Pössum okkur á jólakúguninni

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/12/2013

18. 12. 2013

Ef taka á flest jólalög, flestar jólaauglýsingar, flestar jólamyndir og næstum alla þá umfjöllun sem fyrirfinnst í geiminum um jólin alvarlega er hægt að draga eftirfarandi ályktanir. Jólin er sá tími þar sem allir eiga að vera glaðir, kjarnafjölskyldan er saman (brosandi og hlæjandi), gamla fólkinu líður vel, værð er yfir börnunum, pör eru ástfangin, […]

JólatréEf taka á flest jólalög, flestar jólaauglýsingar, flestar jólamyndir og næstum alla þá umfjöllun sem fyrirfinnst í geiminum um jólin alvarlega er hægt að draga eftirfarandi ályktanir. Jólin er sá tími þar sem allir eiga að vera glaðir, kjarnafjölskyldan er saman (brosandi og hlæjandi), gamla fólkinu líður vel, værð er yfir börnunum, pör eru ástfangin, allir eiga nóg af peningum og tilgangur lífsins er að versla sem flottastar gjafir í yfirlýstum og ofskreyttum stórmörkuðum, með bros á vör. Markaðströllið er búið að stela jólunum. Má ég, trúleysinginn,  þá frekar biðja um látlausa trúarhátíð.

Raunveruleikinn er auðvitað allt annar en sá sem markaðströllin reyna að plata upp á okkur. Þó jólin geti verið fallegur og góður tími fyrir margar, kannski flesta, er sú ekki raunin hjá öllum. Það eiga ekki allir peninga til að fóðra markaðströllið. Margir eru þjakaðir af peningaáhyggjum vegna sárrar fátæktar. Að auki kvíða sumir jólunum vegna fjölskylduaðstæðna, þunglyndis eða annarra veikinda.

Jólin geta, ef við viljum, verið falleg og táknræn hátíð þar sem markmiðið er að hjálpa hvort öðru til að líða sem best óháð efnahag eða annarri stöðu. Trúað fólk getur iðkað trú sína í gleði og einlægni og við hin getum fagnað því að jólin er aldagömul falleg hátíð þar sem menn gleðjast yfir sigri ljóssins yfir myrkrinu, þegar við fögnum því að daginn fer að lengja á ný.

Jólin geta líka því miður valdið fólki sem á erfitt, af ýmsum ástæðum, streitu og óþarfa áhyggjum. Skilningsleysi annarra á aðstæðum og vanlíðan samborgara sinna getur aukið ógleðina. Krafan fullkomin jól og krafan um að allir séu hamingjusamir getur snúist upp í kúgun, svokallaða jólakúgun. Pössum okkur á henni.

Gleðilega hátíð annars!

Deildu