Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg reiðina í þessu Gálgahraunsmáli. Í það minnsta á ég erfitt með að hafa einhverja sterka skoðun á því sjálfur. Alla vegana það sterka skoðun að ég nenni að mótmæla eða stofna klappstýrulið fyrir Vegagerðina. Kannski af því að ég er latte lepjandi 101 íbúi sem drekkur ekki mjólk og er með lögheimili í Grafarvoginum? Maður getur víst ekki haft skoðun á öllu.
Óháð skoðanaleysi mínu á þessu hrauni þá átta ég mig ekki á því af hverju það er ekki hægt að bíða með óafturkræfar framkvæmdir í hrauninu þar til dómstólar hafa úrskurðað um málið? Ég átta mig ekki heldur á því af hverju það þarf tugi lögreglumanna til að fjarlægja friðsama mótmælendur með valdi? Deyr einhver eða slasast þó framkvæmdir stöðvist á meðan beðið er eftir úrskurði dómstóla?
Getur einhver útskýrt þetta mál fyrir mér í hnitmiðuðu máli? Hverjir hafa svona gífurlega mikla hagsmuni af því að framkvæmdir hefjist strax?