Hræðslan við Evrópu

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

08/05/2000

8. 5. 2000

Það veldur Evrópusinna eins og mér vonbrigðum að Samfylkingin skyldi ekki hafa kjark til að lýsa því yfir á stofnþingi sínu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Hvers vegna þetta hik? Þrátt fyrir að öflug félög innan Samfylkingar, Félag frjálslyndra jafnaðarmanna og Ungir jafnaðarmenn, bæru fram tillögur um að sækja bæri um aðild að […]

Það veldur Evrópusinna eins og mér vonbrigðum að Samfylkingin skyldi ekki hafa kjark til að lýsa því yfir á stofnþingi sínu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu.


Hvers vegna þetta hik?
Þrátt fyrir að öflug félög innan Samfylkingar, Félag frjálslyndra jafnaðarmanna og Ungir jafnaðarmenn, bæru fram tillögur um að sækja bæri um aðild að Evrópusambandinu fékkst ekki fram skýrari stefna en sú að það ætti að ræða málið.

Þessi stefna sem Samfylkingin kom með fyrir síðustu kosningar er orðin þreytt. Evrópumálin hafa verið í umræðunni frá 1989 í ýmsum myndum og með ólíkum áherslum. Ef fólki hefur ekki gefist ráðrúm til að mynda sér skoðun á þessum ellefu árum er ekki ástæða til að ætla að fólki gefist það, sama hversu mikið menn ætla að ,,ræða málin“. Ef fólk hefur ekki myndað sér skoðun er það mikið til vegna þess að það hefur ekki viljað það.

Þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni meirihlutafylgi almennings við aðild að Evrópusambandinu, og enn meira fylgi meðal stuðningsmanna Samfylkingar, telur stofnþing Samfylkingar ekki ástæðu til að taka afstöðu. Slíkur leikur verður leiðigjarn til lengdar, hann var skiljanlegur fyrir síðustu kosningar þegar menn kunna að hafa óttast að Samfylkingin færi út um þúfur en nú ber hann aðeins vott um að forysta Samfylkingar hiki við að taka afstöðu.

Forystumenn valda vonbrigðum
Ummæli manna eins og Össurar Skarphéðinssonar og Ara Skúlasonar hafa valdið mér vonbrigðum. Báðir teljast til hóps mikilla Evrópusinna, í það minnsta ber málflutningur þeirra síðustu árin ekki vitni um annað. Nú bregður hins vegar svo við að þeir vilja fara sér hægt og fara í mikla og vandlega umræðu. Umræðu sem á að undirbúa þjóðina undir ákvarðanatöku. Umræðu sem á að ná sátt um stefnu í Evrópumálum. Umræðu sem þegar hefur farið fram þó svo sumir hafi neitað að taka þátt í henni og aðrir eru mislangt á veg komnir. Stundum er ástæða til að bíða eftir öðrum, stundum ekki. Ég hallast að því að það síðara eigi við núna. Það er ekki alltaf hægt að láta vagninn bíða eftir þeim sem seinkar.

Það vill svo til að reynslan hefur sýnt að þeir sem best kynna sér kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu hafa iðulega orðið Evrópusinnar. Þetta er reynsla Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem var andvíg Evrópusambandinu en varð fylgjandi aðild að því þegar hún kynnti sér málin betur, sjálf lýsti hún þessu svo í viðtali sem birtist í riti ungs Samfylkingarfólks fyrir síðustu kosningar: ,,…ég sökkti mér ofan í Evrópumálin í ein tvö ár og eftir því sem ég las meira og gróf betur ofan í þessi mál, þeim mun nauðsynlegra fannst mér að Íslendingar stæðu ekki utan við þróunina í Evrópu“. Þá hefur ekki farið milli mála hversu miklu jákvæðari margir Framsóknarmenn hafa orðið gagnvart Evrópusambandinu eftir að formaður þeirra tók við embætti utanríkisráðherra og gaf sér tíma til að skoða málin betur. Framsóknarflokkurinn var vel að merkja á móti EES-samningnum og taldi hann ávísun á að hingað flæddu útlendingar, stælu störfunum okkar og keyptu upp Ísland þannig við yrðum öreigar í eigin landi. Nokkrir þingmenn, með Halldór Ásgrímsson í fararbroddi sátu reyndar hjá við atkvæðagreiðslu þar sem þeir deildu ekki áhyggjum flokkssystkina sinna.

Að ræða málin til dómsdægurs
Sú árátta manna að segjast alltaf ætla að ræða málin er skaðleg. Hún tefur það að teknar verði ákvarðanir um hvað skuli gera. Hún spilar beint upp í hendurnar á þeim sem ekki vilja sækja um aðild að Evrópusambandinu og vilja helst ekki ræða málin. Það þagnarbindindi sem Evrópumálin voru svo lengi í á vettvangi íslenskra stjórnmála var nefnilega ekki forsætisráðherra að kenna sem sagði málið ekki á dagskrá. Það var þeim Evrópusinnum og stjórnmálamönnum að kenna sem hlýddu honum og vældu svo af og til um frekjuna í Davíð.

Deildu