Ég er með þrjár, líklegast heimskulegar, spurningar um lekamálið mikla. Áhugavert væri að fá svör við þeim frá bæði lögfræðingum og blaðamönnum.
1) Er ekki ólöglegt að birta trúnaðargögn frá stjórnvöldum um einstaklinga án leyfis þeirra sem gögnin fjalla um? Ef það er ólöglegt, sem ég hefði haldið, hafa þá blaðamenn sem birta slíkar upplýsingar ekki brotið lög? Algerlega óháð því hvernig blaðamennirnir fengu gögnin?
2) Það er á hreinu að opinberir starfsmenn mega alls ekki dreifa viljandi viðkvæmum persónuupplýsingum um nafngreinda einstaklinga. Ef blaðamenn hafa fengið slíkar upplýsingar frá opinberum starfsmanni, ráðherra eða aðstoðarmönnum hans, þá hafa þeir klárlega orðið vitni að alvarlegu lögbroti. Slíkt lögbrot á að tilkynna til lögreglu auk þess sem það er stórfrétt að slíkum gögnum sé dreift.
Hvers vegna var lögbrotið, dreifing gagnanna, ekki aðalfréttin?
3) Er það virkilega svo að trúnaður blaðamanna við heimildarmenn sé mikilvægari en vitneskja um alvarlegt lögbrot? Sérstaklega ef sökudólgurinn er opinber starfsmaður?