Ég drekk áfengi og finnst það oft gott. Ég er hlynntur lögleiðingu flestra (ef ekki allra) vímuefna, þó ég neyti þeirra ekki sjálfur, af því ég tel bannstefnuna í senn mannskemmandi og vita gagnslausa (Sjá: Fíkniefnastríðið er tapað – skaðaminnkun er málið). Samt er ég ekki á því að það sé frábær og gallalaus hugmynd að leyfa sölu áfengis í kjörbúðum. Sala áfengis í matvöruverslunum snýst lítið um frelsi einstaklingsins og ekkert um skaðaminnkun.
Aðgengi að áfengi á Íslandi er gott. Það er hægt að kaupa áfengi alla daga vikunnar nema sunnudag í Vínbúðum víðs vegar um landið. Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að nálgast vínið sitt til klukkan átta á kvöldin.* Margar Vínbúðir eru í göngufæri frá lágvöruverslunum eða annarri þjónustu. Það er ekki hægt segja að það sé eitthvað flókið eða erfitt fyrir fullorðið fólk að kaupa áfengi. Ég því á erfitt með að sjá að frelsi almennings sé stórkostlega skert með núverandi fyrirkomulagi.
Sérstaklega þegar litið er til þess að áfengi er ekki venjuleg vara. Áfengi er vímuefni. Líklegast eitt skaðlegasta vímuefni sem til er. Það dregur alltof marga til dauða, gerir fjölmarga fársjúka og á ríkan þátt í að eyðileggja heilu fjölskyldurnar. Sumir telja áfengi svo hættulegt að það eigi beinlínis að banna sölu þess. Ég er nú ekki sammála því enda skila bönn engu nema aukinni eymd og glæpavæðingu. Eftir stendur að alkahól er hættulegt efni og það er ekkert að því að gera sérstakar kröfur um sölu og dreifingu þess. Landlæknir og aðrir sem fjalla um heilbrigðismál benda á að aukið aðgengi myndi að öllum líkindum auka neysluna og valda frekari eymd að óþörfu.
Eftir stendur þá viðskiptafrelsið. Kaupmenn kvarta yfir því að geta ekki selt áfengi í búðunum sínum. Kaupmenn eru að tapa á núverandi fyrirkomulagi. Hvað með það? Kaupmenn mega almennt ekki heldur selja lyf eða byssur af sambærilegum ástæðum. Sumar vörur eru taldar það hættulegar að skynsamlegt er að hafa sérstakar og strangari reglur um sölu og dreifingu þeirra. Fólk á ekki að taka afstöðu til sölu áfengis í matvöruverslunum út frá hagsmunum kaupmanna.
Niðurstaða
Ef frelsi almennings er ekki stórkostlega skert með núverandi fyrirkomulagi og aukið aðgengi veldur að sama skapi aukinni eymd að óþörfu er fátt sem mælir með því að færa sölu áfengis inn í matvöruverslanir. Helst yrðu það kaupmennirnir sem myndu græða á því. Þá er lýðheilsa mikilvægari að mínu mati.
*Sumir kvarta yfir því að aðgengi fólks á landsbyggðinni að áfengi sé lélegt þar sem engar eru Vínbúðirnar. Það er ekki stórmál að laga það litla vandamál með sérlausnum.