Hugmyndafræði yfirstéttarinnar og lygin um fjárskort ríkisins

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/12/2013

9. 12. 2013

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ætlar að lækka barnabætur og draga úr þróunaraðstoð um mörg hundruð milljónir til að „forgangsraða í þágu heilbrigðis landsmanna.“ Tvær ástæður eru gefnar fyrir þessum níðingsverkum og eru báðar galnar. Í fyrsta lagi var það vonda vinstristjórnin sem hækkaði barnabætur og það er „óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar“ (Vigdís […]

ÓjöfnuðurRíkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ætlar að lækka barnabætur og draga úr þróunaraðstoð um mörg hundruð milljónir til að „forgangsraða í þágu heilbrigðis landsmanna.“ Tvær ástæður eru gefnar fyrir þessum níðingsverkum og eru báðar galnar.

Í fyrsta lagi var það vonda vinstristjórnin sem hækkaði barnabætur og það er „óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar“ (Vigdís Hauksdóttir).

Það skiptir auðvitað máli hvaðan gott kemur. Ekkert sem vinstristjórn gerir getur mögulega verið gott. End of argument.

Í öðru lagi þá „þarf að finna aukið fé til heilbrigðismála og þetta er sú aðferð sem [núverandi stjórnarflokkar ætla] meðal annars að ganga í til þess að forgangsraða í þágu heilbrigðis landsmanna.“ (Formaður fjárlaganefndar).

Eina lausnin sem yfirstéttin hefur til að bæta hag Landspítalans er að ná í peninga hjá fátækasta fólkinu. Hvort sem það er á Íslandi eða í útlöndum. Það er auðvitað bráðnauðsynlegt enda vitum við að „vinstri menn vilja gjarnan hafa bótakerfið mjög öflugt og svo framvegis.“ (Þingmaður Framsóknarflokksins).

Svo vitum við líka að bótaþegar sjá lítinn „tilgang í því að vinna þegar hægt er að sleppa því og hafa sömu ráðstöfunartekjur.“ (Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins).

Já það er kominn tími til að láta afæturnar finna til tevatnsins.

Nú er heimska mín mikil og því skil ég ekki alveg hvers vegna það er nauðsynlegt að taka af fátækum til að gefa sjúkum þegar svo margar aðrar leiðir eru í boði.

Nýverið var ákveðið að hækka bankaskatt um 80 milljarða til að greiða fyrir skuldaleiðréttingu sem að einhverju leyti mun gagnast fólki sem þarf ekki á neinni leiðréttingu að halda. Stjórnvöld segja að það sé ekkert mál að hækka bankaskattinn og það sé meira að segja sanngjarnt í ljósi þess að hér varð forsendubrestur.

Í fávisku minni spyr ég:

  • Hvers vegna var ekki hægt að lækka skuldir minna og nota hluta bankaskattsins til að fjármagna Landspítalann?
  • Hvers vegna var ekki hægt að hækka bankaskattinn aðeins meira í sama tilgangi?
  • Hvers vegna var fallið frá sérstöku veiðigjaldi og hvers vegna var hætti við gistináttagjald?
  • Hvers vegna er makríllinn ekki boðinn út?
  • Hvers vegna er ekki allt kapp lagt á það að stórfyrirtæki borgi hærra gjald fyrir náttúruauðlindir landsins?
  • Hvers vegna á að afnema auðlegðarskatt?

Það er lygi að það séu ekki til nægir peningar í þessu landi og því verði að spara.

Það er líka ósatt að stjórnarflokkarnir séu í grundvallaratriðum á móti skattlagningu í þeim tilgangi að endurdreifa gæðunum. Bankaskatturinn sannar það.

Það eru til margar aðrar leiðir til að fjármagna Landspítalann og aðra grunnþjónustu án þess að níðast á fátæku fólki.

Ríkisstjórn ríka fólksins kýs einfaldlega að fara leið misskiptingar í nafni hugmyndafræði og vanþekkingar og með dyggum stuðningi hluta þjóðarinnar. Látum ekki plata okkur með þeim rökum að það sé ekki hægt að fjármagna rekstur spítala án þess að lækka barnabætur eða skera niður í velferðarmálum.

Deildu