Fordæming og útskúfun kynferðisafbrotamanna er ekki gagnleg

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

31/08/2013

31. 8. 2013

Umræðan um kynferðisafbrot verður oft ansi tilfinningahlaðin af skiljanlegum ástæðum sem líklegast er óþarfi að nefna. Hvers kyns ofbeldi getur farið með mjög illa með brotaþola, jafnvel eyðilagt líf þeirra. Ákveðið umburðarlyndi gagnvart ofbeldisbrotum er enn til staðar og svo á samfélag okkar langa og ógeðfellda sögu um þöggun. Þolendur ofbeldis hafa of lengi þurft […]

GráturUmræðan um kynferðisafbrot verður oft ansi tilfinningahlaðin af skiljanlegum ástæðum sem líklegast er óþarfi að nefna. Hvers kyns ofbeldi getur farið með mjög illa með brotaþola, jafnvel eyðilagt líf þeirra. Ákveðið umburðarlyndi gagnvart ofbeldisbrotum er enn til staðar og svo á samfélag okkar langa og ógeðfellda sögu um þöggun. Þolendur ofbeldis hafa of lengi þurft að bera skömmina á meðan samfélagið hefur hlíft gerendum og jafnvel afneitað því að kynferðisofbeldi eigi sér stað.  Reiðin og fordæmingin er því bæði mannleg og skiljanleg.

Þau ofsakenndu viðbrögð sem einkenna allt of oft umræðuna um kynferðisafbrot eru þó ekki gagnleg að mínu mati. Ekki ef markmiðið er að búa til betra samfélag og draga úr ofbeldisbrotum. Vil ég nefna þrjú atriði sem ég tel að skaði beinlínis samfélag okkar, geri það verr í stakk búið til að draga úr kynferðisofbeldi og veldur óþarfa óhamingju sem er engum til góðs.

1. Að setjast í dómarasætið
Alltof algengt er að fólk taki opinberlega harða afstöðu í málum sem það getur ekkert vitað um. Um leið og við erum langflest á móti hvers kyns ofbeldi og höfum þörf fyrir að tjá vandlætingu okkar í hvert sinn sem við heyrum af ógeðfelldu ofbeldisbroti þá er ekki í lagi að tjá sig og taka afstöðu til einstakra mála sem við eðlilega vitum ekkert um. Að fordæma nafngreindan einstakling sem sakaður er um alvarlegt brot án þess að þekkja málið er siðferðilega rangt. Einfaldleg vegna þess að ályktun okkar um málavexti gæti verið röng. Þó að við sleppum því að setja okkur í dómarasæti getum við áfram fordæmt ofbeldisbrot og eigum auðvitað að gera það. En að taka nafngreinda einstaklinga af lífi í fjölmiðlum er beinlínis siðferðilega rangt.

2. Að blanda saman ólíkum málum
Sú tilhneiging að leggja mjög ólíka hluti nánast að jöfnu er heldur ekki gagnleg. Ólík mál eins og klám, vændi, barnaníðingsháttur, nauðganir, „klámvæðing“ í fjölmiðlum, mansal, kynferðisleg áreitni, dónabréf og óviðeigandi orðalag vekur í sumum tilfellum álíka mikil viðbrögð eins og um sambærilega hluti sé um að ræða. Af umfjölluninni að dæma er þetta allt jafn ógeðslegt og siðlaust þó augljóslega séu málin afskaplega ólík. Með því að blanda öllu saman er hætta á því að við gengisfellum hugtök og við villumst á leið okkar til betra samfélags.

3. Fordæming og útskúfun kynferðisafbrotamanna er beinlínis hættuleg
Þriðja atriðið sem ég vil nefna er sú krafa sem stundum kemur upp að einstaklingar sem brjóta af sér eða gera eitthvað ógeðslegt og óviðeigandi af sér á lífsleiðinni séu nánast útskúfaðir úr samfélaginu það sem eftir er. Slík útskúfun er engum til góðs og getur satt best að segja reynst hættuleg.

Á fólk sem brýtur af sér eða gerir mistök aldrei að fá möguleika aftur?

Það er áhugavert að velta þeirri siðferðisspurningu fyrir sér hvort einstaklingar sem á lífsleið sinni hafa gert ógeðfelda hluti séu alltaf ógeðslegir? Almennt séð virðist samfélag okkar ekki líta svo á. Menn eru þannig, sem dæmi, reglulega dæmdir fyrir líkamlegt ofbeldi, jafnvel morð, en öðlast frelsi og full réttindi á ný eftir að þeir hafa lokið afplánun. Einstaklingar sem hafa farið illa með fjölda fólks (en þó ekki endilega dæmdir fyrir neinum dómi) eiga það til að bæta ráð sitt, biðjast afsökunar og verða betri menn. Nýtir þjóðfélagsþegnar á ný.

Ef marka má þá umræðu sem á sér stað í fjölmiðlum virðist ákveðinn hópur fólks vera þeirrar skoðunar að þeir sem brjóta gegn kynfrelsi annarrar manneskju (óháð því hvort dómur hafi fallið eða ekki) eigi sér ekki viðreisnar von. Slíkir menn virðast vera dæmdir til þess að vera alltaf ógeðslegir og jafnvel hættulegir. Persona non grata til eilífðar.

Skilaboðin sem verið er að senda eru þessi: Ef þú brýtur gegn kynfrelsi annarrar manneskju munt þú aldrei fá möguleika aftur í lífinu. Aldrei. Það er ekki nóg að biðjast afsökunar, iðrast, eða jafnvel taka út dóm vegna þess að við vitum aldrei hvað þú ert að hugsa. Þú ert kannski (og líklegast) að ljúga. Þú ert ógeðslegur og tilraunir þínar til að bæta ráð þitt eru bara til heimabrúks. Þú meinar ekkert með því sem þú segir.

Vandinn við slíka afstöðu er margvíslegur.

Kynferðisafbrotamenn (og á ég líka við þá sem hafa gert eitthvað af sér án þess að vera dæmdir) geta séð að sér rétt eins og aðrir afbrotamenn. Lítill hluti kynferðisafbrotamanna er veikur og mun alltaf vera hættulegur (eins og á t.d. við um suma barnaníðinga). En það er aðeins lítill hluti. Staðreyndin er sú að flestir geta bætt ráð sitt og samfélagið á að hjálpa þeim að gera það.

Skilyrðislaus fordæming kynferðisafbrotamanna veldur því að þeir leita sér síður hjálpar og viðurkenna síður gjörðir sínar. Hver vill eiga það á hættu að upp komist um kynferðisafbrot ef fordæming til eilífðar tekur við?

Hatur og ofstæki gagnvart kynferðisafbrotamönnum hjálpar ekki þolendum. Sérstaklega ekki ef brotamaður er náinn ættingi eða tengdur brotaþola. Mikilvægast er að koma i veg fyrri brot, stöðva þau sem nú eiga sér stað og veita öllum viðeigandi aðstoð.

Ef við ætlum ekki einfaldlega að taka alla sem gerst hafa sekir um kynferðisafbrot af lífi í bókstaflegri merkingu eða loka þá inni á stofnunum til eilífðar þá er ljóst að þessir einstaklingar verða til staðar út í samfélaginu. Hvað getum við þá gert?

Ég legg til að við reynum að draga aðeins úr fordæmingunni og reiðinni en leggjum þess í stað meiri áherslu á það að finna út hvernig við getum bætt samfélag okkar.

Ef það er markmið okkar að draga úr líkum á því að kynferðisafbrotamenn brjóti af sér aftur þurfa þeir að fá að búa í samfélagi sem fordæmir þá ekki til eilífðar heldur veitir þeim viðeigandi aðstoð.

„Það er betra að tendra lítið ljós en að bölva myrkrinu.“ – Konfúsíus

Deildu