Það þarf nauðsynlega að setja lög á Íslandi sem fjalla um sjálfkrafa skráningu barna í stjórnmálaflokka.
Sumum finnst þessi hugmynd fáránleg en ég skil ekki af hverju.
Búum við ekki í lýðræðisríki? Eru Íslendingar ekki lýðræðisþjóð?
Í 1.gr. stjórnarskrárinnar segir orðrétt: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“
Þetta segir í fyrstu greininni en ekki til dæmis í 62. grein eða þeirri 63. Þetta ákvæði hlýtur því að teljast mikilvægt.
Þar að auki tekur næstum allt fullorðið fólk afstöðu til stjórnmála þó margir kjósi reyndar að vera ekki skráðir í stjórnmálahreyfingu. Svo má nefna að fjöldi þeirra sem kýs flokka í kosningum er töluvert meiri en sá fjöldi sem er beint skráður í einhvern flokk.
Að taka þátt í stjórnmálum og tilheyra stjórnmálaflokki er einfaldlega mikilvægur hluti þess að lifa og starfa í lýðræðisríki.
Ég held því að það sé bæði eðlilegt og lýðræðislegt að börn séu sjálfkrafa skráð, helst við fæðingu, í þann stjórnmálaflokk sem foreldrar þeirra eru skráðir í. Að öðrum kosti er hætta á að stjórnmálaþátttaka og lýðræðisvitund Íslendinga fari þverrandi. Við megum ekki gleyma því að við búum lýðræðissamfélagi og að saga Íslendinga hefur mótast að miklu leyti af sögu og áhrifum lýðræðis á Íslandi.
Við verðum þó að passa upp á að foreldrum þessara barna sé ekki mismunað. Því verður það að vera skýrt í lögum að ef foreldar eru ekki skráðir í sama flokk séu börnin til dæmis ekki þá sjálfkrafa skráð í stjórnmálaflokk móður. Það sér það hvert mannsbarn að það væri brot á jafnréttislögum ef móðir er skráð í Samfylkinguna, faðir í Sjálfstæðisflokkinn og barnið síðan skráð sjálfkrafa og án mótmælaréttar í Samfylkinguna!
Nei ef slík staða kemur upp er vitaskuld best að foreldrarnir komi sér saman um hvaða stjórnmálaflokkur hentar barninu best. Ef samkomulag næst ómögulega er best að barnið sé utan stjórnmálaflokka um sinn. Við getum þó huggað okkur við það að um leið og barnið verður fullorðið getur það tekið sjálfstæða ákvörðun.
Þegar ég hef mælt fyrir þessari hugmynd á almannafæri hafa gagnrýnendur gert nokkrar athugasemdir við hana.
Ein algeng spurning sem ég fæ er:
„Er sjálfkrafa skráning barna í stjórnmálahreyfingu ekki brot á félagafrelsi? Er hægt að skrá börn í stjórnmálaflokk sem þau verða svo sérstaklega að skrá sig úr þegar þau verða fullorðin?“
Svar mitt er að þessar vangaveltur eru byggðar á misskilningi. Enda stendur skýrt í 74. grein stjórnarskrárinnar að ekki sé hægt að skylda neinn til „aðildar að félagi“. Enginn bannar fólki að skrá sig úr félagi sem það var skráð í, áður en það lærði að tala, um leið og það verður fullorðið. Þar að auki er alls ekki víst að hinn nýfullorðni einstaklingur vilji endilega skrá sig úr stjórnmálahreyfingunni. Er ekki alveg eins líklegt að hann vilji vera þar áfram? Það er nú einu sinni þannig að stjórnmálaskoðanir fólks mótast mikið til inn á heimilum og því líklegra en ekki að börn séu rétt skráð.
Önnur algeng spurning:
„Er sjálfkrafa skráning barna [í stjórnmálaflokk] ekki með einhverjum hætti ólýðræðisleg?“
Þetta er augljóslega einnig mikill misskilningur. Reyndar held ég stundum að fólk sé að misskilja viljandi eða einfaldlega að rökræða til þess eins að rökræða.
Eins og áður segir stendur alveg skýrt í fyrstu grein stjórnarskrárinnar að Ísland er „lýðveldi“. Það breytist vitaskuld ekki neitt þó börn séu skráð sjálfkrafa í stjórnmálafélög sem foreldrar þeirra nú þegar tilheyra.
Að lokum má svo benda á að sambærilegar reglur eru nú þegar til um sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag foreldra og ég veit ekki til þess að nokkur maður hafi mælt gegn því sjálfsagða fyrirkomulagi. Í það minnsta ekki með neinum gagnlegum rökum.