Samskiptavandi foreldra skaðar börn

Logo

Matthías Freyr Matthíasson

Matthías Freyr Matthíasson, oftast nær kallaður Matti Matt, er fæddur 1980 og er uppalinn á Akranesi og starfar hjá Reykjavíkurborg. Faðir stúlku sem er 7 ára gömul. Áhugamaður um baráttu gegn einelti, pólitík, trúmál, mannréttindi. Meðlimur í Bjartri framtíð og formaður ÍTH, Íþrótta og tómstundanefndar í Hafnarfirði Netfang: matti@skodun.is

24/10/2014

24. 10. 2014

Ég las grein á vafri mínu á netinu um daginn þar sem var verið að ræða um hvernig hægt er að láta sameiginlegt forræði/umgengni virka. Mig hefur lengi langað til að setja mína reynslu niður á blað en hef ekki gert það fyrr en núna. Ég skildi árið 2012 eftir tæplega 4 ára hjónaband. Ég ætla […]

Ég las grein á vafri mínu á netinu um daginn þar sem var verið að ræða um hvernig hægt er að láta sameiginlegt forræði/umgengni virka. Mig hefur lengi langað til að setja mína reynslu niður á blað en hef ekki gert það fyrr en núna.

Ég skildi árið 2012 eftir tæplega 4 ára hjónaband. Ég ætla ekki að fara út í ástæður skilnaðarins að öðru leyti en það að ákvörðunin var ekki mín. En eftir stóðum við bæði frammi fyrir því að þrátt fyrir að við værum skilin að þá myndum við alltaf vera hluti af lífi hvors annars því að við eigum jú barn saman, á þeim tíma tæplega 4 ára gamla ofboðslega vel gerða dóttur. Hún er enn ofboðslega vel gerð (hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það). Fyrir mér var þetta einfalt, þrátt fyrir að við værum skilin að þá þykir mér enn vænt um fyrrum konu mína og tel hana til minna bestu vina og það er ekkert sem breytir því. Okkar skilnaður var ekki í illindum og orsökin var ekki svik eða trúnaðarbrestir.

Dóttir okkar er það heppin að hún á móðir sem er einstaklega vel gerð mamma og manneskja og ég held að pabbi hennar sé jú barasta nokkuð ágætur. Við tókum snemma þá ákvörðun að dóttir okkar myndi vera viku hjá mér og viku hjá móður sinni. Fyrir mér og móður hennar að þá er velferð dóttur okkar í fyrirrúmi og því voru allir núansar og erfiðleikar sem komu upp á milli mín og móður hennar (því að þeir koma upp en eru sem betur fer fátíðir) ekki til þess að skapa vandræði í sálarlífi dóttur okkar. Með öðrum orðum höfum við reynt að halda dóttir okkar fyrir utan allan ágreining.

Fyrir mér er það mikilvægt að dóttir mín upplifi það að hún eigi tvö heimili, þ.e. að á okkar heimili eigi hún sitt afdrep og sama er hjá henni og móður hennar. Að hún upplifi aldrei að hún sé bara gestkomandi inni á heimilinu okkar. Það hefur gert það að verkum að dóttir okkar upplifir öryggi og stöðugleika. Hún veit að þegar það er pabbavika að þá gengur hún inn í okkar heimilislíf með þeim reglum sem þar eru en líka inn í sitt umhverfi og sitt skjól og sitt dót. Sama er þegar hún er í mömmuviku. Einnig að þegar þær aðstæður koma upp að hún dvelji lengur á öðrum hvorum staðnum eða komi til annars hvors okkar yfir eina nótt þegar þess ber við að þá er það ekki til þess að rugla eitt eða neitt í henni. Samkiptin eru nefnilega alltaf heiðarleg og í góðu.

Ég er kominn í samband með annarri konu og við bættust tvö börn inn í fjölskylduna okkar. Það var stór breyting fyrir alla og þá kannski sérstaklega dóttur mína sem var vön því að vera bara ein, annarsvegar með foreldrum sínum og síðan ýmist bara með mömmu eða bara með pabba. En þessi umskipti hafa tekist vel og ég tel að því sé meðal annars að þakka að hún upplifir það að móðir hennar er sátt við þessi umskipti og sér að henni líður vel. Dóttir mín sér einnig og upplifir að ég og móðir hennar erum vinir í dag og eigum góð og heilbrigð samskipti.

Ég geri mér grein fyrir því að svo er alls ekki með alla og því miður virðist það vera reyndin að ansi oft – er það heift og reiði og vonbrigði sem stjórna för foreldranna. Þegar svo er þá litast samskipti þeirra skiljanlega og samskiptin hafa áhrif á börin sem upplifa sig þá mitt á milli í einhverri samloku sem er ekki góð á bragðið.

Ég tel að ósætti foreldra eigi að snúast um einmitt það, foreldrana. Ekki láta ykkar eigin biturð/vonbrigði/hatur/reiði smitast út til barna ykkar. Því að það mun gera ykkur eingöngu erfitt fyrir í framtíðinni. Hvort sem manni líkar það betur eða verr þá er maður bundinn þessari manneskju um ófyrirsjánlega framtíð.

Vilji maður geta haldið sameiginlegt afmæli, sameiginlega fermingarveislu eða bara verið í sama rými og hitt foreldrið? Síðan það sem skiptir mestu máli, vill maður að barni manns líði vel og sé sátt í umhverfi sínu?  Ég held að svo sé hægt að segja um flesta foreldra og þá er það skylda hvers foreldris að gera sitt til þess að svo megi verða, þrátt fyrir að það geti þýtt að maður þurfi að leggja manns eigið egó og tilfinningar til hliðar.

Deildu