Á hverjum degi les maður fréttir af því að „útrásarvíkingar“ og aðrir góðborgarar hafi fengið hundruð og jafnvel þúsund milljónir að láni hjá bönkum fyrir hlutabréfakaupum þar sem einu veðin (þ.e. eina trygging bankanna sem lána) eru í sjálfum bréfunum sem á að kaupa. Nú er ég bara fátækur og fávís iðjuþjálfi sem skilur ekki svona lánastarfsemi. Fyrir mér hljómar þetta eins og að fara út í banka og biðja um 300 milljón króna lán fyrir lottómiðakaupum þar sem einu veðin eru í lottómiðunum sjálfum.
Ef ég vinn í lottó (hlutabréfin sem ég kaupi hækka í verði) get ég borgað bankanum, ef ekki má hann eiga lottómiðana (hlutabréfin) sem vitaskuld eru verðlausir. Nú eru eflaust meiri líkur á því að græða á hlutabréfum en lottómiðum en það breytir því ekki hversu kjánaleg ofangreind lánastarfsemi er. Hvaða áhættu tekur lántakandinn? Svör óskast.