Nýverið las ég tvær bækur eftir John Perkins um efnahagsböðla (Economic Hit Men). Bækurnar heita „Confessions of an Economic Hit Man“ og „The Secret History of the American Empire: The Truth About Economic Hit Men, Jackals, and How to Change the World“. Báðar þessar bækur hafa fengið nokkra umfjöllun í fjölmiðlum og á netinu, sérstaklega sú fyrri.
Af einhverjum ástæðum hafa bækur Perkins fengið óverðskuldað á sig hinn illræmda samsæriskenningarstimpil. Bækur Perkins fjalla ekki um samsæri leynisamfélaga gegn blásaklausum almúganum. Í bókum sínum bendir Perkins á hvernig hagsmunir stórfyrirtækja og stjórnmálamanna (sem oft eru nátengdir stórfyrirtækjum) eiga sjaldanast samleið með hagsmunum almennings. Stórveldi og stórfyrirtæki hafa arðrænt og farið illa með fátækt fólk, svo vægt sé til orða tekið, víðs vegar um heiminn. Oft með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra sambærilegra stofnanna.
Ég hvet sem flesta til að lesa þessar bækur, sérstaklega stjórnmálamenn sem hafa oftrú á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og stórfyrirtækjum.