Þegar vel liggur á mér er ég sannfærður um að mannlegt samfélag hafi aldrei verið betra en einmitt í dag. Í gegn um aldirnar höfum við ýtt aftur hulu hjátrúar og fordóma og hvert skref virðist gera samfélagið ögn frjálslyndara og mannúðlegra. Það er reyndar mín persónulega hjátrú að kapítalisminn og lýðræðið eigi í seinni tíð stóran þátt þessari þróun og því get ég sagt með þunga sannfæringarinnar að ég sé lýðræðissinni.
Lýðræði er margrætt hugtak. Okkur er kennt það í grunnskóla að orðið þýði að fólkið ráði. Svo er þessi lexía ítrekuð í gaggó og menntó þangað til að við trúum þessari staðhæfingu möglunarlaust og fjórða hvert ár fáum við staðfestingu á valdi okkar þegar við fáum að kjósa okkur þingfulltrúa til allt að fjögurra ára.
En lýðræðið er eitthvað annað og meira en almennur kosningaréttur og fulltrúalýðræði í þingræði er aðeins ein útfærsla á lýðræði, og því miður ekki sérstaklega góð útfærsla. Vandamálið við lýðræði er að það er ekki spurning um allt eða ekkert heldur kemur það í mismunandi stigum.
Á einum enda skalans höfum við algert, eða beint lýðræði. Þeirri hugmynd hefur verið haldið á lofti af stórhuga draumóramönnum að með tækniframförum samtímans verði hægt að afleggja fulltrúalýðræðið og almenningi verði gert kleyft að kjósa um málefnin beinni kosningu. Ég ætla ekki að efast um að þetta sé tæknilega framkvæmanlegt. Vandamálið er hinsvegar að flestir hafa hvorki tíma né áhuga á að kynna sér þau málefni sem ríkið þarf að taka ákvarðanir um og því er hætta á að niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu yrði handahófskennd eða mótuð af áróðri og því ekki endilega þegnum ríkisins til góða þó þeir hefðu tekið beinan þátt í ákvarðanatökunni. Hin hættan er sú að þátttaka í slíkum atkvæðagreiðslum yrði fremur lítil og á endanum gætum við setið uppi með einhverskonar „alræði hinna áhugasömu“ sem tækju ákvarðanir fyrir allt samfélagið án þess að hafa fengið til þess umboð, en það hafa þó kjörnir fulltrúar á Alþingi a.m.k. fengið.
Á hinum enda skalans getum við sett fulltrúalýðræði í þingræði þar sem stjórnmálaflokkar eru milliliður þegnana við stjórnkerfið. Þetta er það fyrirkomulag sem við þekkjum á Íslandi í dag og er lítið annað en táknrænt lýðræði því völdin eru fjarri höndum almennings. Stór hluti vandans felst í þeim stofnunum sem stjórnmálaflokkar eru.
Markmið stjórnmála
Stjórnmál snúast um völd og helsta markmið stjórnmálaflokks er að ná þessum völdum. Þetta gerir flokkurinn auðvitað undir merkjum einnar eða annarar hugmyndafræði sem hann þykist ætla að framfylgja komist hann í aðstöðu til þess.
Hinsvegar vill það gjarnan verða svo að þingfulltrúar flokksins, sem gjarnan mynda forystu hans, hafa þá tilhneygingu að einblína á það markmið að halda og ná völdum og því vilja hugsjónirnar glatast í valdabaráttunni, sér í lagi ef þær kunna að hafa slæm áhrif á fylgi flokksins í kosningum.
Í næstu grein minni ætla ég að snúa sjónum mínum okkar að lýðræðinu eins og það er stundað á Íslandi samtímans í þeirri von að geta komið auga á ágalla kerfisins og vonandi lagt fram hugmyndir um hvernig megi bæta það.