Morgunblaðið birti ekki minningargreinar um afa í dag eins og óskað hafði verið eftir. Ég birti því mína grein hér. Sigurður Hólm Þórðarson, afi minni, verður jarðsunginn frá Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag, miðvikudaginn 6. ágúst, klukkan 15:00.
Afi minn, nafni og mín helsta fyrirmynd hefur nú kvatt þennan heim. Orð fá því varla lýst hversu mikið mér þykir vænt um Sigga afa og hversu mikil áhrif hann hefur haft á mig.
Þegar ég var lítill var ég svo heppinn að fá að búa um tíma ásamt mömmu minni heima hjá ömmu Gunnu og afa Sigga á Háaleitisbrautinni. Þá var gott að vakna snemma og skríða uppí til ömmu og afa og kúra aðeins lengur. Ég kallaði afa Sigga stundum „afapabba“ því hann tók mikinn þátt í uppeldi mínu og í að móta mig sem einstakling. Ég var heppinn að fá að búa með þeim sem barn því þá mynduðust sterk tengsl milli mín og ömmu og afa. Tengsl sem verða ekki rofin.
Afi minn var í senn trúaður og mikill siðfræðingur. Hann kenndi mér mikilvægi þess að vera góður við annað fólk, að sýna öllum virðingu og dæma ekki. Þann boðskap má sjá í einu af mörgum fallegu ljóðum sem afi samdi:
„Í blíðu og stríðu best það er,
að bræðralags allir njóti.
Ef reynist einhver reiður þér,
þá reynist honum vel í móti.“
Í öðru ljóði segir hann:
„Ég vil ávallt fólki gera greiða,
en að ganga á hlut þess tel ég fjærri mér.
Því mun ég þetta frá mér láta leiða,
læt það fara eins og komið er.“
Afi var auðmjúkur, reyndist alltaf vel í móti og var alltaf til í að gera öllum greiða.
Eftir því sem ég varð eldri urðu tengsl okkar afa dýpri. Þegar ég komst á unglingsaldur og hindranir lífsins birtust á vegi mínum leitaði ég oft til afa. Ég gat rætt allt við afa og oftast gat hann gefið mér góð ráð og alltaf umhyggju og skilning.
Síðar á lífsleiðinni áttum við svo mörg skemmtileg samtöl um lífið og tilveruna, ástina, trúna og í raun allt milli himins og jarðar. Við vorum ekki alltaf sammála en þessar heimspekilegu umræður höfðu mikil áhrif á mig. Forvitni mín og áhugi á trúarbrögðum, heimspeki og mannlegum samskiptum má rekja til þessara samtala.
„Efalaust að einhvern tíma,
almenningur skilja kann,
að lífið það er tákn hvers tíma
og tilveran er lífsins glíma
í ljósi sannleikans.“
Afi var, eins og ég þekkti hann, mjúkur maður. Aldrei feiminn við að sýna tilfinningar sínar, tjá ást og umhyggju og jafnvel fella tár. Ég er ansi hræddur um að þessi tilfinningasemi hafi smitast til mín og fyrir það er ég líka þakklátur. Afi kenndi mér að það er í lagi að vera svolítið væminn.
Amma og afi hefðu fagnað 70 ára brúðkaupsafmæli sínu 24. mars næstkomandi. Það var yndislegt að upplifa ástríkt samband afa Sigga og ömmu Gunnu. Ást þeirra var sönn og fátt er betra en að eiga ást sem er endurgoldin svo ég vitni aftur í afa:
„Ekkert betra ég álít hér,
einum góðum manni.
En eiga ást sem annar ber
og endurgjalda með sanni.“
Afi minn Siggi lét gott af sér leiða, bætti líf þeirra sem á vegi hans urðu og var gleðigjafi allt til endaloka.
Vertu sæll afi minn. Ég syrgi þig en góðu minningarnar og þakklætið eru sorginni yfirsterkari. Þú hefur markað líf mitt sem og fjölda annarra og sá sem auðgar líf annarra hefur vissulega lifað góðu og þýðingarmiklu lífi.
Takk fyrir samveruna, skilninginn, gleðina og umhyggjuna.
Þinn nafni,
Sigurður Hólm Gunnarsson