Þú ert bara heimskur!

Logo

Matthías Freyr Matthíasson

Matthías Freyr Matthíasson, oftast nær kallaður Matti Matt, er fæddur 1980 og er uppalinn á Akranesi og starfar hjá Reykjavíkurborg. Faðir stúlku sem er 7 ára gömul. Áhugamaður um baráttu gegn einelti, pólitík, trúmál, mannréttindi. Meðlimur í Bjartri framtíð og formaður ÍTH, Íþrótta og tómstundanefndar í Hafnarfirði Netfang: matti@skodun.is

16/08/2013

16. 8. 2013

Mig langar til að deila með þér þeirri upplifun minni af því að vera heimskur. Já heimskur. Þegar ég var barn gekk ég að sjálfsögðu í grunnskóla. Grunnskólaganga mín var langt frá því að vera eintóm sæla en það er annar handleggur og ekki eitthvað sem ég er að tala um í dag. Það sem […]

staerdfraedi

Mig langar til að deila með þér þeirri upplifun minni af því að vera heimskur. Já heimskur. Þegar ég var barn gekk ég að sjálfsögðu í grunnskóla. Grunnskólaganga mín var langt frá því að vera eintóm sæla en það er annar handleggur og ekki eitthvað sem ég er að tala um í dag. Það sem ég ætla að skrifa hér um hefur verið ríkjandi alla mína skólagöngu og þá meina ég alla, meira að segja eftir að ég komst á fullorðinsár.

Það er sú staðreynd að ég og stærðfræði höfum ekki átt samleið. Ekki síðan í 3 – 4 bekk grunnskóla. Eftir þann tíma fóru vandræðin að aukast. Það byrjaði með því að ég hætti að skilja það sem um væri að ræða í tímum, síðan fór það í það ég fékk gríðarlegan hausverk einungis nokkrum mínútum eftir að yfirlega yfir dæmum hófst, tölur byrjuðu að víxlast ofl ofl. Ég reyndi að ræða þessi mál við kennara mína, foreldra og aðra tengda mér. Alltaf var sagt að þetta væri bara leti og ég ætti bara einbeita mér að náminu og þá kæmi þetta. Í kjölfarið fór áhugi minn á námi að fjara út, nema þeim fögum sem ég hafði virkilegan áhuga á og vissi að ég gæti. Því það var þannig að ég upplifði mig virkilega heimskan þegar viðkom stærðfræði, en í öðrum fögum vissi ég að ég stæði jafnfætis samnemendum mínum (og jafnvel framar í sumum tilfellum)

Ég tók samræmdu prófin með stæl, fékk 1 í einkunn í stærðfræði. Ég hef tekið 0 áfanga í stærðfræði í framhaldskóla þrisvar sinnum og alltaf fallið. Hæsta einkunn sem ég hef fengið í stærðfræði er 4. Mig fór að gruna að það gæti hugsanlega eitthvað verið að mér, ég allavegana vonaði það að ég væri ekki heimskur. Því fór ég í greiningu hjá Jónasi G. Halldórssyni taugasálfræðing. Í niðurstöðu prófsins sem hann lagði fyrir mig ( sem tók einn og hálfan tíma ) kemur þetta meðal annars fram.

veikleikar hafa leitt til sértækrar stærðfræðiröskunar,samkv ICD-10 greiningarviðmiðum. Mælt er með undanþágu frá stærðfræði til lokaprófs

Ég stefni á og mig langar til þess að læra lögfræði. En sökum þess að ég hef ekki stærðfræði yfir þau fög sem ég lokið, að þá mun það verða mun erfiðara fyrir mig. Það er þó ekki útilokað og hef ég skráð mig í nám við Háskólabrú Keilis þar sem tekið verður stórt tillit til þessarar greiningar þótt þeim beri í raun engin skylda til þess, þar sem á mörgum stöðum er talnablinda ekki viðurkennt vandamál. Ég ákvað að skrifa þetta niður því að ég trúi því að ég sé ekki einn þarna úti. Það eru fullt af einstaklingum sem hafa hrökklast frá námi og eða ekki átt möguleika til að mennta sig í því sem þeir vilja, því að skólakerfið á Íslandi byggist ekki upp á einstaklingum heldur hópum. Einstaklingum er ýtt og þeir þröngvaðir inn í aðstæður sem eru þeim óbærilegar. Það gerir það jafnvel að verkum að viðkomandi einstaklingur tekur þá ákvörðun að hætta námi og situr síðan eftir kominn á fullorðinsár, sár og svekktur yfir fortíðinni.

En hvað er talnablinda/stærðfræðiröskun? Það er vel útskýrt á heimasíðu Verkmenntaskólans á Akureyri.

Talnablinda, eins og lesblinda, birtist í ótal myndum, til dæmis ruglast nemendur á tölum, þeir ruglast á merkjum, þeir sleppa tölum, snúa þeim við og kunna ekki að nýta sér þær aðgerðir í stærðfræði sem þeim hafa verið kenndar alla sína skólagöngu. Þeir hafa sumir slakt langtímaminni og eiga til dæmis erfitt með að muna margföldunartöfluna. Þeir geta oft reiknað erfið dæmi einn daginn en hafa svo ekki skilning á þeim þann næsta. Stundum finnst þeim þeir vera búnir að ná einhverju í skólanum og ætla svo að halda áfram heima en muna þá ekki neitt. Sömuleiðis læra þeir vel fyrir próf og kunna efnið en muna svo ekki hvernig á að leysa dæmin í könnunum og prófum. Sumir nemendur sem eiga við þetta að stríða eiga einungis í erfiðleikum með stærðfræðinám, en eru sterkir námslega í   öðrum greinum, sumir eiga í erfiðleikum með stærðfræði og eitt tungumál – t.d. dönsku eða þýsku – en í mörgum tilfellum gengur nemendum vel í ensku. Það fer oft saman að nemendur sem eiga í erfiðleikum með að vinna með tölur lenda í erfiðleikum með aðrar raunvísindagreinar eins og t.d. eðlisfræði, náttúrufræði og efnafræði

Ég veit ekki hvort að þú getir ímyndað þér hvurslags léttir þetta var fyrir mig að fá þessa niðurstöðu. Alla mína skólagöngu hafa mótbárur mínar ekki haft neitt að segja og ekki hefur verið hlustað á mig. Ég vissi vel að ég væri ekki heimskur en sjálfstraust mitt í námi var orðið ekki neitt. Í þessari greiningu sem ég talaði um hér að ofan kemur þetta einnig fram.

Bendir greindarprófun nú, til mállegra og bóklegra greindarþátta á stigi afburðagreindar

Ég mun hefja nám við Keili nú í næstu viku, ég mun leggja mig allan fram og þiggja alla þá hjálp sem ég get fengið en ég er alveg afskaplega kvíðinn og kuldahrollurinn fer niður bakið á mér þegar ég hugsa til þess að takast á við stærðfræðina á ný. En ég GÆS (Get, Ætla, Skal)

En síðan er það annar punktur sem mig langar til að koma á framfæri sem minni skoðun og væri ég afskaplega til í að fá umræður um. Hvers vegna meinar háskólasamfélagið einstaklingum sem eru á aldrinum, ja hvað skal segja 30 ára og eldri inngöngu inn í háskólana nema viðkomandi hafi lokið 100 einingum úr framhaldsskólum/frumgreinadeildum? Hvað myndi HÍ ef við tökum hann sem dæmi tapa á því að taka mig til dæmis inn í lögfræðideildina sína? Í versta falli myndi ég falla í náminu og hvað þá? Það er nú einu sinni svo að samkvæmt heimasíðu lagadeildar HÍ kemur þetta fram.

Fall í almennri lögfræði hefur á undanförnum árum verið ca. 60-80%. Fall í Inngangi að lögfræði hefur verið ca. 20-30%

En ef við gefum okkur það að ég sem er orðinn 33 ára gamall hafi metnað og löngun til að standa mig í náminu, nái inngangnum að lögfræði og ljúki náminu með góðri einkunn. Hverju er skólinn þá að tapa? Það er ekki eins og ég sé tvítugur einstaklingur sem hætti í framhaldskóla með það að markmiði að fara í HÍ. Ég er búinn að vera á vinnumarkaðnum meira og minna frá því ég var 18 ára gamall og haldist innan sama starfsgeira í mest allann þann tíma. Ég tel að háskólasamfélagið yrði ekki sett í hættu þótt að einstaklingar 30 ára og eldri fengju inngöngu í nám, þrátt fyrir hafa ekki lokið tilskyldu framhalds/frumgreinadeildarnámi.

 

Deildu