Hugvekja Brynjars Níelssonar alþingismanns úr pontu Seltjarnarneskirkju og andsvör Sigurðar Hólm Gunnarssonar stjórnarmanns í Siðmennt hafa vakið talsverða athygli undanfarið og komust í hámæli með frétt Stöðvar 2 í byrjun janúar. Ég er sammála Sigurði Hólm í gagnrýni hans.
Sökum alvarlegra ásakana Brynjars í garð félaga sem hann nefnir ekki á nafn en eru augljóslega Vantrú og Siðmennt, rangtúlkunar á tilurð vestræns lýðræðissamfélags, og rangfærslna um gjörðir síðustu ríkisstjórnar vil ég leggja orð í belg.
Svar mitt er af langlokugerðinni því að ég vil vanda rökfærsluna og rýna vel í orð Brynjars. Orð hafa ábyrgð og ég gef Brynjari engan afslátt í gagnrýni minni m.a. vegna þess að hann hefur menntun og stöðu sem krefjast þess af honum að hann vandi mál sitt og sannleiksgildi orða sinna. Á það tel ég að talsvert skorti upp á.
Ég vísa í hugvekju Brynjars í heild sinni hér svo það sé alveg ljóst hvað hann sagði. Gefum Brynjari orðið:
„Í upphafi hvers árs huga margir að framtíðinni og velta því fyrir sér hvað hún muni bera í skauti sér. Flestir hugsa um það sem næst þeim er, hver verður afkoma mín, mun fjölskyldunni líða vel, hvernig mun börnunum farnast og svo framvegis. Það er eðlilegt af því að það skiptir okkur miklu máli í hinu daglega lífi. Við hugsum sjaldnar um það, hvernig samfélagi við lifum í og af hverju það er eins og það er.
Samkvæmt ýmsum hamingjustöðlum, sem okkur eru kynntir reglulega, eru Íslendingar iðulega á toppnum eða þar um kring og finnst gott að búa á Íslandi. Eflaust byggist sú hamingja að miklu leyti á því að við búum í öruggu umhverfi, menning og menntun er á háu stigi hér á landi, spilling minni en gengur og gerist og við í sameiningu gætum að þeim sem minna mega sín. Við erum því í góðum málum, eins og þekktir óreglumenn segja gjarnan í skemmtiþætti í sjónvarpi, sem fylgt hefur okkur í tugi ára.
En mótast slíkt samfélag af sjálfu sér? Svarið er augljóst, það gerist ekkert að sjálfu sér í mannlegu samfélagi. Það er eitthvað sem mótar menningu, listsköpun, vísindin og lögin. Í okkar samfélagi er það ekki síst kristin trú og kristin arfleifð. Það er að mínu áliti mikil gæfa að kristin trú hefur verið ráðandi þáttur í lífi okkar Íslendinga nánast frá upphafi byggðar hér á landi.“ [Breiðletrun er undirritaðs]
Já Brynjar tekur okkur í hraðsoðna söguskoðun um dásemdir kristninnar. Gott ef hann er ekki bara kominn að minnsta kosti hálfa leið til „himnaríkis skaparans“ fyrir þessa lofgjörð.
Hverfum rúm þúsund ár aftur í tímann. Á meðan sonum goðorðshöfðingja var haldið föngum í Noregi og viðskipti við okkur bönnuð, var kristni tekin upp í mikilli „sátt“ árið 1000. Blóta mátti á laun í nokkur ár en svo varðaði það við útlegð (fjörbaugsgarður, 3 ár eða skóggöngu, 20 ár)(1). Kristni var þvingað á alla landsmenn sem ekki tóku trúna sjálfviljugir og svo tók við mjólkunin; allir greiddu tíund til klerkastéttarinnar og kirkjan tók til sín jarðir þegar fé skorti. Á þrettándu öld átti hún þriðjung allra jarða. Goðarnir byggðu kirkjur sem voru síðan teknar af þeim og afhentar kirkjunni. Í sárfátæku landi nærðust klerkar á samlöndum sínum með andlegu, eignarhaldslegu og konungsstuddu kverkataki. Þeir sem trúðu ekki áttu vísa vist í helvíti.
Eftir siðaskiptin blómstraði ný gerð ógnarstjórnar og valdnýðslu: galdraofsóknirnar, stýrðum af prestum og kostuðu þær fjölda Íslendinga lífið bróðurpart 17. aldar. Á 18. öldinni varðaði brot fólks á sifjareglum lífláti en prestar misstu bara hempuna fyrir sama brot. Kirkjan stýrði lífi fólks á flestum sviðum mannlífssins. Almennri þekkingarleit og frjálsri hugsun var grimmilega haldið niðri.
Það var kristin kirkja sem stóð fyrir hinum „myrku miðöldum“ eins og ítalski rithöfundurinn Petrarch nefndi þær en það var birta framundan. Fyrir tilstuðlan þróunar sem hófst í Evrópu utan valdakrumlu kirkju og konunga fór hreyfing gagnrýninnar hugsunar, valddreifingar, fræðimennsku utan biblíufræða, réttindabaráttu og almennrar upplýsingar að grafa um sig. Páfar og biskupar börðust á móti og studdu konungsríkin. Borgarar tóku loks málin í sínar hendur og franska byltingin (1798), eins misheppnuð og hún var að mörgu leyti, breytti samt öllu. Lýðræðisþróunin var hafin og klerkaveldi og trú á guði átti ekki lengur heima í leikreglum lýðræðisins sem kölluð voru almenn lög og voru sett af kjörnum fulltrúum sem urðu að vinna fyrir atkvæði sínu með viti sínu og vinnu að vopni í stað forneskjulegrar goðsagnar, erfðarétts og/eða ofbeldis.
Kirkjan lifði þetta af á jaðrinum með því að hopa og falsa svo söguna jafnóðum. Hún hopaði gagnvart þrælahaldi, kynþáttahatri, kvennakúgun, betri þekkingu um upphaf lífsins, betri siðfræði og betri vegum á öllum sviðum mannlífsins en biblían gat leiðbeint með. Í lokin þykist kirkjan hafa verið frumafl framfaranna þegar í raun var hún dragbítur þeirra. Vissulega er ýmsum góðum gildum hampað í biblíunni en útfærslurnar eru frumstæðar og takmarkaðar á mælikvarða nútíma siðfræði. Kirkjan var aldrei í forvígi framfaranna heldur studdi oftast kúgunina.
Brynjar heldur svo áfram í gleði sinni yfir „arfleifð kristninnar“:
„En er sjálfgefið að kristin trú og kristin gildi verði áfram þessi ráðandi þáttur í lífi okkar? Fyrir rúmum 20 árum voru 92% landsmanna í þjóðkirkjunni og flestir þeir, sem ekki tilheyrðu henni, voru skráðir í aðra kristna söfnuði. Nú um stundir tilheyra 76% landsmanna þjóðkirkjunni og hefur þjóðkirkjufólki fækkað verulega allra seinustu misseri.“
„Ráðandi þáttur í lífi okkar„? Er það virkilega? Þessar staðreyndir um hina minnkandi Þjóðkirkju vekja upp minningar um hvert hneykslismálið af fætur öðru hjá Þjóðkirkjunni sem hafa átt stærstan þátt þessari miklu fækkun hjá henni.
Dæmi: Kynferðisofbeldi fyrrum Ólafs Skúlasonar biskups og hylmingarnar í kringum það, bruðl með fjármuni á kristnihátíð árið 2000, kynferðisáreiti prests á Selfossi, íslenskur prestur misnotar börn í Afríku, og annar biskup segir að það að leyfa hjónabönd samkynhneigðra sé að „henda hjónabandinu á ruslahaugana“. Upp komst um ofbeldi og kynferðislega misnotkun á kristilegu stúlknaheimili fyrir nokkrum áratugum og þau mál þurfti að skoða nánar ásamt biskupsmálinu eftir að viðkomandi lést. Kirkjan hélt illa á málum og olli víðtækri hneykslan. Í fyrsta sinn voru ráðherrar í ríkisstjórn spurðir af fréttamönnum hvort að það ætti ekki að aðskilja ríki og kirkju. Síðar komst það í hámæli að prestur á Húsavík studdi mann sem var dæmdur sekur fyrir nauðgun en ekki fórnarlambið, sem sá sig knúið til að flýja land.
Svo voru það skólamálin. Í um tvo áratugi (1985-2005) hafði Þjóðkirkjan aukið trúboð sitt og íhlutun í skólastarf þannig að ekki var lengur við unað ættu börn frá öllum heimilum þessa lands að fá frið og foreldrar að njótta þeirrar réttar að sjá sjálf um uppeldi varðandi trú eða lífsskoðanir. Karl Sigurbjörnsson biskup talaði um „vinaleið“ sem „sóknarfæri“ í trúboði í skólum á kirkjuþingi. Hins vegar sá fólk í stórum stíl að trúboð og iðkun trúar ætti ekki erindi í skólana. Reglur voru samdar í stórum bæjarfélögum og ráðuneytið gaf út viðmið. Meiri sátt náðist en trúboðar voru óánæðgir með að missa einkaaðgang sinn. Trúboðssinnar og Svartstakkahluti Sjálfstæðisflokksins reyndi fyrir síðustu kosningar að fá samþykkt á landsfundi flokksins að lög ætti að byggja á kristnum grunni. Það olli mikilli ólgu innan flokksins og forundran í þjóðfélaginu og ályktunin var felld. Áður hafði þó Sr. Geir Waage, landsfundarfulltrúi, í fréttaviðtali gert grín að hugsjón ungliðahreyfinga Sjálfstæðisflokksins um aðskilnað ríkis og kirkju. Margir sjálfstæðismenn vildu fegnir gleyma þessari uppákomu en nú tekur Brynjar Níelsson upp hanskan fyrir trúboðsfylkinguna.
Þjóðkirkjan hefur séð að mestu um það sjálf að fæla frá fólk úr eigin röðum. Hún hefur ekki staðist viðmið siðferðis nútímaþjóðfélags.
Brynar sparar ekki gífuryrðin í framhaldinu og tekst nú á flug í samsæristilgátu sinni:
„Með aukinni upplýsingatækni má segja að hver og einn einstaklingur sé orðinn fjölmiðill. Það er auðvelt að skjóta úr launsátri og rægja aðra með nútímatækni. Trúin, kirkjan og kristileg gildi eru ekki undanskilin rægingarherferð af þessu tagi. Í raun hafa margir beitt sér af alefli með þessi vopn í hendi gegn kristinni trú og kirkjunni. Þeir halda því fram að trúin sé blekking og hindurvitni og í raun ekkert annað en leifar af frumstæðri hugsun sem þekkingin afhjúpi. [breiðletrun er undirritaðs].
Það er merkilegt þetta með launsátrið hjá Brynjari. Öll gagnrýni á trú og hina Evangelísk-lúthersku kirkju hérlendis hefur verið á yfirborðinu fyrir alla að lesa. Einstaka aðilar úr röðum beggja, kristinna og trúlausra hafa bloggað undir dulnefnum, en slíkt hefur ekki verið meginstef og slíkt átti sér aldrei neitt fylgi sem talist gat. Það eru því rangindi að segja að „skotið hafi verið úr launsátri“.
Færð hafa verið ákaflega góð rök fyrir því að guðir séu ekki til en það kýs Brynjar að kalla „rægingarherferð“ til þess að gera lítið úr þeim sem talar í stað þess að koma með mótrök. Þessi ósanna ásökun Brynjars er í raun hans eigin rægingaraðför að hópi fólks sem hefur ólíkt þessum aðferðum Brynjars beitt gagnrýni með rökstuðningi. þetta er hrein lygi (ræging) Brynjars sem hann grípur til eingöngu vegna þess að honum líkar ekki gagnrýnin og rökin. Maður hefði ekki átt von á þessu frá fyrrum hæstarréttarlögmanni. Hann er hér sjálfur sekur um rægingu.
Áfram heldur Brynjar:
„Þetta er ekkert nýtt og hægt er að nefna marga heimspekinga og hugsuði, eins og þeir kölluðu sig, sem síðustu 200 árin eða svo hafa spáð því, að dagar kristinnar trúar væru taldir. Þessar framtíðarspár reyndust ekki réttar. Það er nefnilega svo, eins og Sigurbjörn Einarsson biskup, sagði í útvarpserindi fyrir rúmlega 30 árum, að þeir menn, sem af miklum móði veitast að því, sem þeir telja blekkingar, eru sjálfir hrapallega blekktir.“
Brynjar benti sjálfur fyrr í máli sínu á tölfræði um minnkandi fylgi við þjóðkirkjuna og í fréttum Stöðvar 2 var bent á kannanir sem sýna aukningu trúleysis milli áranna 2005 og 20012 (2). Trúleysi fólks undir þrítugu var 55% árið 2011 (3) þannig að það gæti farið svo að „dagar kristninnar væru taldir“ innan nokkurra áratuga óháð því því viðhorfi Brynjars um að það sé blekking að telja trú blekkingu. Í alþjóðlegri könnun (3) árið 2012 hafði „ekki trúuðu“ fólki fjölgað hlutfallslega úr 26% árið 2005 í 43% árið 2012, og 10% töldu sig sannfærða trúleysingja. Aðeins átta þjóðir í heiminum höfðu hlutfallslega fleiri slíka.
Brynjar útskýrir svo gagnrýnina („rægingarherferðina“) á trúna:
„Því er enn haldið fram að þekking og vísindi fari ekki saman við trú og kristindóm. Þetta séu andstæður og trúin sé því ekkert annað en hindurvitni og hleypidómar sem samræmist ekki heilbrigðri skynsemi. Vísindin og þekkingin hafi sannað að sköpunarsagan í upphafsriti Biblíunnar sé markleysa.“
Ályktun hans er svo þessi:
„Það er fráleitt að reyna að gera sköpunarsöguna að markleysu, og þar með Biblíuna alla, með því að leggja á hana raunvísindalegan mælikvarða. Í sama erindi og vitnað var í hér áðan komst Sigurbjörn Einarsson biskup svo að orði: „Við hefðum verið og værum heldur fátækir, ef ekki mætti tala um heiminn, lífið og náttúruna nema samkvæmt vísindalegum formúlum. Við yrðum þá að hætta að lifa veruleikann og túlka þá lifun í skáldskap og annarri list, að ég ekki nefni trú.““
Þessi grýla um að raunvísindin séu svo köld og takmörkuð hefur virkað vel á marga í gegnum árin. Málið er bara að þessu fólki sem óttast svo mikið rökræna og vísindalega hugsun hefur ekki enn tekist að koma fram með sannfærandi eða gagnlegar útskýringar á þeim hlutum sem það segir að vísindin geti ekki hjálpað með. Fólk vísinda hefur þann heiðarleika að segja að sumt höfum við hreinlega ekki útskýringu á, en fólk trúar á borð við þá sem Brynjar stendur hér fyrir, kemur með skáldaðar útskýringar til að líða betur og setja sig á háan stall.
Þetta fólk heimtar svo að vísindafólkið afsanni skáldsöguna í stað þess að bera sjálft sönnunarbyrðina á þeim ótrúlega hugarburði sem það kemur fram með og hefur gert í þúsundir ára. Þetta gamla trikk heitir að snúa sönnunarbyrðinni við.
Elli og lífsseigla ranginda gerir þau ekki sönn. Það er enginn að banna fólki að tala um lífið samkvæmt öðru en vísindalegum formúlum en þegar sú umræða snýst upp í fullyrðingar um náttúruna er eðlilegt að krefjast sannana eða hið minnsta skynsamlegra raka. Það er með ólíkindum að Brynjar sé hér að verja sköpunarsöguna eins og kristnir forystumenn reyndu en mistókst á seinni hluta 19. aldar. Biblían er ekki lengur viðmiðunarrit í náttúrfræðum.
Áfram fer Brynjar með rangindi:
„Annar merkur maður, raunvísindamaðurinn Albert Einstein, sem þekkti eðlis-og efnafræði heimsins betur en flestir aðrir, sagði einhvers staðar að heimurinn væri þannig samsettur að æðri máttarvöld hlytu að hafa komið að sköpun hans.“
Þetta er rangt. Það hefur verið ítarlega rannsakað út frá skrifum Albert Einsteins að hann trúði ekki á guðlega sköpun en sagði að fegurð náttúrunnar væri guð fyrir honum. Það kom ítrekað fram í skrifum hans að hann trúði ekki á tilvist æðri vera. Hann var siðrænn húmanisti og var meðlimur í ráðgefandi nefnd amerísku húmanistasamtakanna á eftirstríðsárunum. Það hefði trúaður maður aldrei gert. Það má lesa um afstöðu Einsteins í ítarlegum texta bókarinnar „Ranghugmyndin um guð“ eftir Richard Dawkins (Útg.: Ormstunga)(6).
Brynjar heldur áfram:
„Arno Penzias, sem hlaut Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknarniðurstöður í eðlisfræði um uppruna efnisheimsins, fannst sá vísindasigur lítilvægur í samanburði við spurningar, sem vísindin geta aldrei svarað: Hvað er lífið, hvað er dauðinn, hvað er rétt og rangt og hvernig eiga menn að hafa samskipti hverjir við aðra? Það er lífið sem er veruleikinn, afstaðan milli manna er mikilvægari en nokkur rannsóknarniðurstaða.“
Afstaðan er svo sannarlega mikilvægari en „nokkur rannsóknarniðurstaða“, þ.e. siðferði okkar og samkennd. Á hinn bóginn minnkar það ekki mikilvægi vísinda því að vísindi eru einfaldlega leit okkar að sannindum um eðli þeirra þátta sem lífið og heimurinn eru gerð úr. Siðferðið þarf alltaf að lýsa leiðina. Afstaðan á milli manna er einnig mikilvægari en nokkur trú á guði.
Brynjar útskýrir svo kristna trú:
„Kristin trú er fyrst og fremst trú mannsins á Guð en hún er jafnframt tiltekið viðhorf til veruleikans eins og við lifum hann. Hún mótar líka afstöðu manna hvers til annars.“
Þetta er ofsagt. Það er ekki hægt að tala um „manninn“ hér eins og ekki sé til neitt annað fólk en kristið. Þetta er trú tiltekins hóps mannfólks.
Brynjar lýsir því svo af hverju hann telji sig og áheyrendur sína þurfa að hafa áhyggjur:
„Ég sagði hér fyrr í ræðu minni að fullyrðingar um að trúin væri blekking og hindurvitni væru ekki nýjar af nálinni. En af hverju er ég þá að rifja upp það sem Sigurbjörn Einarsson biskup sagði fyrir 33 árum um þekkingu og trú og hvaða þýðingu hefur það núna? Höfum við einhverja ástæðu til að ætla að kristin trú og kristin gildi verði ekki áfram ráðandi þáttur í lífi okkar? Hefur eitthvað breyst og þurfum við að hafa einhverjar áhyggjur? Já, það hefur ýmislegt breyst og við þurfum að hafa áhyggjur.“
Brynjar útskýrir svo stöðuna:
„Þótt frá upplýsingaröld hafi verið til menn sem hafa talið trú blekkingu, sem vísindin og þekkingin myndu eyða, eru það nýmæli, a.m.k. hér á landi, að stofnuð hafi verið félög, beinlínis í þeim tilgangi að berjast gegn kristinni trú. Með nýrri upplýsingatækni er auðveldara að láta til sín taka og hafa meðlimir í þessum félögum látið einskis ófreistað í ófrægingarherferð sinni gegn kristinni trú, kirkjunni og kristnum gildum. En það sorglega er, sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af, að málflutningur þessi hefur fengið að hluta til undirtektir hjá stjórnvöldum, bæði hjá ríki og Reykjavíkurborg og jafnvel fleiri sveitarfélögum. Lokað hefur verið á mestallt samstarf milli skóla og kirkju, bæði leikskóla og grunnskóla, og heimsóknir í kirkjur eru ekki heimilar nema sem þáttur í trúarbragðafræðslu í skólanum. Til dæmis má Gideonfélagið ekki lengur gefa grunnskólabörnum Nýja testamentið. Kynning á guðsorði heitir í dag innræting. Það er eins og kristin trú sé kaunn eða æxli á þjóðarlíkamanum en ekki næringin sem þessum sama líkama er nauðsynleg.“
Rétt eins og trú hefur lengið verið til (miklu lengri saga en saga kristninnar) hafa jafn lengi verið til karlar og konur sem trúðu ekki á yfirnáttúru. Um það eru til margar heimildir bæði í Asíu og Evrópu, t.d. meðal Forn-Grikkja. Trú á yfirnáttúru er ekki sjálfgefin því að hún byggir á ímyndaðri mynd tiltekinna hópa fólks af tilverunni og uppruna lífs og landa (6). Vegna skorts á sönnunum hafa trúarsögurnar breyst úr einu í annað eftir menningarsvæðum og ríkjandi menningum og þær hafa verið óspart notaðar til áhrifa og valda. Það hefur alltaf verið til fólk sem hefur séð í gegnum þetta því að það er í eðli mannsins að efast og láta reyna á sannleiksgildi hlutanna.
Það er rétt hjá Brynjari að félög um trúleysi eða félög sem byggja lífssýn sína án trúar eru nýleg á Íslandi. Hitt er rangt að þessi félög (Vantrú og Siðmennt) hafi stundað „ófrægingarherferð“ gagnvart kristinni kirkju. Ég vil biðja Brynjar um koma fram með tilvitnanir um að nokkuð slíkt hafi farið fram. Þá gefur að skilja að gagnrýni er ekki það sama og ófræging en kannski er það bara það sem Brynjar á við. Hann getur ekki svarað málefnalega og kýs því að sverta þessi félög með staðhæfulausum ásökunum um „launsátur“ og „ófrægingarherferðir.“
Á hinn bóginn má finna þess dæmi að fyrrverandi biskup þjóðkirkjunnar, sr. Karl Sigurbjörnsson hafi á rakalausan og ósvífinn máta reynt að rægja Siðmennt með því að láta hafa eftir sér í dagblaðinu 24-tímum árið 2008 að „þau væru hatursfull samtök“. Stjórn Siðmenntar fór opinberlega fram á afsökunarbeiðni biskups en fékk ekki en fékk í staðinn þá útskýringu að „hatrið“ stafaði af ósk félagsins um að kristilegt trúboð væri ekki iðkað í grunnskólum landsins. Það þurfti ekki annað en að fara fram á viðurkennd mannréttindi (á alþjóðavísu) til að uppskera hatursstimpil frá biskupnum. Mörgu fólki ofbauð þetta og ein stærsta bylgja skráninga í Siðmennt fylgdi í kjölfarið. Ýmsir skráðu sig einnig úr Þjóðkirkjunni yfir í „utan trúfélaga“.
Brynjar Níelsson:
„Í grunnskólalögum segir meðal annars að starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika og kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Í aðalnámskrá er lögð sérstök áhersla á menningarlæsi. Þrátt fyrir þessi lagafyrirmæli og markmið í námskrá hefur verið þrengt verulega að kristinfræðikennslu í skólum og kirkjunni alfarið úthýst úr skólum landsins.“
Hér blandar Brynjar saman trúboði og fræðslu um trú. Í engu hefur verið þrengt að kristinfræðslu í aðalnámsskrá og hvorki Siðmennt né Vantrú hafa sett sig á móti kristinfræðslu. Fagið er kennt af kennurum skólanna, ekki kirkjunni og það er ekki spurning um að einhverjum sé úthýst eigi viðkomandi ekki réttmætt erindi þar til að byrja með. Það eru vel skilgreind mannréttindi að trúboð og iðkun trúar á ekki erindi í skóla fyrir allan almenning.
Brynjar útlistar svo trúarhugmyndir sínar nánar:
„Trú er ekki bara trúin á Guð, skapara himins og jarðar. Hún er ekki síst menning, siðferðisviðmið og samfélagsmótandi gildi og hefðir. Kristin trú og kristin gildi hafa gert okkur að þeirri þjóð, sem við erum, og mótað samfélag okkar, sem við erum stolt af.“
Já, merkilegt… „skapara himins og jarðar“. Hversu mikið bókstafstrúar er Brynjar? Ætli hann viðurkenni þróunarkenninguna? Hvað sem því líður þá er það rangt að kristnin hafi fært okkur aukið frelsi, mannréttindi, þekkingarsamfélag, lýðræði, mannúðlegt réttarfar og svo framvegis. Það getur hver sem er tekið upp sögubækur og séð að nær hvergi stóðu forystumenn kristninnar fyrir þessum framförum þó að sumir hafi bætt eigin bakgarð eftir að hafa séð að sér. Það voru heimsspekingar, stjórnmálamenn, mannréttindahreyfingar, verkalýðsfélög og vísindamenn sem komu á breytingunum og breyttu þannig óbeint kirkjunni en ekki öfugt. Undantekningarnar voru þegar einstaka lágt settir klerkar tóku sig til af eigin frumkvæði og studdu réttindabaráttu eins og Martin Luther King Jr.
Með því að plokka bestu berin úr biblíunni, þau sem standast siðfræðileg rök, þá má nota þau til innblásturs fyrir góða hluti og það hafa margir einstaklingar gert í sínu persónulega lífi og sínu umhverfi. Það hefur hins vegar ekki verið gæfa skipaðra forystumanna kristninnar nema að litlu leyti. Mikilmenni sögunnar eru ekki páfar eða biskupar þó að nokkir hafi átt jákvæð innlegg og þá helst á 20. öldinni.
Brynjar heldur áfram með óttaboðskap sinn og ræðst nú á fyrrverandi ríkisstjórn:
„Þegar stjórnvöld leitast við að afkristna þjóðina er stuðlað að upplausn samfélagsins og afmenningu þess. Það gerist ekki á einni nóttu en þegar heilu kynslóðirnar fá takmarkaða kristinfræðslu og finna jafnvel helst fyrir neikvæðni í garð kristinnar trúar mun það ekki eingöngu hafa áhrif á menningu og takmarka menningarlæsi, heldur munu siðferðisviðmið breytast og kristin gildi þynnast út. Æðruleysið, kærleikurinn og fyrirgefningin eru okkur nefnilega ekki í öllum tilvikum í blóð borin.“
Það er náttúrulega fráleitt að halda því fram að stjórnvöld „leitist við að afkristna þjóðina“ burt séð frá spurningunni um hvort að slíkt ef rétt væri „stuðlaði að upplausn samfélagsins og afmenningu þess“.
Stjórnvöld hafa einungis viðurkennt að virða beri mannréttindi og að trúboð sé ekki leyft í opinberum skólum. Ef að það felur í sér afkristnun þá eru stoðir hinnar kristnu kirkju ekki sterkar. Aftur rangfærir Brynjar þetta um kristinfræðsluna sem er óbreytt og það er svo hvers og eins að dæma um það hvort að „æðruleysi, kærleikur og fyrirgefning“ finnist ekki annars staðar en innan kristninnar. Þessi hugvekja Brynjars er ekkert sérlega fyrirgefandi þar sem hann kallar gagnrýni „ófrægingarherferð“ og rangfærslurnar eru svo margar að vart getur hann hafa verið fullur af „æðruleysi“ þegar hann skrifaði.
Svo er það merkilegt þetta með „í blóð borin“. Er hann að ýja að því að aðeins ákveðnir kynþættir fæðist með kærleika eða er hann að tala um einhverja kristna blóðgjöf með kærleiksblóðkornum …eða var þetta bara svona illa og óheppilega orðað? Ætli ég, af ókristilegu umburðarlyndi mínu verði ekki að álykta að hið síðast nefnda eigi við um þessi skrif. Það skilur þó eftir þá dapurlegu niðurstöðu að Brynjar virðist halda að ekki-kristnum sé ekki fært að sýna þessar dyggðir; kærleika, æðruleysi og fyrirgefningu. Flest spendýr hafa þessa eiginleika í meira eða minna mæli en ef marka má orð Brynjars fá kristnir þetta í sérstaklega ríku mæli beint í blóðið frá guði við fæðingu. Hvort að það sé ófræging að halda því fram að öðrum sé „ekki í blóð borið“ að bera með sér kærleik læt ég þér lesandanum um að svara.
Brynjar blæs svo til átaks:
„Kristið fólk getur ekki horft sljóum augum á þessa hættulegu þróun í íslensku samfélagi. Það þarf að spyrna við fótum og taka slaginn með æðruleysið og kærleikann að vopni. Það er eins í þessu og öllu öðru, við tryggjum ekki eftirá. Ég efast ekki um að allt það ágæta fólk, sem lætur sig kristni og kirkju varða, og allir þeir foreldrar og uppalendur, sem vilja ala börn sín upp í kristinni trú og gildum, vilja leggja sitt af mörkum til að sporna við þeirri óheillaþróun sem ég lýsti hér áðan. Okkar hlutverk er að benda á þær afleiðingar, sem við teljum að sú þróun leiði til, og standa fast í ístaðinu þegar vegið er að sannfæringu okkar í þessum efnum. Við þurfum ekki að vera feimin við það, málstaðurinn er góður og hann er og hefur verið landi og þjóð til heilla.“
Hvernig ætli kærleikanum verði beitt hér sem vopni? Þarf yfir höfuð að berjast gegn mannréttindum í skólastarfi? Kærleikurinn hlýtur að felast í því að virða aðkomu annarra en kristinna að þjóðfélaginu og að sameiginlegur vettvangur fólks hjá stofnunum hins opinbera getur ekki borið merkimiða einnar trúar. Ekki færi Brynjar að ætlast til að dómstólar landsins bæru skilti með kristnu boðorðunum tíu? …eða hvað? og ekki getur hann ætlast til að sköpunarsagan verði kennd í jarðfræði og líffræði? ..eða hvað? Kærleikurinn er skilgreindur á kristna vísu sem „langlundaður“. Það hlýtur að þíða að það sé tekið tillit til þess að aðrar lífsskoðanir eru við lýði í þjóðfélaginu og fólk hafi rétt á þeim svo lengi sem þær skaði ekki aðra eða brjóti á rétti annarra. Að það sé ekki verið að boða kristnum börnum aðra trú eða trúleysi í skólum. Kristnir þekkja vel til gagnkvæmisreglna, um að gera (ekki) öðrum það sem þú vilt að aðrir geri (ekki við) fyrir þig.
Brynjar segir að lokum:
„Boðskapur kristninnar er heldur ekki útilokandi á nokkurn hátt, „
…afsakið en skrík og skrats… frá 2011 hefur Þjóðkirkjan (með sérstakri samþykkt Kirkjuþings) útilokað fólk utan trúfélaga sem óskað hefur eftir því að halda útför síns nánasta í kirkju hennar. Þannig hefur Neskirkja, Garðakirkja og Kópavogskirkja neitað fólki um þessa aðstöðu.
Forfeður okkar allra hafa greitt tíund og skatta til Þjóðkirkjunnar í árhundruði og kirkjan kennir sig við þjóð en samt telur hún sig því umkomin að neita þessu fólki um aðstöðu fyrir hina hinstu kveðju. Þannig var t.d. Jóhannesi S. Kjarval (yngri) neitað um Neskirkju við andlát sitt. Fjölmenni var við útför hans í Fossvogskirkju sem er þó með lögum skilgreind sem eign allra landsmanna. Auk skatta sem hann og allir landsmenn hafa greitt til Þjóðkirkjunnar hafði Jóhannes um árabil lagt mikið fram til listmunanefndar Þjóðkirkjunnar vegna ástar sinnar á listum og þar útilokaði hann ekki Þjóðkirkjuna þó að hann sjálfur væri trúlaus. Það var skellt á hann dyrinni í Neskirkju fyrir hina hinstu kveðju. Það mátti ekki halda húmaníska athöfn í kirkjunni og prestur þar sagði við mig skömmu síðar að með réttu ætti fólk utan kirkjunnar þá bara að greiða 2-300 þúsund krónur í aðstöðugjald ef að það vildi vera í kirkju. Sjálfur myndi ég aldrei óska eftir útför minni í kirkju en mér finnst ósk um slíkt afar skiljanleg í ljósi þess að aðstaða til útfara er ekki nærri alltaf fyrir hendi í heimahverfi hins látna og svo hefur sjálfur hæstaréttur ályktað (4) í dómi í máli Ásatrúarfélagsins gegn ríkinu að þjóðkirkjan hafi skyldur gagnvart almenningi og eigi því rétt á sérstökum greiðslum frá ríkissjóði í jöfnunarsjóð kirkna og kirkjumálasjóð, en aðrir söfnuðir ekki. Ríkið er því í sífellu að borga undir þessar kirkjubyggingar og viðhald þeirra. Neskirkja lánaði í haust kirkjuna undir fjáröflunarsamkomu náttúruverndarsamtaka. Ætli það hafi verið séra Jón en ekki Jón sem fékk leyfið? Það er því bæði útilokun og mismunun í gangi úr ranni kirkju sem vill gjarnan kenna sig við kærleikann. Já „ekki útilokandi á nokkurn hátt“ – segðu mér annan!
Nú leyfi ég Brynjari að halda áfram:
„… heldur er hann kærleiksboðskapur, fagnaðarerindi, sem setur manngildi og kærleika í öndvegi. Erindið er sígilt, boðskapurinn um Guð sem elskar heiminn, kærleikann sem fellur aldrei úr gildi og um vilja Guðs sem er lýst í Galatabréfinu sem hinu góða, fagra og fullkomna. Það er von mín að þessi boðskapur verði leiðarljós íslenskrar þjóðar til framtíðar. Gleðilegt ár.“
Ef ég leyfi mér að segja guð sé ekki til frekar en Þór, Njörður, Seifur og Poseidon, þá er ég líklega að gera mig sekan um ófrægingarherferð í augum Brynjars. Við erum þó sammála um að „kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ en Brynjar virðist halda að ekki-kristið fólk geti síður sýnt kærleik. Það get ég ekki skrifað upp á. Ég veit ekki til þess að neitt bréf í Nýja testamentinu sé fullkomið. Slíkt heyrist helst úr ranni bókstafstrúarmanna, fólks sem er yfirleitt ekki í Þjóðkirkjunni, heldur minni strangtrúaðri söfnuðum.
Dæmi úr Galatabréfinu: 1:9
Eins og vér höfum áður sagt [Páll postuli], eins segi ég nú aftur: ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið viðtöku veitt, þá sé hann bölvaður.“
Mér verður hugsað til útrýmingu (fjöldamorða) anababtistanna á 16. öld af hálfu rétt-kristinna (Kaþólskra og Mótmælenda) í Norður-Evrópu. Anababtistar unnu það til „saka“ að hafa það „fagnaðarerindi“ að skíra ekki börn fyrr en þau voru komin til nægilegs vits og ára að geta samþykkt það sjálf. (7)
Í mildri kristninni í dag, hvað ætli þessi bölvun í Galatabréfinu þýði fyrir menn eins og Brynjar?
Annað dæmi úr fullkomnu Galatabréfinu:
Páll postuli útskýrir að hann sem áður „eyddi“ söfnuði Guðs, var vel tekið af kristnum þegar hann snérist.
„Guð fer ekki í manngreiningarálit“ sagði hann í framhaldi af því.
Nei greinilega ekki gagnvart þeim sem snérust til kristni og það réttrar kristni en samkvæmt 1:9 eru þeir sem annað boða „bölvaðir“. Í 3:9 segir:
„Þannig hljóta þeir, sem eru trúar megin, blessun ásamt hinum trúaða Abraham.“
Þannig að svo framarlega sem fólk er kristið fer Guð ekki í manngreiningarálit. Er þetta hið sanna kristna umburðarlyndi eða breytti siðfræði upplýsingarinnar þessu þannig að það nái einnig til „heiðingjanna“?
Það er þó ljóst að þessi upphaflega útskýring Páls er enn í gildi varðandi samband ríkis og kirkju. Þessi „rétta“ kristni er í náðinni og fær um tvo milljarða árlega umfram það sem önnur trú- eða lífsskoðunarfélög fá. Árið 2012 samsvaraði þetta því að þjóðkirkjan fékk 19.109 kr á hvern meðlim (16 ára og eldri) en hin félögin 8.412 kr á hvern meðlim. Mismunun uppá 227%. (5) Ég er hræddur um að eitthvað heyrðist frá feministum ef að þetta væri enn launamunurinn milli karla og kvenna. (Samt heyrðist ekkert frá hinni feminísku Jóhönnu Sigurðardóttur um þetta ójafnræði þegar hún hafði öll tækifæri til sem forsætisráðherra.) Guð Þjóðkirkjunnar fór ekki í manngreiningarálit …innan hennar sjálfrar. Forysta Þjóðkirkjunnar hefur aldrei haft orð á því að þetta sé óréttlæti. Samt hefur hún kristinn kærleik að vopni.
Í 5:14 Galatabréfsins segir:
„Því að allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina orði: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“.
Páll gerir gott með þessu og hvetur til fleiri dyggða og „að gjöra öllum gott“ í bréfinu en þó
„einkum trúbræðrum vorum, eftir því sem við höfum færi á.“ (6:9).
Ætli þetta síðasta sé ekki einmitt kjarninn í viðhorfi Brynjars og þeirra kristniboða sem boða elsku Krists en örlítið meiri elsku gagnvart eigin trúbræðrum. Það birtist í því að þeir telja sig eiga sérstakan rétt í þessu fallega landi okkar.
Sérstakan rétt á vernd forseta og ríkistjórnar, sérstakan rétt á meiri fjármunum, sérstakan rétt á sérstöku aðgengi að skólabörnum, sérstakt aðgengi að ríkisfjölmiðlum og sérstakan rétt til tillagna um lagafrumvörp um eigin málefni. Þjóðkirkjan fær laun frá ríkinu en hefur ein stofnana algert sjálfstæði um eigin mál. Ráðherra getur ekki rekið biskup standi hann ekki skil á starfi sínu eða siðferðislegri ábyrgð. Fullkomnari verða vart forréttindi en þetta. Fullkomin eins og Galatabréfið hans Brynjars.
—-
(1) „Guðirnir okkar gömlu“ bls. 138-148. – Sölvi Sveinsson- Bjartur 2006.
(2) „Global Index of Religiosity and Atheism – 2012“. WIN-Gallup International.
(3) „Þjóðarpúlsinn – trúmál“. Netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 5. til 19. maí 20 11. Heildarúrtaksstærð var 1.380 einstaklingar 16 ára eða eldri af öllu landinu ogsvarhlutfall var 57,7%. Í úrtakinu voru einstaklingar valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.
(4) Mál 107/2007. Ásatrúarfélagið (Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl., Sveinn Guðmundsson hdl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl., Þórður Bogason hdl.)
(5) Sjá útreikninga sem byggðir eru á gögnum innanríkisráðuneytisins og Þjóðkirkjunnar á vefsíðunni jafnraedi.is
(6) Sjá rökstuðning í bókinni „Ranghugmyndin um guð“ eftir Richard Dawkins. Íslensk útg.: Ormstunga.
(7) Holy Horrors: An Illustrated History of Religious Murder and Madness. James A. Haught. Prometheus books 1990.