sé tekið. Í ljósi þess er það þjóðarskömm að geðheilbrigðisþjónusta sé ekki aðgengileg og gjaldfrjáls.
Það þarf að stórbæta heilbrigðiskerfið og það kostar fjármagn. Ég sem jafnaðarmaður vil ég finna það fjármagn, jafnvel þó það kalli á skattahækkanir. Við eigum að vera stolt af því að taka höndum saman og byggja upp besta og aðgengilegasta heilbrigðiskerfi í heimi.