Um öryggi og mönnun í búsetuúrræðum fyrir börn

Drengur úti í myrkri
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

01/04/2022

1. 4. 2022

Eftir 12 ára reynslu í þessum geira get ég því miður staðfest að öryggi og aðbúnaður bæði barna og starfsmanna er oft á tíðum ábótavant, svo vægt sé til orða tekið. Mikill skortur er á viðeigandi aðstoð og úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda.

Fyrir nokkrum dögum varð starfsmaður í einkareknu búsetuúrræði fyrir ungmenni fyrir alvarlegri líkamsárás af hendi þjónustuþega. Fram hefur komið í fréttum að starfsmenn og stjórnendur vinnustaðarins hafi ítrekað bent á að viðkomandi íbúi sem beitti ofbeldinu hafi áður sýnt af sér ofbeldishegðun og hefði átt að fá þjónustu í öruggara umhverfi. Í úrræði sem ekki er í boði. Einnig hefur komið fram í fréttum að viðkomandi starfsmaður hafi verið einn á vakt vegna veikinda. 

RÚV tók viðtal við Funa Sigurðarson framkvæmdastjóra meðferðarsviðs hjá Barna- og fjölskyldustofu sem segir réttilega að mikilvægt sé að aldrei sé bara einn starfsmaður á vakt í úrræði sem þessu. En er það raunverulega svo?

Fyrr á þessu ári lauk ég störfum sem forstöðumaður í Hraunbergi, skammtímaheimili fyrir unglinga, og hafði þá verið í því starfi síðan 2010. Eftir 12 ára reynslu í þessum geira get ég því miður staðfest að öryggi og aðbúnaður bæði barna og starfsmanna er oft á tíðum ábótavant, svo vægt sé til orða tekið. Mikill skortur er á viðeigandi aðstoð og úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda, álag á starfsfólk oft yfirþyrmandi og þjónusta við börn er, að mér virðist, rekin út frá excel skjali – krónum og aurum, frekar en út frá mannúð, öryggi og velferð. 

Vegna þessa eiga sér stað alvarleg atvik reglulega og því raun bara tímaspursmál hvenær eitthvað svo alvarlegt gerist að það krefst raunverulegra viðbragða þeirra sem bera ábyrgð á barnaverndarmálum. 

Alltaf tveir á vakt?

Strax og ég hóf störf hjá Barnavernd Reykjavíkur árið 2010 sló það mig að í búsetuúrræðum stofnunarinnar var ekki gert ráð fyrir því að það væru að lágmarki tveir starfsmenn á vakt. Í öllum þeim úrræðum sem ég þekkti til var sem dæmi alltaf bara einn starfsmaður á vakt í einu yfir nóttina. Ég gerði reglulega athugasemdir við þetta en svörin voru alltaf á þá leið að tvímönnun væri í senn óþörf og kostaði of mikið. Ég ræddi þessi mál ítrekað innan vinnustaðarins og líka á opinberum vettvangi. Í grein sem ég ritaði 2013 segir meðal annars:

Allsstaðar þar sem unnið er með börnum:

  • eiga að vera til skýrar verklagsreglur um hvernig eigi að bregðast við grun um ofbeldi. Ég er ekki viss um að slíkar reglur séu alls staðar til.
  • á að vera eftirlit með starfseminni þar sem fagfólk tryggir að fyllsta öryggis sé gætt hvað varðar val á starfsfólki og starfsumhverfi. Ég er efins um eftirlit sé í öllum tilfellum fullnægjandi.
  • á að mínu mati að tryggja að fullorðnir geti/þurfi ekki að vera einir með börnum án eftirlits. Þetta veit ég að á ekki við um marga vinnustaði, þar á meðal minn, þar sem það telst of kostnaðarsamt.

Það gerðist þó ekkert í þessum málum á mínum vinnustað fyrr en eftir mjög alvarlegan atburð árið 2018. Þá kom það í ljós að starfsmaður sem hafði unnið þar lengi var til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um alvarleg kynferðisbrot gegn börnum. Sá atburður varð að fjölmiðlaumfjöllun og ég beðinn um að svara fjölmiðlafólki. Í einu viðtalinu sem ég fór í tjáði ég þá skoðun mína að mér þætti, og hefði alltaf þótt, óboðlegt að einn starfsmaður væri á vakt í búsetuúrræði fyrir svo viðkvæman hóp. 

Viðbrögðin sem ég fékk við þessari afstöðu minni voru áhugaverð. Ég var kallaður á fund hjá yfirstjórn Velferðarsviðs og gagnrýndur fyrir að láta þessi orð falla. Var mér tjáð að skortur á mönnun væri alls ekki vandamál og ég beðinn um að ræða ekki opinberlega þessa skoðun mína áfram. Ég sagðist ekki geta orðið við þeirri beiðni enda væri þetta mín skoðun og ég teldi mig hafa fullt frelsi til að tjá hana. Síðar komust sömu yfirmenn að því að ég hefði fjallað um þessi mál á opinberum vettvangi á árum áður og var ljóst að óánægja var með það. 

Það áhugaverðasta og jafnframt hvað sorglegasta í þessu ferli öllu saman er að nokkrum vikum síðar kemur út skýrsla frá innri endurskoðun Reykjavíkurborgar. Í henni er meðal annars er lagt til að tryggt sé að alltaf séu að minnsta kosti tveir á vakt í úrræðum fyrir börn í borginni. Sú tillaga var lögð fyrir Borgarráð, samþykkt og kynnt í fjölmiðlum. Allt í einu var sú fráleita skoðun mín, og ýmissa annarra, um að það þyrftu alltaf að vera tveir á vakt orðin sjálfsögð. En auðvitað gerðist ekkert nema eftir mjög alvarlegt atvik og málið komst til fjölmiðla. 

Eftir þetta var þó allavega tryggt að tveir starfsmenn væru á vakt í búsetuúrræðum sem rekin voru beint af borginni og geri ég ráð fyrir, án þess að vera viss um það, að það sama eigi við um þau einkaúrræði sem Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög kaupa þjónustu af.

Ofbeldi og óöryggi í vanbúnum aðstæðum

Það er því miður ekki nýtt að alvarleg ofbeldisatvik eða mjög hættulega aðstæður komi upp í búsetuúrræðum fyrir börn og ungmenni. Slík atvik áttu sér stað af og til þau ár sem ég starfaði í Hraunbergi. Nokkur alvarleg atvik áttu sér stað bara á þessu ári. 

Í nánast öllum tilfellum komu upp alvarleg atvik vegna þess að við vorum látin taka á móti einstaklingum sem alls ekki áttu heima í úrræðinu. Vegna skorts á viðeigandi úrræðum fyrir ungmenni með alvarlegan hegðunarvanda, sum í alvarlegri neyslu og önnur að glíma við geðræna erfiðleika, voru ungmenni sett inn á heimili sem var alls ekki hannað til að sinna þörfum þeirra og öryggi. Enda sagði skýrt i þjónustulýsingu staðarins:

Ef um ungmenni er að ræða sem eiga við verulega hegðunarerfiðleika, áfengis-eða vímuefnavanda að etja, skal nota úrræði ríkisins s.s. Neyðarvistun Stuðla eða Barna og unglingageðdeild Landspítala, samanber 79.gr barnaverndarlaga um heimili og stofnanir á ábyrgð ríkisins.

Þrátt fyrir þetta hafa viðkvæm börn sem þurftu á miklu sértækari aðstoð að halda verið sett inn á heimili sem ætlað var til að taka á móti börnum sem gátu ekki búið heima hjá foreldrum og forráðamönnum tímabundið vegna aðstæðna. 

Á seinustu árum hefur slíkum tilvikum því miður fjölgað og get ég staðfest að bara á þessu ári voru sett inn börn með mjög alvarlega hegðunarvanda og ofbeldishegðun inn á heimilið sem olli því að bæði starfsmenn og aðrir íbúar voru í bráðri hættu. Þessu var mótmælt af mér sem forstöðumanni og starfsmönnum með engum árangri.

Sjálfur var ég sendur í veikindaleyfi af lækni vegna áverka og afleiðinga líkamsárásar nú seint í janúar. Sú árás hafði að minnsta kosti nokkrum vikum eftir atvikið ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins eða með öðrum hætti. 

Í kjölfarið, eftir að ég fór í veikindaleyfi, var ráðist ítrekað að öðrum starfsmönnum. Um var að ræða líkamsárásir og líflátshótanir þar sem fólk varð fyrir höggum og spörkum og í sumum tilfellum voru notuð eggvopn eða önnur áhöld til að ógna. Lögreglan kom ítrekað á staðinn til að fjarlægja einstaklinga en þeir einfaldlega sendir aftur nokkru síðar þrátt fyrir mjög ógnandi hegðun og ofbeldi. Það er algjör hending að enginn hafi slasast alvarlega. 

Rúmri viku eftir að ég var sendur í veikindaleyfi, vegna ofbeldis á vinnustað, er mér tilkynnt á fundi með mínum yfirmanni að vinnustað mínum verði lokað og öllum starfsmönnum sagt upp. Þá var útskýringin sú að það hefði kostað svo mikið að bregðast við myglu sem upp kom í húsnæði vinnustaðarins að ákveðið hefði verið að fela einkaaðilum að sjá um umönnun barnanna. Sú lausn væri ódýrari. Síðar var sú yfirlýsing að einhverju leyti dregin til baka en þess í stað vísað til athugasemda minna um skort á öryggi á vinnustaðnum sem ástæða lokunarinnar. 

Eftir stendur að mitt nú fyrrum samstarfsfólk er búið að missa vinnuna sína en hefur ekki fengið neina viðurkenning á því að hafa orðið fyrir ofbeldi, óöryggi og þurft að vinna í hættulegu vinnuumhverfi. 

Á fundi með framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra Barnaverndar Reykjavíkur sem haldinn var með starfsmönnum þann 10. mars 2022 (nokkrum dögum eftir að öllum var sagt upp formlega) sögðu bæði framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri að það væri ekki þeirra upplifun að starfsfólk í Hraunbergi hefði verið í neinni hættu. Þessu mótmæltu allir fundarmenn sem margir hverjir höfðu beinlínis orðið fyrir líkamsárásum og líflátshótunum á seinustu vikum. 

Bregðast þarf við strax

Eins og lesendum er nú væntanlega ljóst tel ég að það sé margt athugavert við það hvernig staðið er að faglegri vinnu þegar kemur að barnaverndarmálum hér á landi. Það er margt annað sem ég gæti sagt frá en læt þetta duga í bili. Ég tel þó að nýjum fregnum um ofbeldisatvik á búsetuúrræðum fyrir ungmenni verði að taka alvarlega. 

Við sem samfélag verðum og eigum að tryggja að börn og þeir starfsmenn sem vinna með börnum fái þann stuðning sem þeim ber og þar á kostnaður ekki að skipta nokkru máli. Við búum í auðugu landi og getum gert svo miklu betur. Ég veit um fátt annað sem er eins mikilvægt og að tryggja velferð barna. Ég trúi ekki öðru en að stjórnmálamenn, stjórnendur, stéttarfélög og almenningur allur hljóti að vera mér sammála. 

Sigurður Hólm Gunnarsson 

Fyrrverandi forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga

Heimildir:

https://www.ruv.is/frett/2022/03/31/mikilvaegt-ad-thad-se-aldrei-bara-einn-starfsmadur-a-vakt
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/03/30/alvarleg_likamsaras_a_vinakoti
https://www.visir.is/g/20222242205d/alvarleg-likamsaras-a-starfsmann-vinakots
Deildu