Lýðskrum hægrimanna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/06/2016

7. 6. 2016

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki ánægður með Pírata. Sakar þá um lýðskrum að hætti vinstrimanna, m.a. vegna þess að þeir vilja hækka fjármagnstekjuskatt og bjóða upp aflaheimildir. Talandi um lýðskrum þá segir Brynjar einnig: „Með hærri fjármagnstekjuskatti mun fjarmagnið leita annað og þá munu skatttekjur minnka.“ Þetta er tóm vitleysa sem á sér engar […]

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki ánægður með Pírata. Sakar þá um lýðskrum að hætti vinstrimanna, m.a. vegna þess að þeir vilja hækka fjármagnstekjuskatt og bjóða upp aflaheimildir.

Talandi um lýðskrum þá segir Brynjar einnig:

„Með hærri fjármagnstekjuskatti mun fjarmagnið leita annað og þá munu skatttekjur minnka.“

Þetta er tóm vitleysa sem á sér engar stoðir í raunveruleikanum. Ríkt siðlaust fólk fer með fjármagn sitt annað þrátt fyrir að fjármagnstekjuskattur sé mun lægri en venjulegur tekjuskattur, bara ef það kemst upp með það. Eins og dæmin sanna.

Helstu skattsvikararnir eru þeir sem reyna að komast hjá því að borga lágan fjármagnstekjuskatt en ekki venjulegt launafólk. Af hverju spyrja hægrimenn aldrei af hverju venjulegt launafólk flýi ekki í sama mæli vegna þess að það borgar skatta?

Fyrirtæki og einstaklingar líta til margra atriða þegar kemur að ákvörðun um að vera áfram í einhverju landi eða fara eitthvert annað. Skattar hafa einhver áhrif en alls ekki síður hafa mikilvæg atriði eins og almenn menntun, öryggi, félagslegur- og pólitískur stöðugleiki, glæpatíðni og almenn félagsþjónusta áhrif.

Það vill enginn í raun búa í samfélagi þar sem mikil misskipting er til staðar, fátækt er mikil, fáfræði og menntunarleysi ríkjandi, glæpir tíðir og pólitísk ólga.

Þess vegna er jafnaðarstefnan mikilvæg, hvort sem hún kemur frá Pírötum, Samfylkingunni, Vinstri grænum eða öðrum sem skilja að hagur heildarinnar, samfélagið, skiptir meira máli en einkahagur og sérhagsmunir einstaklinga og fyrirtækja.

Deildu