Um afstæðishyggju og trúboð í skólum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

12/07/2011

12. 7. 2011

Bjarni Karlsson sóknarprestur hefur skrifað enn eina greinina til að kvarta yfir tillögum sem fjalla um samskipti skóla og trúfélaga í borginni. Ég fullyrði að hann setur engin ný gagnleg rök fram í grein sinni og því óþarfi að svara henni efnislega. (Þeir sem eru áhugasamir um efnið geta skoðað greinar um skóla og trú […]

Bjarni Karlsson sóknarprestur hefur skrifað enn eina greinina til að kvarta yfir tillögum sem fjalla um samskipti skóla og trúfélaga í borginni. Ég fullyrði að hann setur engin ný gagnleg rök fram í grein sinni og því óþarfi að svara henni efnislega. (Þeir sem eru áhugasamir um efnið geta skoðað greinar um skóla og trú hér).

Það sem vakti athygli mína í nýjustu grein Bjarna, og ég vil fjalla um, er daður hans við afstæðishyggju. Virðist hann vera þeirrar skoðunar að allar hugmyndir og skoðanir séu jafnar og því geti skólakerfið ekki gert neinar kröfur til þeirra sem eiga aðild að skólastarfi. Í grunnskólana eiga allir „ábyrgir“ aðilar að vera velkomnir með „sín gildi og skilaboð, gefa innsýn í list sína, heimsmynd, þekkingu og ástríðu sína á öllum mögulegum sviðum.„

Í grein sinni vill Bjarni benda á þá „alvarlegu rökvillu sem fólgin er í hugmyndinni um hlutlausan, ógildishlaðinn vettvang í skólum borgarinnar“. Hann segir að það sé „almenn félagsvísindaleg vitneskja að hvert félag og stofnun hefur sín gildi, meðvituð og ómeðvituð“ og svo segir hann að „[h]ver persóna ber með sér sinn skilning á heiminum og ber vitni þeirri heimsmynd sem hún hefur eignast.“

Umrædd grein er ágætt dæmi um afstæðishyggju. Hugmyndafræði sem getur ekki gengið upp og er vægast sagt siðferðilega vafasöm. Þeir sem aðhyllast afstæðishyggju geta ekki gagnrýnt eða dæmt neitt. Ekki einu sinni þá sem gagnrýna afstæðishyggju. Enda er hver persóna með sinn „skilning á heiminum“ og því hrokafullt og jafnvel rökleysa að segja að skilningur einnar manneskju sé eitthvað ómerkilegri en skilningur annarra.

Því miður er afstæðishyggja nokkuð algeng hjá ákveðnum hóp vinstrimanna sem berst fyrir umburðarlyndi og mannréttindum „jaðarsettra“ hópa. Ekki vegna þess að það sé beinlínis siðferðilega rangt* að mismuna fólki, heldur vegna þess að allar skoðanir, hneigðir og athafnir eru jafnar. Ekkert er í raun betra en annað, bara öðruvísi. Umburðarlyndi byggt á menningarlegri afstæðishyggju er stórhættulegt.

Þeir sem ganga hvað lengst í afstæðishyggjunni neita að taka afstöðu til ýmissa siðferðisspurninga, einfaldlega vegna þess að þeir telja að það sé ekki hægt. Það er til að mynda ómögulegt, í það minnsta vafasamt, að gagnrýna foreldra sem berja börnin sín ef slíkt hefur tíðkast í æsku þeirra eða heimalandi. Að sama skapi er ekki hægt að setja út á fólk frá öðrum menningarheimum sem er með haturs- og ofbeldisfullar trúar- eða stjórnmálaskoðanir. Allt er jú afstætt.

Að lokum vil ég taka fram að þessi grein er bara minn skilningur byggður á þeirri heimsmynd sem ég hef eignast. Öll gagnrýni verður túlkuð sem smættun, jaðarsetning og sem tákngerving valdatengsla.

*Skilgreining á hvað er siðferðilega rétt og rangt er efni í aðra grein. Í stuttu máli tel ég að allt það sem valdi óþarfa sársauka, þjáningu, óhamingju o.s.frv. hjá einstaklingum sé siðferðilega rangt.

 

Deildu