6 leiðir til að bæta stöðu heimilislausra

Heimilislaus maður
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/02/2023

21. 2. 2023

Það er í sjálfu sér ekki flókið að bæta stöðu heimilislausra heilmikið. Ekki síst þeirra sem glíma við fíknivanda. Það er hægt að gera með einföldum aðgerðum.

Ágæt umfjöllun um stöðu heimilislausra hjá Kompás og góð viðtöl við Maríönnu og Ragnar Erling Hermannsson.

Það er í sjálfu sér ekki flókið að bæta stöðu heimilislausra heilmikið. Ekki síst þeirra sem glíma við fíknivanda. Það er hægt að gera með einföldum aðgerðum.

1) Tryggja öruggt húsaskjól allan sólarhringinn. Þetta er hægt að gera t.d. með faglegum og hlýlegum dagsetrum þar sem fólk fær mat, aðstöðu til að hvíla sig og aðgengi að félaglegri aðstoð og heilbrigðisþjónustu.

2) Aðgengi að öruggum neyslurýmum þar sem fólk í neysluvanda getur notað þau efni sem það er háð í eins öruggum aðstæðum og hægt er og án fordæmingar.

3) Sjá til þess að fólk með fíknivanda fái efnin sín í skömmtun frá lækni. Það er eina leiðin til að draga úr svartamarkaðsbraski, glæpum og hræðilegu ofbeldi. Glæpamenn eiga ekki að græða á veiku fólki og veikt fólk á ekki að þurfa að stunda glæpi til að halda lífi.

4) Koma fram við fólk í þessum aðstæðum af virðingu og tryggja að það fái aðstoð til að hætta neyslu þegar það sjálft er tilbúið og óskar eftir því. Meðferðarúrræði eru mikilvæg en það á aldrei að gera edrúmennsku að skilyrði fyrir því að koma fram við fólk af virðingu.

5) Viðurkenna og skilja að heimilisleysi og neysla er ekki aumingjaskapur eða sjálfskapaður vandi. Það er enginn í þessum aðstæðum að ástæðulausu. Að baki liggja alltaf einhver áföll. Ofbeldi, vanræksla, veikindi, einelti, brotin æska o.s.frv. Það geta bókstaflega allir lent í þessum aðstæðum.

6) Koma öllum sem geta rekið eigið heimili í húsnæði, öðrum í búsetukjarna með viðeigandi þjónustu.

Við sem samfélag getum gert svo miklu betur. Við eigum nóg af peningum og við vitum alveg hvernig við getum bætt líf samborgara okkar. Það eina sem stoppar okkur er viljinn til að gera betur.

Og talandi um kostnað, fyrir þau ykkar sem hafið svo miklar áhyggjur af honum, þá er ég sannfærður um að til lengri tíma kosti það alltaf mun meira, í beinhörðum peningum, að sinna þessum málum illa. Fjárfesting í mannúð er alltaf arðbær.

Þessar hugleiðingar voru birtar fyrst á Facebook

Deildu