Faðir í fæðingarorlofi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

01/09/2016

1. 9. 2016

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera heima með barninu mínu samfleytt í fjóra mánuði. Einn mánuð í sumarfríi og svo þrjá í fæðingarorlofi. Þetta er lífsreynsla sem ég hefði alls ekki viljað missa af og  er ég sannfærður um að við feðgarnir höfum grætt mikið á þessum tíma saman. Við náðum að tengjast […]

Faðir og barnÉg hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera heima með barninu mínu samfleytt í fjóra mánuði. Einn mánuð í sumarfríi og svo þrjá í fæðingarorlofi. Þetta er lífsreynsla sem ég hefði alls ekki viljað missa af og  er ég sannfærður um að við feðgarnir höfum grætt mikið á þessum tíma saman. Við náðum að tengjast sterkari böndum en ella. Það eru mikil forréttindi bæði fyrir barn og foreldri að fá að vera mikið saman fyrstu mánuði lífsins.

Því er gríðarlega sorglegt að heyra að feður taki síður fæðingarorlof en mæður vegna fjárhagsástæðna. Þannig var það reyndar að einhverju leyti hjá okkur. Ég hef verið með hærri tekjur en konan mín og því var kjaraskerðing fjölskyldunnar minni þegar hún tók orlof. Konan mín tók því sex mánuði en ég þrjá (plús einn í sumarfrí).

Ég hefði glaður viljað taka lengra fæðingarorlof en aðstæður buðu ekki upp á það, meðal annars vegna þess að tekjur skerðast svo mikið. Það er afar mikilvægt að fæðingarorlofið verði bæði lengt og dregið verði úr tekjutengingum. Börnin græða svo mikið á því að vera líka með feðrum sínum fyrstu mánuðina.

Að auki er þetta gríðarlega mikilvægt jafnréttismál. Því miður er það enn þannig að karlmenn eru oft á hærri launum en konur og því taka karlmenn síður fæðingarorlof svo heimilistekjurnar skerðist ekki of mikið. Um leið er það þá orðið „meira vesen“ að ráða konur í vinnu en karla þar sem þær eru líklegri til að taka langt fæðingarorlof. Sú staðreynd kann svo að hafa áhrif á það hvort vinnuveitandi ræður karl eða konu til starfa. Á meðan karlar taka að jafnaði mun styttra fæðingarorlof en konur getur það beinlínis haft áhrif á atvinnumöguleika og atvinnutekjur kvenna.

Ég styð því og hvet stjórnvöld til að bæði lengja fæðingarorlofið og draga verulega úr tekjuskerðingum. Þegar upp er staðið græða allir á öflugu fæðingingarorlofskerfi. Börnin dafna betur, foreldrar tengjast börnum sínum betur og meiri líkur eru á að hamingja aukist í samfélaginu. Hamingjusamur starfsmaður er betri starfsmaður. Allir græða!

Deildu