Ávinningur fólks af skattalækkunum Silfurskeiðabandalagsins er misjafn. Samkvæmt opinberum tölum og fréttum er tekjulægsti hópurinn að „græða“ 372 krónur á mánuði á meðan sá tekjuhæsti (sem fær lækkun að þessu sinni) að „græða“ tæpar 4000 krónur á mánuði.
Þessi skattalækkun kostar víst um fimm milljarða króna bara á næsta ári.
Þegar stjórnmálamenn segja að ekki séu til peningar til að halda úti öflugu velferðarkerfi og heilbrigðisþjónustu er það yfirleitt rangt. Allt er þetta spurning um forgangsröðun
Ríkisstjórnin ákvað að lækka frekar skatta en að setja til dæmis nokkra milljarða í uppbyggingu Landspítalans.
En skoðum betur ávinning landsmanna af nýjustu skattalækkununum:
Ef þú ert með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun getur þú farið einu sinni aukalega í strætó í hverjum mánuði.
(Borgar 372 krónur minna í skatta á mánuði. Ein ferð í strætó kostar 350 krónur).
Ef þú ert með 400 þúsund krónur í mánaðarlaun getur þú næstum því keypt þér aukalega eina pítsu hjá ódýrustu pítsastöðum landsins. Það er ef þú sækir og pantar tilboð.
(Borgar 1.140 krónur minna í skatta á mánuði. Besta tilboðið sem ég fann í fljótu bragði var sótt miðlungs pítsa með 2 áleggstegundum á 1.290 krónur).
Ef þú ert með 770 þúsund í mánaðarlaun kemstu aukalega í Bláa lónið á ca. eins og hálfs mánaðar fresti.
(Borgar 3984 krónur minna í skatta á mánuði. Einn aðgöngumiði í Bláa lónið kostar 5.600 krónur).
Ég leyfi mér að spyrja. Viljum við, sem þiggjum skattalækkun að þessu sinni, ekki frekar borgar aukalega 372 til 3984 krónur á mánuði í gegnum skattkerfið og fá í staðinn öflugri Landspítala og betri velferðarþjónustu?
Galdurinn við opinbera velferðarþjónustu er að hinir tekjuhærri greiða meira fyrir hana en þeir tekjulægri. Eins og sést þegar fimm milljarðar eru teknir af samneyslunni til að greiða fyrir skattalækkun sem hinir tekjuhærri græða meira á (strætómiði vs. ferð í Bláa lónið). Í staðinn fer ríkisstjórnin öfuga leið. Lækkar skatta, sveltir Landspítalann og leggur á legugjald á sjúkrahúsum upp á 1.200 krónur sem allir þurfa að greiða jafnt.
Finnst einhverjum þetta sanngjarnt?