Nú er tíminn til að gera Ísland að forystulandi í notkun rafmagnsbíla. Það er raunhæfur möguleiki að rafmagnsvæða allan íslenska bílaflotann á nokkrum árum öllum til hagsbóta. Ísland er land umhverfisvænnar orku og mikillar tækniþekkingar og mjög öflugir rafmagnsbílar eru nú þegar framleiddir (nánar um það hér fyrir neðan). Það eina sem þarf er búa þeim viðunandi umhverfi.
Það er sérkennilegt að nú þegar „vinstri/græn“ ríkisstjórn er við völd hér á landi í fyrsta sinn sé lítið sem ekkert fjallað um umhverfismál. Allt púður fer í að skera niður velferðarkerfið til að borga skuldir sem auðmenn hafa skilið eftir sig og í fimleikaæfingar til að þóknast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum útvörðum auðvaldsins. Niðurlæging Íslendinga, og vinstrimanna sérstaklega, er algjör.
Ekki bara umhverfismál
Hröð og markviss áætlun um rafmagnsvæðingu bílaflota Íslands yrði ekki einungis mikilvægt skref í umhverfismálum heldur einnig frábær landkynning. Það er ekki vanþörf á að bæta ímynd Íslands eftir atburði síðustu missera. Brennuvargar í jakkafötum hafa skilið eftir sig sviðna jörð og brunafýlan finnst langt yfir landhelgina.
Hvers vegna Ísland?
Allar forsendur eru fyrir því að Ísland taki að sér forystu í notkun rafmagnsbíla. Ólíkt flestum öðrum löndum er hér næg umhverfisvæn orka. Við getum framleitt rafmagn í miklu magni án þess að brenna kol eða með því að nota aðrar mengandi aðferðir. Ísland er fámenn eyja með tiltölulega gott vegakerfi. Tækniþekking hér er mikil, menntun landsmanna góð og aðgangur að rafmagni til fyrirmyndar víðs vegar um landið.
Hvað þurfa stjórnvöld að gera?
Það eina sem þarf til er ákvörðun stjórnvalda og tímasett áætlun um hvernig skuli gera Ísland að forystulandi í notkun rafmagnsbíla. Hér er einföld hugmynd að áætlun.
- Setja markmið um fjölda rafmagnsbíla hér á landi á næstu 10-20 árum.
- Safna upplýsingum um kosti og galla rafmagnsbíla og kynna þær niðurstöður.
- Vera í sambandi við helstu framleiðendur rafmagnsbíla og óska eftir samstarfi.
- Gera höfuðborgina rafmagnsbílavæna með því að setja upp „rafstöðvar“ víðsvegar um borgina (þar sem hægt er að fylla bílinn að rafmagni og láta skipta um batterí ef þarf).
- Afnema alla tolla og gjöld á umhverfisvæn farartæki og jafnvel hækka tolla á nýjar mengandi bifreiðar.
- Hugsanlega niðurgreiða rafmagnsbíla til að tryggja að þeir séu ódýrari í innkaupum en hefðbundnir bílar.
- Gera kaup á rafmagnsbílum meira aðlaðandi með ýmsum aðgerðum. T.d. með útgáfu „grænna korta“ sem gerir eigendum rafmagnsbíla kleyft að leggja ókeypis í bílastæði í miðbænum.
- Stefna að því að selja rafmagnsbílaeigendum raforku á stóriðjuverði, eða því sem næst, þegar fram líða stundir.
Kostnaðurinn við allar þessar aðgerðir þarf ekki að vera mikill á meðan hagnaðurinn fyrir þjóðarbúið gæti orðið gríðarlegur til lengri tíma. Til að mæta upphafskostnaði er hugsanlegt að selja rafmagn á aðeins hærra verði til að greiða fyrir uppbyggingu „rafstöðva“ og annarrar þjónustu víðs vegar um landið. Flestir tækju því vel enda rafmagn margfalt ódýrara en bensínið. Það ætti að vera, í það minnsta, tíu sinnum ódýrara að „fylla“ rafmagnsbíl en bensínbíl. Sparnaðurinn fyrir heimilin í landinu gæti því orðið gríðarlegur.
Það má engan tíma missa. Ef Íslendingar vilja taka forystu í þessum efnum þarf að hefjast handa strax.
Upplýsingar um rafmagnsbíla
Að lokum er ekki úr vegi að benda á gagnlegar upplýsingar um rafmagnsbílatæknina og hvað er í boði. Hér fyrir neðan er að finna bæði tengla á gagnlegar vefsíður og nokkur myndbönd. Ég mæli sérstaklega með að lesendur horfi á myndina „Who Killed The Electric Car?“ en hún fjallar um hvernig GM (General Motors) og aðrir bílaframleiðendur hafa komið í veg fyrir almenna útbreiðslu rafmagnsbíla. Fyrirlestur Shai Agassi um fyrirtæki hans Better Place og kosti rafmagnsbíla er einnig afar áhugaverður.
Mynbönd
Vefsíður
- Topp tíu: bestu rafmagnsbílarnir
- Umfjöllun um nokkrar tegundir rafmagnsbíla
- Tesla Motors (rafmagnsbílaframleiðandi)
- Better Place (þjónusta fyrir rafmagnsbíla)