Nú þegar forsætisráðherra hefur „stigið til hliðar“ spyrja margir hverju sé eiginlega verið að mótmæla?
Það er verið að mótmæla þeirri augljósu veruleikafirringu og siðrofi að nokkrum manni þyki eðlilegt að forsætisráðherra, sem hefur verið hrakinn úr embætti fyrir spillingu, velji sjálfur hver taki við af honum. Það er verið að mótmæla því að sami maður fái að ráða því hvernig næsta ríkisstjórn verður skipuð. Það er verið að mótmæla því að Sigmundur Davíð segist ítrekað hafa „stigið til hliðar“, ekki sagt af sér.
Forsætisráðherrann fráfarandi hefur ekki einu sinni beðist afsökunar á því að ljúga að þjóðinni. Hann hefur ekki beðist afsökunar á því að geymt fjölskylduauðinn í skattaskjóli. Hann hefur ekki beðist afsökunnar á því að hafa leynt augljósum hagsmunum. Það eina sem hann hefur beðist afsökunnar á er að hafa staðið sig illa í viðtali.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki heldur sýnt neina iðrun eða auðmýkt. Engum þeirra dettur í hug að segja af sér þrátt fyrir tengingar við skattaskjól. Það er verið að mótmæla því.
Það er verið að mótmæla því að stjórnmálamenn sem eru algerlega rúnir öllu trausti skuli gera allt sem þeir geta til að halda völdum áfram í stað þess að biðjast afsökunar og boða til kosninga strax.
Það er verið að mótmæla því að siðlausir pólitíkusar fái að halda áfram að vera við völd með þeim ömurlegu rökum að þeir hafi styrkan þingmeirihluta. Varan sem kjósendur keyptu fyrir síðustu kosningar með atkvæði sínu var augljóslega svikin. Innihaldsmerkingar voru ekki réttar og því eru kaupin ógild.
Það er verið að mótmæla því að kjósendur fái ekki að skila atkvæði sínu og kjósa upp á nýtt!