Brauðmolakenningin er stórhættulegt rugl

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

10/12/2014

10. 12. 2014

Því fyrr sem stjórnmálamenn, og almenningur sem kýs þá til valda, átta sig á því að brauðmolakenningin er stórhættulegt rugl, því betra. Í raun er lífsnauðsynlegt að almenningur átti sig á þessu sem fyrst. Helst fyrir næsta hrun.

skýrsla OECD staðfestir það sem flestir sem eitthvað hafa kynnt sér hagfræði, og sögu mannkyns, vita. Brauðmolakenningin er stórhættulegt rugl. Brauðmolakenningin gengur út á að það sé í sjálfu sér jákvætt að hinir ríku verði ríkari því þá hrökkvi brauðmolar af borði þeirra til hinna fátæku og þar með græði allir. Vandinn er sá að þetta er kjaftæði. Mikil misskipting dregur úr hagvexti en eflir hann ekki.  Ójöfnuður skaðar alla til lengri tíma, ekki bara þá fátæku.

Samkvæmt skýrslunni eru þeir sem tilheyra ríkustu 10% íbúanna nú 9,5 sinnum ríkari en fátækustu 10% íbúa OECD. Á níunda áratug síðustu aldar voru þeir ríkustu sjö sinnum ríkari. Ójöfnuðu hefur því aukist mikið undanfarin 30 ár. Skýrslan staðfestir að það var fyrst og fremst ríka fólkið sem græddi á góðærinu svokallaða. Að sama skapi er það alltaf fátækasta fólkið sem finnur mest fyrir því þegar bóluhagkerfi springa. Fátæka fólkið sem talið er trú um að það sé að græða bóluhagkerfinu tapar alltaf mest.

Það er gríðarlega mikilvægt að draga úr misskiptingu, ekki bara fyrir fátækasta fólkið heldur þjóðfélagið allt. Ef þeir sem hafa lægstu tekjurnar geta ekki gert neitt annað en að greiða skuldir stöðvast hin svokölluðu hjól atvinnulífsins af augljósum ástæðum. Lág- og millitekjufólk ver nánast öllum sínum „auð“ í neyslu (kaupir nauðsynjavörur og þjónustu).

Margir stjórnmálamenn virðast ekki skilja þessi einföldu sannindi. Það eru meira að segja stjórnmálamenn við völd sem halda að niðurskurður í velferðarkerfinu og annarri opinberri þjónustu sé skynsamleg aðferð til að koma hagvexti af stað.

Því fyrr sem stjórnmálamenn, og almenningur sem kýs þá til valda, átta sig á því að brauðmolakenningin er stórhættulegt rugl, því betra.  Í raun er lífsnauðsynlegt að almenningur átti sig á þessu sem fyrst. Helst fyrir næsta hrun.

Viðtal við Sigurð Hólm um brauðmolakenninguna í Harmageddon

Brauðamolakenningin er beinlínis hættuleg (Harmageddon)

 

Deildu