Þegar Nói fór á fyllirí

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

12/03/2014

12. 3. 2014

Þegar Guð ákvað að tortíma mannskepnunni, sem hann hafði þó frekar nýlega skapað í eigin mynd, ákvað hann að þyrma einum manni og fjölskyldu hans. Eini maðurinn sem var verðugur miskunn Drottins hét Nói, þið vitið þessi sem byggði örkina. Nú er búið að gera kvikmynd um kallinn og mér skilst að bæði heittrúaðir múslímar […]

NóiÞegar Guð ákvað að tortíma mannskepnunni, sem hann hafði þó frekar nýlega skapað í eigin mynd, ákvað hann að þyrma einum manni og fjölskyldu hans. Eini maðurinn sem var verðugur miskunn Drottins hét Nói, þið vitið þessi sem byggði örkina.

Nú er búið að gera kvikmynd um kallinn og mér skilst að bæði heittrúaðir múslímar og kristnir séu eitthvað ósáttir við myndina. Þeir hafa sumir lýst því yfir að þeim þyki Nói vera „of dökk persóna“ í myndinni. Þar sem ég hef ekki séð myndina get ég ekkert dæmt um það. Ég kann þó eina góða sögu af Nóa (las hana í Biblíunni, 1. bók Móse 9:1-29).

Hér er stutta útgáfan:

Nói gamli datt víst stundum í það, eins og gengur. Stuttu eftir flóðið mikla (sem sumir kalla fjöldamorðið mikla) ákvað hann að fara á gott fyllirí og til að gera langa sögu stutta varð hann blindhaugafullur. Hann drapst áfengisdauða kviknakinn inn í tjaldi sínu (þó ekki í Eyjum). Hver hefur ekki lent í því?

Kam, yngsti sonur Nóa, kom að pabba sínum í þessu ástandi og sá hann í allri sinni dýrð, eins og sagt er. Kam hafði greinilega nokkrar áhyggjur af ástandi föður síns og kallaði á bræður sína, þá Sem og Jafet, og bað þá um að aðstoða sig við að hjálpa pabba gamla.

Sem og Jafet komu vitaskuld strax en pössuðu sig þó á því að halda fyrir augun svo þeir þyrftu ekki að sjá pabba sinn í, þið vitið, allri sinni dýrð.

Pepto-bismolNokkru seinna vaknar Nói af vímunni, þá örugglega þunnur, með hausverk og ógleði og Guð ekki enn haft fyrir því að finna upp íbúfen og Pepto-Bismol. Enda búinn að vera upptekinn við að tortíma eigin sköpun og svona.

Nói var semsagt illa fyrir kallaður greyið þegar hann vaknaði úr rotinu. Hann var reyndar alveg brjálaður. Af hverju var hann svona brjálaður? Var hann ósáttur við eigið fyllirí? Var hann með móral? Ó, nei. Hann var ósáttur, vægast sagt, út í Kam. Yngsta soninn sem hafði orðið fyrir því að sjá pabba sinn dauðadrukkinn og nakinn. Er til stærri glæpur en að sjá pabba sinn nakinn og dauðadrukkinn og koma honum svo til hjálpar? Varla.

Nói ákallaði því Guð, vin sinn og verndara, og skipaði honum að gera Kam og alla hans afkomendur að þrælum. Sem og Jafet, sem höfðu vit á því að sjá pabba sinn ekki berrassaðan, áttu aftur á móti að fá verðlaun. Landrými, frelsi og yfirráð yfir Kam litla og öllum hans afkomendum.

Þetta massíva fyllirí Nóa hafði því töluvert miklar afleiðingar. Ekki fyrir fyllibyttuna sjálfa heldur fyrir soninn sem kom henni til bjargar.

En hvað varð um Nóa sjálfan? Svarið við þeirri spurningu, og reyndar öllum öðrum, er að finna í Biblíunni:

„Nói lifði eftir flóðið þrjú hundruð og fimmtíu ár. Og allir dagar Nóa voru níu hundruð og fimmtíu ár. Þá andaðist hann.“

Sönn saga!

Deildu