Ríkisstjórnin ætlar að leggja fram frumvarp í vetur sem heimilar staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég fagna því og tel mikilvægt að fram fari málefnaleg umræða um málið. Eins og flestum er ljóst vekur staðgöngumæðrun upp fjölmargar siðferðisspurningar. Þessum siðferðisspurningum þarf að svara yfirvegað og fordómalaust.
Ekki er umræðan um viðkvæm mál alltaf mjög gagnleg eins og sést á femínska vefnum knuz.is. Þar var nýlega birt grein um staðgöngumæðrun sem ber titilinn: „Að leigja leg kvenna eins og geymsluskápa“. Greinin á Knúz hefur fengið gríðarlega dreifingu og þykir því líklegast góð. Ég er ekki beint sammála því.
Greinin er skrifuð í þeim leiðingjarna femíníska stíl að konur hljóti alltaf, einhvern veginn, að vera fórnarlömb.
Strax í fyrirsögninni er legi kvenna líkt við geymsluskáp sem er leigður út eins og hver annar hlutur. Sambærileg grein um líffæragjafir (t.d. þegar lifandi maður gefur einhverjum nákomnum nýra) gæti borið titilinn „að gefa líffæri eins og varahluti“ og kallað þannig fram svipuð hughrif. Það er að segja þau að komið sé fram við líkama mannsins eins og hverja aðra vöru.
Í greininni á Knúz er mjög ólíkum hlutum blandað saman og kapp er lagt á að gera staðgöngumæðrun tortryggilega. Gjörningurinn er bendlaður við „nýlendutímabilið“ og áhersla er lögð á fátækar konur í Indlandi og annars staðar í heiminum sem leigja legið sitt vegna fátæktar.
Mörgum siðferðilegum spurningum er kastað fram sem greinarhöfundur beinlínis vill ekki reyna að svara heldur hrapar hann að niðurstöðunni:
„Staðgöngumæðrun er allt of flókin, og málin of viðkvæm, til að hægt sé að leysa þau með nefndavinnu eða lagasetningum“.
Lokasvar greinarhöfundar er því: Staðgöngumæðrun á að vera bönnuð. Líka hér á landi í velgjörðarskyni.
Eitt af því sem gerir umræddan pistil, sem án efa er skrifaður af umhyggju fyrir fólki, vondan er einmitt þessi tilhneiging fólks að blanda ólíkum málum saman og draga af þeim einhverja algilda niðurstöðu.
Flestum má vera ljóst að það er lítið sem ekkert sambærilegt við að „leigja út leg kvenna í þróunarlöndum“ annars vegar og heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni undir ströngu eftirliti hér á Íslandi hins vegar.
Að banna fortakslaust staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni á Íslandi vegna þess að það er farið illa með konur í þróunarlöndunum er eins og að banna húsbyggingar á Íslandi vegna þess að það er farið illa með verkamenn í Kína. Aðstæður eru aðrar, lagaumhverfið og staða fólks almennt allt önnur. Svo er líka hægt að leysa flókin mál meðal annars með vandaðri „nefndarvinnu og lagasetningu.“
Í annari grein á Knúz (sem er þó mun betri en sú fyrri) er konan aftur sjálfkrafa gerð að einhverju fórnarlambi:
„Á hinn bóginn finnst mér ekki réttlætanlegt að það sé samfélagslega samþykkt að biðja konur, eða fólk yfirhöfuð, að nota líkama sinn í þágu annarra. Þar af leiðandi efast ég um að það sé rétt að samþykkja löggjöf sem ýtir undir þá hugmyndafræði, að það sé eðlilegt að nota líkama kvenna sem leið að eigin markmiði.“
Í fyrsta lagi er hér gefið í skyn að konan sjálf hafi ekki sjálfstæða skoðun á málinu eða hún geti ekki staðist samfélagslegan þrýsting. Hér er verið að „biðja konur“. Konur eru ekki að „bjóða fram aðstoð sína“. Slík orðræða þykir mér beinlínis niðurlægjandi. Hér er verið að passa konur eins og börn. Þetta rímar ágætlega við það sem einn talsmaður Vinstri grænna sagði fyrr á þessu ári þegar ályktun gegn staðgöngumæðrun af öllu tagi var samþykkt af flokksmönnum:
„Staðan er ekki sú að konur séu hamingjusamar og frjálsar og geti tekið kærleiksríka ákvörðun um velgjörð… það er ekki raunveruleikinn.“
Ef þetta er svona í raun velti ég fyrir mér hvort konur á Íslandi séu þá yfirleitt færar til að taka nokkrar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf þeirra.
Í öðru lagi gleymist það oft að hægt er að skilgreina alla vinnu, bæði sjálfboðavinnu og launaða vinnu, þannig að einstaklingar séu „að nota líkama sinn í þágu annarra“. Víðs vegar um heiminn í dag og almennt í gegnum aldanna rás hefur „hefðbundin“ vinna haft gríðarleg áhrif á heilsu fólks, bæði andlega og líkamlega heilsu.
Þar sem fátækt og misskipting ríkir og eymd er mikil má í raun segja að vinna sé ekkert annað en nútíma þrælahald.
Einar Már Jónsson lýsir þessu ágætlega í bók sinni Örlagaborgin:
„Eini munurinn á þessu [Vinnu þar sem fátækt er mikil og verkamenn hafa lítil sem engin réttindi – innskot SHG] og þrælahaldi í fornöld er sá að verkamaður nútímans virðist vera frjáls af því hann er ekki seldur í eitt skipti fyrir öll heldur um stundarsakir, einn dag, eina viku eða eitt ár í senn, og enginn einn eigandi selur hann öðrum. En með þessum hætti neyðist verkamaðurinn til að selja sig, hann er ekki þræll eins manns heldur heillar stéttar.“
Lausnin er þó ekki fólgin í því að við hættum öll að „nota líkama“ okkar. Lausnin felst í því að bæta aðbúnað fólks sem þarf eða ákveður að „nota líkama sinn í þágu annarra.“ Aðbúnaðinn má meðal annars bæta með réttindabaráttu, opinni umræðu og meira að segja með „nefndarvinnu og lagasetningu.“
Ég dreg alls ekki úr því að staðgöngumæðrun er flókið siðferðisálitamál og það þarf að vanda til verka þegar og ef staðgöngumæðrun verður leyfð hér á landi í velgjörðarskyni.
Hvað sem gerist þá þarf umræðan að eiga sér stað og hún verður að vera yfirveguð. Í slíkri umræðu er ekki gagnlegt að blanda mjög ólíkum hlutum saman eða gera beinlínis ráð fyrir að konur geti ekki haft frjálsan vilja og upplýstar skoðanir. Umræða á slíkum forsendum mun aldrei skila neinum árangri.