Átt þú rétt á skaðabótum vegna niðurfellingar á flugi?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/10/2014

28. 10. 2014

Í maí á þessu ári fór ég í vinnuferð til Helsinki ásamt nokkrum samstarfsmönnum. Á meðan við vorum stödd úti framfylgdu flugmenn fyrirætlun sinni að neita að vinna yfirvinnu vegna kjaradeilu við Icelandair. Það hafði þær afleiðingar að flug sem við áttum bókað heim þann 11. maí var fellt niður. Þar með urðum við strandaglópar […]
Mynd: http://en.wikipedia.org/wiki/Icelandair

Mynd: http://en.wikipedia.org/wiki/Icelandair

Í maí á þessu ári fór ég í vinnuferð til Helsinki ásamt nokkrum samstarfsmönnum. Á meðan við vorum stödd úti framfylgdu flugmenn fyrirætlun sinni að neita að vinna yfirvinnu vegna kjaradeilu við Icelandair. Það hafði þær afleiðingar að flug sem við áttum bókað heim þann 11. maí var fellt niður. Þar með urðum við strandaglópar í Helsinki í sólarhring. Samkvæmt reglugerð nr. 1048/2012 áttum við því rétt á skaðabótum upp á 400 Evrur auk endurgreiðslu á kostnaði vegna hótelherbergja, uppihalds, ferðakostnaðar (til flugvallar) og  annars aukakostnaðar.

Í kjölfarið tók ég saman greinargerð þar sem ég óskaði eftir að fá greiddar skaðabætur og sendi á Icelandair þann 15. maí 2014.

Eftir nokkrar ítrekanir fékk ég svar þann 5. júní þar sem okkur var lofuð endurgreiðsla vegna kostnaðar (sem staðið var við stuttu síðar) en mér um leið tjáð að við ættum ekki rétt á skaðabótum þar sem verkfallsaðgerðir flokkast undir „óviðráðanlegar aðstæður“:

“Varðandi sérstakar bætur upp á 400 EUR, þá þurfum við því miður að hafna þeirri kröfu ykkar og vísum í því sambandi í reglugerð EB nr. 261/2004  um réttindi flugfarþega.  Samkvæmt henni flokkast verkfallsaðgerðir undir óviðráðanlegar aðstæður,”

Daginn eftir sendi ég Icelandair aftur póst og benti meðal annars á að verkall starfsmanna flugrekanda flokkaðist almennt ekki undir óviðráðanlegar aðstæður:

“Sæl […] og takk fyrir svörin,

Við vonum að endurgreiðsla vegna kostnaðar berist fljótt.

Að sama skapi gerum við athugasemd við að Icelandair sé ekki skaðabótaskylt vegna verkfallsaðgerða. Hef ég sent Samgöngustöfu erindi þar sem þetta kemur meðal annars fram:

1) Mikilvægt er að taka fram að verkfall stóð ekki yfir umræddan dag, heldur var flugi aflýst væntanlega vegna þess að flugmenn unnu ekki yfirvinnu (Í tölvupósti til okkar var ekki talað um verkfall heldur um „niðurfellingu á flugi“).

2) Í svari Icelandair (sjá viðhengi) neitar félagið að greiða skaðabætur þar sem flugi hafi verið frestað vegna verkfalls. („Samkvæmt henni flokkast verkfallsaðgerðir undir óviðráðanlegar aðstæður“ – úr tölvupósti 5. júní 2014).

Umdeilanlegt er að hér hafi verið um verkfall að ræða auk þess sem eftirfarandi segir á vefsíðu Flugmálastjórnar:

„En þegar um verkfall starfsmanna flugrekanda er að ræða þá flokkast verkföll almennt ekki undir óviðráðanlegar aðstæður.“ (http://ww2.caa.is/Flugmalastjorn/Frettir/Frett/183)”

Samdægurs fékk ég annað skýrt svar. Við áttum ekki rétt á skaðabótum:

„Varðandi bæturnar þá er það áfram afstaða Icelandair að vegna aðgerða flugmanna Icelandair í vinnudeilu þeirra getur félagið ekki fallist á að stofnast hafi skylda til greiðslu skaðabóta í samræmi við EB reglugerð 261/2004. Við skiljum að þið viljið leita réttar ykkar hjá Samgöngustofu og gerum þá ráð fyrir að mál ykkar fari í farveg þar.“

Í kjölfarið á þessum samskiptum sendi ég formlegt erindi á Samgöngustofu og óskaði eftir áliti þeirra. Erindið til Samgöngustofu samanstóð af fyrrnefndri greinargerð til Icelandair ásamt samskiptum mínum við starfsmenn flugfélagsins.

Þann 24. október fékk ég svo póst frá Samgöngustofu. Þar segir:

„Þriðjudaginn 21. okt. sl. tilkynnti Icelandair Samgöngustofu að félagið myndi gera upp allar útistandandi kröfur farþega sem urðu fyrir óþægindum vegna aflýsinga og seinkana tengdum verkföllum flugmanna Icelandair.“

Við höfðum semsagt rétt fyrir okkur allan tímann, eins og reyndar augljóst er af lestri þeirra reglna sem til eru um skaðabætur sem farþegar eiga rétt á þegar flugi er aflýst.

Þann 27. október (í gær) hafði ég ekki fengið neinar upplýsingar frá Icelandair þannig að ég sendi þeim enn einn tölvupóstinn og vitnaði í póstinn frá Samgöngustofu frá því 24. október. Samdægurs fékk ég eftirfarandi svar þar sem segir:

„Sæll Sigurður,

Í samráði við Samgöngustofu hefur Icelandair samþykkt að greiða þér 400 evrur.
Vinsamlegast sendu okkur reikningsupplýsingarnar þínar og við göngum frá greiðslunni.“

Í dag, 28. október, fengum við samstarfsfélagarnir loksins greiddar skaðabæturnar sem við áttum allan tímann rétt á. Rúmlega fimm mánuðum eftir að við sendum formlegt erindi og tæpum fimm mánuðum eftir að kröfu okkar var formlega hafnað ítrekað þar sem við áttum ekki rétt á skaðabótum.

Hvers vegna er ég svo að skrifa um þetta hér? Vegna þess að það fer í taugarnar á mér að neytendur þurfi að standa í svo miklu veseni til að fá það sem þeim ber.

Þess má líka geta að  þrátt fyrir upplýsingaskyldu um réttindi farþega skv. heimasíðu Flugmálastjórnar og reglugerð nr. 1048/2012 hafði Icelandair ekki fyrir því að upplýsa okkur um réttindi okkar til skaðabóta á neinu stigi málsins.

Ég velti fyrir mér hvort aðrir farþegar sem áttu bókað flug sama dag og við hafi fengið upplýsingar um réttindi sín og ég velti líka fyrir mér hvort Icelandair ætli sér að upplýsa þá um þessa niðurstöðu Samgöngustofu. Er það kannski þannig að þeir neytendur sem ekki hafa getu eða tíma til að standa í þrasi fá ekki neitt?

Mér finnst sjálfsagt að flugfarþegar fái skýrar upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sín. Því hef ég ákveðið að birta greinargerð mína, sem ég sendi til Icelandair og síðar Samgöngustofu, hér fyrir neðan. Vonandi hjálpar hún einhverjum.

Gagnlegir tenglar:

Ítarefni:

Deildu