Að samræma trú og mannréttindi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

11/08/2013

11. 8. 2013

Sigríður Guðmarsdóttir prestur flutti predikun í dag sem vakti athygli fyrir nokkuð skilyrðislaust umburðarlyndi gagnvart hinsegin fólki. Frábært hjá henni. Það sem vekur þó mest athygli mína er að predikun sem þessi veki athygli yfirleitt. Af hverju er enn svolítið skrítið þegar prestur talar af einlægni um mannréttindi? Vegna þess að fordómarnir eru innbyggðir inn […]

Hinsegin kristinnSigríður Guðmarsdóttir prestur flutti predikun í dag sem vakti athygli fyrir nokkuð skilyrðislaust umburðarlyndi gagnvart hinsegin fólki. Frábært hjá henni. Það sem vekur þó mest athygli mína er að predikun sem þessi veki athygli yfirleitt. Af hverju er enn svolítið skrítið þegar prestur talar af einlægni um mannréttindi?

Vegna þess að fordómarnir eru innbyggðir inn í trúarbrögðin. Í hinni heilögu bók er ekki talað vel um hinsegin fólk. Það þarf sérstaka túlkun á Biblíunni til að samræma trú og mannréttindi.

Kristnir þurfa að temja sér sérstaka aðferð við lestur á hinni helgu bók til þeir geti samræmt umburðarlyndi og trú („neðan frá“ fyrir mannréttindi kvenna og „utan frá“ fyrir mannréttindi hinsegin fólks, samkvæmt predikun Sigríðar). Enda fær Sigríður töluverða gagnrýni frá trúbræðrum sínum og systrum sem lesa Biblíuna öðruvísi.

Ekki misskilja mig. Mér finnst Sigríður Guðmarsdóttir einn áhugverðasti prestur landsins og er oft sammála henni þegar hún fjallar um siðferði og mannréttindi. Þar að auki ber ég mikla virðingu fyrir henni og öllu því fólki sem lætur sig mannréttindi varða, óháð því hvaða trú eða lífsskoðun það hefur.

Mér finnst þó áhugavert hvernig trúarbrögð geta flækt einföld mannréttindamál.

Siðfræði og trú
Einu sinni var ég kristinnar trúar en varð smá saman trúleysingi. Meðal annars vegna þess að ég áttaði mig á því að siðferðiskennd mín samræmdist ekki kristinni trú.

Í dag finn ég svolítið til með trúuðu fólki sem veit innst inni hvað er siðferðilega rétt og vill vera umburðarlynt en á erfitt með það vegna þess að það samræmist ekki trúnni. Ég finn til með fólki sem þarf sífellt að réttlæta eigin siðferðiskennd með flóknum túlkunum á heilögum bókum.

p.s. Árið 2004 flutti ég erindi á málþingi hjá Kristilegum skólasamtökum þar sem ég fór yfir það af hverju ég varð trúleysingi og af hverju ég tel kristna trú er ekki góðan áttavita þegar kemur að siðferði og umburðarlyndi. Sérstaklega ekki gagnvart hinsegin fólki:

Umburðarlyndi hefur stóraukist á undanförnum árum, sem betur fer. Það er heldur ekki kristinni trú að þakka. Þó að til að mynda samkynhneigðir þurfi ekki að skammast sín eins mikið fyrir kynhneigð sína í dag og áður þá er það síst vegna afskipta kirkjunnar. Afstaða kirkjunnar og hinna trúuðu þekkjum við öll. Samkynhneigð er synd og sumir ganga svo langt að segja að samkynhneigðir muni brenna í Helvíti. Eins og svo oft áður er kirkjan síðust til að aðlaga sig að breyttri heimsmynd þar sem frelsi, jafnrétti og umburðalyndi er meira áberandi en áður var. Rétt eins og var með réttindi kvenna eða þrælahald þá mun kirkjan verða síðust til að bera virðingu fyrir samkynhneigðum. Við búum í raun á nokkuð merkum tímamótum því fjölmargir kristnir fordæma enn samkynhneigð með tilvísunum í Biblíuna rétt eins og félagar þeirra gerðu til forna til að réttlæta þrælahald eða kúgun kvenna. (sjá t.d.: 1. Mósebók: 13:13; 19:4-5; 24-25; 3. Mósebók: 18:22; 20:13. 1. Samúelsbók:18:1-4; 19:1-7; 20:30-42. 2. Samúelsbók: 1:26. 1. Konungsbók: 14:24; 22:43, 46; 15:11-12.Jesaja: 3:9. Rómverjabréfið: 1:26-27. 1. Tímóteusarbréf: 1:10. 1. Korintubréf: 6:9-10.Opinberunarbókin: 22:15)

Af ofangreindum dæmum má fundargestum vera ljóst að ég tel siðferðishugmyndir kristinnar trúar einnig vera úreltar, rétt eins og þekkingarfræðin. Með þessu er ég ekki að segja að öll þau siðferðisviðmið sem finnast í Biblíunni séu úrelt, heldur bendi ég aðeins á að gallarnir eru það margir og augljósir að ekki verður hægt að byggja gott siðferði á kristinni trú einni saman. Uppskriftina að réttlæti og góðu siðferði er ekki að finna í trú kristinna manna.

Það er skoðun undirritaðs að siðferði byggist ekki upp á reglum sem menn eiga að læra utanbókar og tileinka sér umhugsunarlaust. Siðferðisreglur verði til vegna reynslu og skilnings manna á því hvernig best sé að lifa. Góðar siðferðisreglur gera líf okkar hamingjusamara og lengra. Siðferði byggist því fyrst og fremst á skynsemi en ekki boðum og bönnum. Gullna reglan, sem meðal annars er að finna í Biblíunni, er t.d. ágæt því hún segir að maður eigi að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við mann sjálfan. Þessi regla á mjög oft við vegna þess einmitt að hún er byggð á skynsemi. (Enda sagði Confúsíus þetta u.þ.b. 500 árum fyrir okkar tímatal).

Deildu