Ég er búinn að eyða nokkrum kvöldstundum í að kynna mér Google+. En Google+, eða Plúsinn eins og ég kýs að kalla þennan nýja samskiptavef, er svar leitarrisans Google (en ekki hvers?) við Facebook. Ég er á því að Plúsinn gæti slegið gegn. Í fljótu bragði virðist mér sem að Plúsinn sameini kosti Twitter (sem ég reyndar nota lítið) og Facebook. Þar að auki er útlit Plússins stílhreinna og meira aðlaðandi en Facebook.
Ekki spurning um vini, heldur út á að verða „hringaður“
Ólíkt Facebook þarf maður ekki að eiga neina „vini“ til að vera í samskiptum við annað fólk á Google+. Plúsinn gengur ekki út á að eignast vini heldur út á að verða „hringaður“ (sem mér finnst, af einhverjum ástæðum, hljóma hálf dónalega…).
Þannig get ÉG boðið ÞÉR að fylgjast með mér en geri um leið enga kröfu til þess að ÞÚ leyfir mér að fylgjast með þér (náðir þú þessu?). Að hringa einhvern er engin skuldbinding. (Af hverju hljómar þetta svona dónalega?)
Leiðbeiningar
Hægt er að fá fínar leiðbeiningar um Plúsinn hér: http://www.google.com/+/demo/.
Meðfylgjandi veggspjald útskýrir einnig ágætlega hvernig Plúsinn virkar:
Svo bendi ég einnig á þennan fína leiðbeiningabækling sem er reglulega uppfærður (enda höfundarnir rúmlega 120 talsins):
Gagnlegar Chrome íbætur fyrir Google+
Mjög gott er að nota Chrome vafrann með Plúsnum (enda Chrome í eigu Google). Nú þegar eru komnar út nokkrar gagnlegar Chrome íbætur fyrir Google+. Ég nefni hér nokkrar:
1) Replies and more for Google+ bætir viðmótið og auðveldar notendum að deila efni t.d. á Facebook.
2) +Comment Toggle setur athugasemdir við færslur í felliglugga.
3) Extended Share for Google Plus auðveldar þér að deila því sem þú skrifar á Google+ á Facebook, Twitter og LinkedIn.
Samantekt
Plúsinn er glænýr samskiptavefur stofnaður til höfuðs Fésbókarinnar. Vefurinn er augljóslega enn í mótun en byrjunin lofar góðu.
p.s. Hringaðu mig! 🙂