Árið 1819 voru samin lög í Bretlandi til að koma í veg fyrir vinnuþrælkun barna. Með lögunum átti að banna atvinnurekendum að ráða börn yngri en níu ára í vinnu. Tíu til sextán ára börn máttu þó enn vinna, en aðeins í tólf tíma á dag.
Íhaldsmenn brugðust illa við þessari róttæku tillögu og sögðu lögin „aðför að frelsinu“.
„Vinna á að vera frjáls“ sögðu þeir. Aðrir bentu á að slíkt fordæmalaust bann myndi stórskaða efnahagslífið.
Tæpum 200 árum síðar garga varðhundar „frelsisins“ þegar lagðar eru til umbætur á vinnumarkaði:
„Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir styttingu vinnuvikunnar efnahagslegt hryðjuverk í samtali við Viðskiptablaðið í dag. Hann segir að hugmyndir Íslendinga um að þeir vinni of mikið „byggi á grafalvarlegum misskilningi.“
Í erindi sem sem Hannes hélt nýlega á málþingi um styttingu vinnuviku sagði hann frumvarp til styttingar vinnuviku vera atlögu að samningsfrelsinu. Frumvarpið var lagt fram að þingmönnum Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingar.“ (Sjá Kvennablaðið)
Munum að nánast allar umbætur fyrir vinnandi fólk, og fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum getur ekki unnið, hafa verið púaðar niður af valdafólki.
Í hugum íhaldsmanna eru umbætur venjulega „aðför að frelsinu“. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera.
Munum það.