Óboðlegt ástand í meðferðarmálum barna

Unglingar í gönguferð
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/10/2024

17. 10. 2024

Í nýlegri umfjöllun Kveiks um Stuðla og óboðlegt ástand í meðferðarmálum barna kom óþægilega lítið nýtt fram. Ástandið sem lýst er í þættinum og í fréttum í kjölfarið hefur verið sambærilegt frá a.m.k. 2010. Ef eitthvað er hefur staðan versnað og úrræðum fækkað.

Í nýlegri umfjöllun Kveiks um Stuðla og óboðlegt ástand í meðferðarmálum barna kom óþægilega lítið nýtt fram. Ástandið sem lýst er í þættinum og í fréttum í kjölfarið hefur verið sambærilegt frá a.m.k. 2010. Ef eitthvað er hefur staðan versnað og úrræðum fækkað.

Nánast allt sem fjallað var um í Kveik hef ég, ásamt öðrum, vakið athygli á oft. Mínar athugasemdir komu flestar fram meðan ég starfaði sem forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík árin 2010 til 2022. (ATH: ég starfaði ekki á BUGL, en við áttum oft sömu skjólstæðinga)

Ég gerði margar tilraunir til að vekja athygli á óboðlegu og hættulegu ástandi í meðferðarmálum barna og aðbúnaði þeirra á heimilum og stofnunum. Fyrst líklegast þegar ég skrifaði bréf til velferðarráðherra í apríl 2011. Bréf sem ég sendi þó aldrei, að beiðni yfirmanns velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á þeim tíma. Bréfið þótti ekki viðeigandi. Þess í stað var mér lofað að skipaður yrði starfshópur sem ég fengi að taka þátt í. Sá starfshópur skilaði af sér skýrslu í maí sama ár (2011).

Niðurstaða starfshópsins var ágæt. Að mörgu leyti á sú skýrsla eins við í dag og þá. Niðurstaðan var þó ekki alveg í fullu samræmi við það sem ég vildi segja, eins og gengur. Eftir mig og marga fleiri liggja svo í skúffum mun fleiri áríðandi tillögur og athugasemdir um hvað þyrfti að gera betur.

Í fréttum Rúv 17. október 2024 sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna:

„Það hafa verið margir starfshópar. Það er búið að vinna margar skýrslur. Það vita allir að það er þörf á þessu úrræði og fleiri jafnvel en einu, það er enginn ágreiningur um það. Það hins vegar stendur á framkvæmdum,“.

Þetta er laukrétt greining hjá umboðsmanni barna og í því ljósi langar mig til að birta hér hluta af því sem kom fram í erindi mínu til þáverandi velferðarráðherra árið 2011 og svo einnig ágrip úr skýrslu starfshópsins sem kom út skömmu síðar:

Bréf til velferðarráðherra 2011

Sæll Guðbjartur. Eftir töluverða umhugsun ákvað ég að skrifa þér opið bréf og segja þér frá áhyggjum mínum yfir stöðu barnaverndar á Íslandi. Ástandið er að mínu mati grafalvarlegt og þarfnast tafarlausra viðbragða yfirvalda. Svo ég tali hreint út þá er úrræðaleysið í sumum tilfellum algert, samskipti ólíkra stofnanna sem bera ábyrgð á velferð barna eru í ólagi og álagið á barnaverndarstarfsmenn oft á tíðum of mikið.

Ég hef starfað sem forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík í tæpt ár. Á þessum tíma tel ég mig hafa fengið ágæta innsýn í stöðu barnaverndarmála hér á landi og sú staða er ekki ásættanleg að mínu mati. Ég tel að samfélagið sé í raun að bregðast börnum í neyð. Að sama skapi óttast ég að ef ekki verður brugðist fljótt við sé verið að stefna velferð fjölmargra barna í hættu. […]

Vandinn í hnotskurn – tillögur að úrbótum

Að mínu mati má skipta brotalömunum í barnaverndarmálum gróflega í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er verulegur skortur á viðeigandi úrræðum fyrir börn. Í öðru lagi er álag á starfsfólk sem vinnur í geiranum oft alltof mikið og í þriðja lagi er hlutverk ólíkra stofnanna sem vinna með börn óskýrt og samskiptin ekki í lagi. […]

Úrræðaleysi

1. Það bráðvantar sérhæfð og jafnvel lokuð meðferðarúrræði fyrir unga fíkla.
Ekkert sérhæft áfengis- og vímuefnaúrræði er til fyrir börn á Íslandi í dag og löng bið getur verið eftir öðrum ósérhæfðari, og þar með ófullnægjandi, úrræðum. Á meðan versnar vandinn og fjölskyldur gefast upp.

2. Það þarf að fjölga úrræðum fyrir unga afbrotamenn.
Skortur er á lokuðum úrræðum fyrir unga afbrotamenn á aldrinum 13 til 18 ára. Á Stuðlum er rekin lokuð deild þar sem börn geta verið vistuð vegna óupplýstra afbrota, eða stjórnleysis vegna neyslu. Allt of oft kemur fyrir að öll pláss eru upptekin á Stuðlum sem þýðir að annað hvort verður að vista börn í fangaklefum eða þá að þau fá að ganga laus. Hvorugur kosturinn er ásættanlegur.

3. Bæta þarf geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn.
Of mörg dæmi eru um börn með alvarleg geðræn einkenni fái ekki viðeigandi þjónustu. Að mínu mati þarf að vera til leguúrræði fyrir börn sem eiga við alvarleg geðræn vandamál að stríða. Á ég þá til dæmis við börn sem glíma við þunglyndi, sjálfsvígshugsanir og alvarlegar hegðunarraskanir. […]

Málefni barna í forgang

Með þessu bréfi vil ég hvetja þig til að setja málefni barna í forgang í þínu ráðuneyti. Ég vil hvetja þig til að láta gera heildstæða úttekt á stöðu barnaverndarmála hér á landi, þannig að hægt sé að tryggja öfluga þjónustu til frambúðar. Vandinn í dag er þó að mínu mati það brýnn að bregðast þarf við honum sem allra fyrst. Ég endurtek og ítreka að ég tel að velferð fjölmargra barna sé stofnað í hættu vegna úrræðaleysis.

Með vinsemd og virðingu,
Sigurður Hólm Gunnarsson – iðjuþjálfi
Forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík – Apríl 2011

— Tilvitnun lýkur —

Hér fyrir neðan má svo sjá niðurlag ofangreindrar “skýrslu starfshóps um stöðu í meðferðarmálum ungmenna„ sem gefin var út 17. maí 2011.

Skýrsla starfshóps um stöðu í meðferðarmálum ungmenna – Niðurlag

a) Það þarf að vera til sérhæft vímuefnameðferðarúrræði fyrir börn og unglinga sem eru í vímuefnaneyslu. Nú er um ár liðið síðan Götusmiðjunni var lokað, en þar voru pláss fyrir um 13 börn á aldrinum 16 til 18 ára og þrjú pláss fyrir 18 til 20 ára.

b) Mikil þörf er á lokuðum vímuefnameðferðarúrræðum fyrir börn í vímuefnaneyslu og afbrotum. Á hverjum tíma er alltaf nokkur hópur barna sem ekki hefur getu eða vilja til að stöðva eigin áhættuhegðun. Mikilvægt er að til séu öflug úrræði fyrir þessa einstaklinga sem hægt er að grípa til með stuttum fyrirvara. Leggjum við til að hægt verði að úrskurða börn í slíkar lokaðar meðferðir.

c) Efla þarf neyðarvist Stuðla þannig að þar séu alltaf laus pláss þegar stöðva þarf börn og unglinga í neyslu og afbrotum með engum fyrirvara. Of oft gerist að allt er fullt á Stuðlum.

d) Styrkja þarf þjónustu við börn sem eiga við geðrænan vanda að stríða. Telja skýrsluhöfundar að auka þurfi samstarf við Barna og unglingageðdeild. Þörf er á búsetuúrræðum og/eða langtímaúrræðum á vegum BUGL (hugsanlega í samvinnu við barnaverndaryfirvöld) þar sem fagmenn á sviði heilbrigðisþjónustu geta sinnt börnum með geðræn einkenni.

e) Afeitrun ætti í sumum tilfellum að eiga sér stað inn á BUGL eða annarri heilbrigðisstofnun. Varast ber að hafa börn og fullorðna á sama stað í meðferð.

f) Lagt er til að MST eða sambærilegt úrræði verði nýtt fyrir yngri börn, og fjölskyldur þeirra, en nú er gert. Mikilvægt er að taka á áhættuhegðun barna sem allra fyrst.

g) Auka þarf eftirfylgni með börnum sem hafa farið í meðferð og fjölskyldum þeirra. Til dæmis með öflugum persónulegum ráðgjöfum sem geta aðstoðað börn við að fóta sig í lífinu eftir meðferð. Er þá hér meðal annars átt við aðstoð þegar kemur að námi, vinnu og félagslegum tengslum. Mikilvægt er að slíkir ráðgjafar séu fagmenn og vinni eftir ákveðnum verklagsreglum.

h) Auka þarf skilvirkni í dómskerfinu og samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Mikilvægt er að ungmenni sem fremji afbrot skynji að þeim fylgja afleiðingar.

— Tilvitnun lýkur —

Læt þetta duga í bili.

Færsla á Facebook

Deildu