Fordómar, orðaval og hin eilífa togstreita

Logo

Kristinn Theodórsson

Kristinn Theodórsson er fæddur árið 1977 í Reykjavík. Hann er verslunarmaður og vel kvæntur þriggja barna faðir. Kristinn er varamaður í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á ÍslandiNetfang: kiddithe@skodun.is

10/12/2013

10. 12. 2013

Greinarstúfur um það að Vigdís Finnbogadóttir hafi notað orðið „fötlun“ þannig að sumum gramdist. Margir hafa í gegnum tíðina komist að þeirri niðurstöðu að tilveran felist ekki í að skilja muninn á réttu og röngu, heldur í að eiga í eilífu reiptogi milli andstæðra póla og gera sitt besta hverju sinni. Þessi afstaða færist yfir […]

Fordómar, orðaval og hin eilífa togstreitaGreinarstúfur um það að Vigdís Finnbogadóttir hafi notað orðið „fötlun“ þannig að sumum gramdist.

Margir hafa í gegnum tíðina komist að þeirri niðurstöðu að tilveran felist ekki í að skilja muninn á réttu og röngu, heldur í að eiga í eilífu reiptogi milli andstæðra póla og gera sitt besta hverju sinni. Þessi afstaða færist yfir fólk með aldri og reynslu.

Þegar við erum ung finnst okkur ágætt að hlýða á sögur um hið illa og hið góða. Vonda stjúpmóðirin hrekkir góðu fósturdótturina. Kjartan í Strumpunum, hann er illur. En strumparnir, þeir eru góðir. Augljóslega er bara eitt rétt í stöðunni, hið góða þarf að sigra. Öskubuska á að komast á ballið, strumparnir eiga að sigrast á Kjartani. Hér má einnig notast við háfleygari sögur og ævintýri. En þið skiljið hvað ég er að fara.

Síðan vöxum við úr grasi og förum að hugsa um kommúnisma og kapítalisma, um eignarhald og sameign, um mannréttindi og einstaklingshyggju. Við förum að spá í þekkingarfræði og hluti sem erfitt er að fjalla um með þeirri þekkingarfræði. Eru þeir þá ekki til?

Gráu svæðin á milli hins rétta/góða og þess ranga/illa hrannast upp.

Hvað segir þessi orðavaðall okkur um það að Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, hafi nýverið notað orðið fötlun um Ríkisútvarpið? Hún sagði að eftir niðurskurðinn hafi það ,,fatlast svolítið”. Þetta gerði Freyja Haraldsdóttir athugasemd við í grein.

Í strumpasamhenginu er Freyja góð og Vigdís vond. Hin „augljósa“ niðurstaða er að Vigdís á ekki að nota orðið fötlun um óheppilegt ástand á ríkisfyrirtæki. Það er dálítið eins og að nota orðið kerling um karlmann sem er ekki nógu mikið hörkutól í innanhúsfyrirtækjaboltanum á fimmtudagskvöldum. -Skamm, Vigdís.

Í víðara samhengi hefur orðið fötlun fyrir mörgum einfaldlega þá merkingu að einhver skerðing á getu sé fyrir hendi og því hægt að nota orðið um allskyns hluti án þess að í því eigi að felast móðgun við einn né neinn. Sá sem er fótbrotinn hefur orðið fyrir skerðingu á getu miðað við að vera ekki fótbrotinn. Hann er hálf fatlaður á meðan hann jafnar sig. Fyrirtæki í fullum rekstri sem skyndilega þarf að reka fullt af hæfileikaríku fólki úr vinnu hefur skerta getu eftir það. Hefur fatlast í samanburði við ástandið áður.

Reiptog á milli þess að vera orðvar og félagslega meðvitaður og þess að vera líflegur og afslappaður viðmælandi. Það eru átök um að nota fjölskrúðugt og skemmtilegt mál og þora að tjá sig án lengri umhugsunar annarsvegar og þess að segja ekkert sem hægt er að misskilja og taka illa hinsvegar. Og enginn er fullkominn, minnumst þess.

Á Freyja að hafa orð á því að það sé ekki gott að Vigdís noti orðið fötlun með þessum hætti? Já, það er ágætt að miðla þeirri afstöðu.

Á Vigdís að nota orðið fötlun um reksturinn á Ríkisútvarpinu? Já, það er ágætt orð sem lýsir ástandinu vel.

Ha? Bæði rétt? Hvor er þá strumpurinn og hvor er Kjartan?

Ætli við verðum ekki bara að vaxa upp úr teiknimyndum.

Deildu