Rasismi og takmörkun útlendinga á Íslandi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/04/2000

7. 4. 2000

Í bréfi sem barst Skoðun í gær er undirritaður sakaður um að ,,rugla saman rasisma og þeirri umræðu sem hér hefur farið fram síðastliðna mánuði“ í grein sem hér var birt þann 31. mars síðastliðinn (Einsleitt eða fjölmenningarlegt samfélag?). Hreint land = Fagurt land Bréfritari, sem ekki vill láta nafn síns getið opinberlega*, bendir á […]

Í bréfi sem barst Skoðun í gær er undirritaður sakaður um að ,,rugla saman rasisma og þeirri umræðu sem hér hefur farið fram síðastliðna mánuði“ í grein sem hér var birt þann 31. mars síðastliðinn (Einsleitt eða fjölmenningarlegt samfélag?).

Hreint land = Fagurt land
Bréfritari, sem ekki vill láta nafn síns getið opinberlega*, bendir á að þeir sem vilja takmarka fjölda útlendinga á Íslandi séu ekki endilega allir rasistar. Þessu get ég verið sammála enda man ég ekki til þess að hafa gefið slík tengsl í skyn í fyrrnefndri grein minni. Það veikir hins vegar óneitanlega allan málflutning bréfritara að fyrirsögnin á bréfinu hans er „Hreint land = Fallegt land“. Þó eftirlæt ég lesendum mínum um að dæma það hvert bréfritari er nákvæmlega að fara með þessari fyrirsögn.

Innflytjendum fylgja vandamál
,,Staðreynd málsins er sú að innflytjendum fylgja vandamál. Líttu t.d. á Danmörk og Svíþjóð. Þar hafa ríkisstjórnirnar hleypt mikið af illa menntuðum útlendingum sem ekki tala tungumál landanna sem þau eru að fara til. Fólkið í þessum löndum má svo ekki tala um það að það vilji ekki fá fleiri útlendinga án þess að eiga það á hættu að vera úthrópað kynþáttahatarar. Mikill hluti þessa fólks lendir í fátæktragildru vegna þess að það er illa menntað og tala ekki tungumál þeirra landa sem þau fara til“

Vissulega geta innflytjendum fylgt ýmis vandamál. Þessi vandamál tengjast, eins og ég hef áður bent á, til að mynda þeirri félagslegu einangrun sem útlendingar verða fyrir vegna tungumálaörðugleika. Ef útlendingar fá ekki næga tungumálakennslu er lítil von til þess að þeir nái að fóta sig í hinu nýja samfélagi. Tungumálakunnátta er einnig forsenda þess að aðfluttir einstaklingar geti fengið störf við hæfi og aflað sér nánari menntunar. Innflytjendurnir eru því ekki vandamálið heldur frekar hvernig er staðið að því að hjálpa þeim að aðlagast nýju samfélagi.

,,Ekki nóg með það að fólkið verði fátækt, heldur gerir það einnig aðra íbúa landsins fátækara. Bæði vegna þess að íbúar sem fyrir eru þurfa að borga hærri skatta (það þarf jú að hjálpa þessu fólki að koma undir sig fótunum), en einnig eykst framboð ófaglærðra á vinnumarkaði sem veldur því að laun illa menntaðs fólks lækka en meir. Ég vill líka benda á óeirðir milli kynþátta sem eiga stað með reglulegu millibili og að innflytjendur lenda mun oftar í afbrotum (a.m.k. í skandinavíu) en þeir sem eru fæddir og upp aldir í landinu.“

Þrjár leiðir
Að mínu viti eru bara þrjár leiðir sem Íslendingar geta farið er varðar innflytjendur:

1. Við getum bannað öllum þeim sem ekki eru nógu ríkir, nógu menntaðir eða iðka nógu líka menningu og hinn meðal Íslendingur að setjast að hér. Þannig komum við vissulega í veg fyrir hinn svokallaða útlendingavanda en förum um leið á mis við að auðga íslenskt mannlíf auk þess sem við vanrækjum þá skyldu okkar að aðstoða flóttafólk og annað bágstatt fólk til að öðlast von um betra líf.

2. Við getum gert sömu mistök og margar þjóðir með því að leyfa nánast ótakmörkuðum fjölda útlendinga að setjast hér að án þess að veita þeim nægilega aðstoð við að aðlagast nýju landi.

3. Við getum lært af mistökum annara þjóða og veitt innflytjendum næga aðstöð til að aðlagast nýju samfélagi. Til dæmis með öflugu tungumálanámi, tækifærum til menntunar o.s.frv. Einnig þarf að mínu mati að stórbæta kennsluaðferðir í skólum landsins til að kenna börnum að vera umburðalynd gagnvart fólki af öðrum kynþáttum og frá öðrum menningarsvæðum.

Leið eitt er að mínu mati ómannúðleg einangrunarhyggja, leið tvö er heimskuleg þar sem hún leiðir óhjákvæmlega til félaglegra vandamála á meðan leið þrjú er mannúðleg, skynsamleg og þar af leiðandi rétt.

*Að gefnu tilefni skal það tekið fram að bréf eða úrdráttur úr bréfum sem lesendur senda okkur er aldrei birt á Skoðun undir nafni sendanda nema ritstjórn Skoðunar hafi fengið leyfi fyrir því.

Deildu