Allir græða á gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/04/2018

19. 4. 2018

Gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi er ekki aðeins mannúðlegt heldur einnig líklegt til að draga úr kostnaði til lengri tíma. Fólk sem er með lágar tekjur eða er í fjárhagsvanda af einhverjum ástæðum getur oft ekki lagt út fyrir læknisheimsóknum og lífsnauðsynlegum lyfjum. Sjúkratryggingar taka vissulega þátt í kostnaðinum en þó ekki fyrr en sjúklingar hafa greitt tugi […]

Gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi er ekki aðeins mannúðlegt heldur einnig líklegt til að draga úr kostnaði til lengri tíma. Fólk sem er með lágar tekjur eða er í fjárhagsvanda af einhverjum ástæðum getur oft ekki lagt út fyrir læknisheimsóknum og lífsnauðsynlegum lyfjum. Sjúkratryggingar taka vissulega þátt í kostnaðinum en þó ekki fyrr en sjúklingar hafa greitt tugi þúsunda. Slíkur kostnaður er mörgum ofviða. Svo má ekki gleyma því að tannlækna- og sálfræðiþjónusta er almennt ekki niðurgreidd nema þegar kemur að börnum.

Þetta fyrirkomulag er ekki eitthvað óumflýjanlegt lögmál heldur val yfirvalda. Sem dæmi eru örfá ár síðan  tannlækningar barna voru gerðar nánast gjaldfrjálsar. Áður sögðu margir að ríkið færi nánast á hausinn við þá aðgerð. Annað hefur auðvitað komið í ljós.

Veikt fólk á oft hvað erfiðast með að skilja flókin kerfi og hvernig það getur fengið aðstoð við að fjármagna sjúkrakostnað sinn. Margir gefast upp og leita seint eða jafnvel ekki til læknis. Þar að auki er ómannúðlegt að fárveikt fólk þurfi að hafa óþarfa fjárhagsáhyggjur.

Í Skotlandi er heilbrigðisþjónusta nánast gjaldfrjáls og sjúklingar þurfa ekki að greiða neitt fyrir lyfseðilskyld lyf. Ef þetta er hægt í Skotlandi þá er það hægt hér á Íslandi.

Kostnaðurinn er ekki of mikill fyrir samfélagið þegar litið er til þess að fólk sem leitar seint eða ekki til læknis er óvinnufært lengur og lendir jafnvel á örorku. Það kostar samfélagið líklegast meira. Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu er því í senn ómannúðleg og heimskuleg.

Deildu