Það hefur verið átakanlegt að hlusta á stjórnmálamenn ræða málefni heimilislausra síðustu daga og vikur. Gerð hefur verið sú eðlilega krafa um að neyðarskýli sem heimilislausir neyðast til að nýta séu opin allan sólarhringinn en ekki lokuð á milli 10 á og 17 á daginn. Í staðinn fyrir að taka undir þá eðlilegu kröfu og viðurkenna þau sjálfsögðu mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið hafa stjórnmálamenn, þar á meðal svokallaðir jafnaðarmenn, gert lítið úr ástandinu.
Talsmenn Reykjavíkurborgar hrósa sér fyrir að gera meira en önnur sveitarfélög. Það kann að vera rétt en skiptir í raun engu máli.
Ráðamenn voga sér að kvarta yfir því að almennir borgarar, Rauði krossinn, Hjálpræðisherinn og önnur frjáls samtök samtök séu ekki að gera meira.
Ég trúi ekki mínum eigin eyrum þegar ég heyri svona málflutning. Það er fjandakornið skylda hins opinbrera, ríkis og sveitarfélaga að tryggja að enginn sé heimilislaus. Ef skattar okkar eiga að fara í eitthvað þá er það í að tryggja sjálfsögð mannréttindi þeirra sem hafa það verst í okkar samfélagi. Það er bölvuð frjálshyggja að benda á aðra og hvað þá einkaaðila og frjáls félagasamtök til að leysa sjálfsögð mannréttindamál. Stjórnmálamenn sem tala svona ættu að skammast sín.
Nöldur talsmanna Reykjavíkurborgar um að önnur sveitarfélög séu ekki að standa sig nógu vel er í þesssu samhengi kjánalegt. Reykjavík er höfuðborg Íslands og sem slík ber hún meiri ábyrgð. Tryggja þarf velferð heimilislausra tafarlaust og veita þeim húsaskjól allan sólarhringinn. Óháð veðri. Stjórnmálamenn geta svo rifist um kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga og ríkis á bak við tjöldin.
Ég er jafnaðarmaður og hef lengi kosið Samfylkinguna. Ef talsmenn þess flokks skilja ekki grunngildi jafnaðarstefnunnar og geta ekki varið hagsmuni þeirra verst stöddu í okkar samfélagi möglunarlaust hef ég litla ástæðu til að kjósa þann flokk áfram.
Þetta var jólapistill dagsins.