Andrés og Agnes til höfuðs mér og mannréttindum á Vonarhátíð kristinna

Logo

09/08/2013

9. 8. 2013

Það er ljóst að nú ætla einhver kristin trúfélög að meika það big time með því að fylla Laugardalshöllina af trúheitu fólki og fá son frægasta predikara Bandarrkjanna, hinn hommahrædda Franklin Graham til að sjá um fjörið. Bænin er megin atriðið sýnist mér á allri umgjörðinni ásamt því að fara í mikið kristniboðsátak hérlendis í […]

Það er ljóst að nú ætla einhver kristin trúfélög að meika það big time með því að fylla Laugardalshöllina af trúheitu fólki og fá son frægasta predikara Bandarrkjanna, hinn hommahrædda Franklin Graham til að sjá um fjörið.

franklin-graham

Bænin er megin atriðið sýnist mér á allri umgjörðinni ásamt því að fara í mikið kristniboðsátak hérlendis í kringum þetta.  Það á greinilega að æsa upp mikinn boðunarham og boða trúna allt í kringum sig.

 

Ég fór á síðu hátíðarinnar www.vonarhatid.is og sá þar ekki neina ábyrgðaraðila eða skipuleggjendur nefnda.  Merkilegt.

Hins vegar var hægt að verða sér út um bækling um það hvernig maður ætti að kristna fólk með svokallaðri „Andrésaraðferð“.  Þetta er ekki Andrés Önd heldur Andrés postuli sem vitnað er í .

Hér sést bæklingurinn:

Andresaradferdin

Hann beinir litla trúboðanum hugrakka að fara á „trúboðsakurinn“ sem er það sem er honum næst; vinnustaðurinn, skólinn og heimilið.  Ég þakka fyrir að eiga ekki heimili með svona trúboða.  Ég yrði að fá mér eyrnatappa. Svo eiga þeir að troða sér í skólana en þar eiga börn rétt á því að vera í friði fyrir trúboðum eða pólitíkusum.  Í orðabók bókstafstrúarfólks eins og hvítasunnumanna þýðir orðið „trúfrelsi“ frelsi til að boða trú hvar sem er og trúin á að vera þjóðfélagsviðmiðið líkt og í trúræðisríkjunum.  Hjá okkur hinum þýðir trúfrelsi að mega aðhyllast hvaða lífsskoðun sem er og fá frið fyrir boðun og áróðri í sameiginlegum stofnunum þjóðarinnar.  Hvítasunnumenn þjálfa nú börn til að boða trú í skólum.

Svo eiga þessir tindátar trúarinnar að „líta upp“  og biðja því að „Guð breytir fólki gegnum bæn.“  Kannski þeim sem biður en hér er átt við að breyta fólkinu sem beðið er fyrir.  „Biddu á hverjum degi fyrir fólkinu á listanum þínum.“  Það á sem sagt að biðja fyrir trúlausu fólki sem trúboðarnir setja á lista í þennan bækling sem er sýndur hér til hægri.

Varðandi bæn fyrir einhverjum þá er gaman að rifja það upp að trúmenn í N-Ameríku stóðu fyrir stórri rannsókn á því hvort að fyrirbænir virkuðu til bættrar heilsu hjartasjúklinga á spítala fyrir um 8 árum síðan.  Þetta var ágætlega gerð rannsókn út frá aðferðafræði vísindanna.  Niðurstaðan var í stuttu máli sú að þeim sjúklingum sem beðið var fyrir hrakaði aðeins miðað við hina sem ekki var beðið fyrir en munurinn var ekki marktækur tölfræðilega og því háð tilviljun.  Þetta var sem kaldur þvottapoki í andlitið á þeim sem stóðu að rannsókninni, kristnu fólki.  Í kjölfarið kepptust trúarleiðtogar hér og þar við að afneita niðurstöðunum og gleyma þeim sem fyrst.

Það er því alveg ljóst að allar þessar bænir sem geta víst staðið klukkutímum saman skv. anda þessarar trúarhátíðar eru gagnslausar. En viti menn ef að þeir geta bent á einhverja sem „frelsast“ þessa daga þá verður bænunum og Guði þakkað. Í þessum ranni er hugtakið „staðfestingar-bias“ nefnilega ekki þekktur.

Nú svo á að líta „út á við“ eftir að búið er að horfa upp til Guðs.  Það er jú betra að hafa forgangsröðina í lagi.  Það á að vingast við blessaða/bölvaða trúleysingjana (eða veika í trúnni) í þeim tilgangi að tala við þá um Jesú. Hversu sönn vinátta er það? Þetta hljómar meira eins og „ég skal vera vinur þinn en aðeins á mínum trúarlegu forsendum og sem hluti af trúboðsmarkmiðum mínum.  Þú ert mitt viðfangsefni.  Bros.“  Ísmeygilegt ekki satt?

Síðan á að líta fram á við og það felst í því að koma nýju vinunum í snöruna, þ.e. „Hátíð vonar með Franklin Graham“ í tvo heila daga. Maður getur rétt ímyndað sér hópþrýstinginn sem myndast á slíkri samkomu.  Auðvelt að láta sig fljóta með fyrir þá sem hafa veikar varnnir gagnvart falshugmyndinni um æðri mátt og eru vinalausir og óöryggir fyrir.

Að endingu á að líta eftir.  „Eftirfylgni“.  Þetta hljómar eins og „eftirfylgni sjúklinga“ í heilbrigðiskerfinu.  Þeir sem láta glepjast verða umvafðir/hundeltir af yfir sig glöðum trúboðunum.  Svo á einnig að halda áfram að eyða tíma sínum í að biðja fyrir þeim sem „vildu ekki taka við orðinu“.

Það er ljóst að þessir kristnu söfnuðir sem að þessu standa ætla með hjálp Þjóðkirkjunnar (sem ég gruna að styðji þetta fjárhagslega) og Franklin Graham að skapa stórt hópefli í þeirri von að snúa fleiri Íslendingum til bókstafstrúar.  Já bókstafstrúar því að þessi tegund trúariðkunar á lítið skylt við hina „menningarlegu kristni“ flestra kristinna Íslendinga.  Sú kristni byggir fyrst og fremst á eins konar vinarsambandi við prest sóknarinnar sem hefur afar hóflega nálgun í iðkun trúar sinnar með söfnuðnum.  Í þessari menningarlegu kristni er þögult samþykki þess að trúin spilar ekki stórt hlutverk í lífi þessa fólks en ákveðið kristið samfélag er þó til staðar.  Nú dugar það ekki þessum kristnu leiðtogum sem ætla að halda þessa bókstafstrúarhátíð í Laugardalshöllinni.  Það á að gera fleiri að helteknum kristsuppvakningum með dreymandi augu og tár í hvarmi, leiðtamir sem kjölturakkar.  Það á að hala inn peninga af þessu fólki því að fólk í trúartransi gefur af sér peninga líkt og enginn væri morgundagurinn.  Haaaaaa-le-lú-jahhh!

Hið kristna siðferði

Skítt með „nokkra“ móðgaða homma og lesbíur.  „Það skerpir sjálfsímyndina“ er haft eftir Sr. Agnesi M. Sigurðardóttur biskupi þegar hún var spurð um hommaandúð Franklíns Gramham. Ég trúi því vart að hún hafi sagt þetta.  Algerlega kjálkalamandi. Hún gat sem sagt hugsað sér að umbera það að hann væri aðal númerið á hátíðinni því að almennt séð væri fólk jú með misjafnar skoðanir og lítið við því að gera.  Gott og vel ef F. Graham væri gestur en málið er að hann er aðal númerið.  Hann er f***ing  FYRIRMYNDIN!  Er það í góðu lagi að sú persóna telji samkynhneigð eina mestu siðspillingu vestræns samfélags???  Það er alveg ljóst af þessu svari Agnesar og aðkomu Þjóðkirkjunnar yfirleitt að þessu vesæla og útúrbrenglaða trúar-PR-stunti bókstafstrúarfólks hérlendis að þær stöllur (Agnes og Þk) horfa alltaf fyrst til kristinnar samstöðu áður en önnur verðmæti eins og mannréttindi og mannvirðing eru tekin alvarlega.  Í þeim efnum eru minnihlutahópar eins og samkynhneigðir „eðlilegur“ fórnarkostnaður á altari stórrar trúboðssamkomu.  Í augum þessara kirkna er tækifærið (F. Graham og stórhátíðin) of stórt til að fórna því á altari mannréttinda.

Þetta er bara enn eitt dæmið um það hvernig almættistrú og valdfíknar kirkjur slíkrar trúar hafa hagað sér í gegnum aldirnar.  Í trúareigingirni sinni og hlýðni við bókstafinn verður til sú blinda að trúin eigi að vera hið viðtekna í þjóðfélaginu og aðir geti beygt sig undir það, hvort sem að þeir/þær trúa eða ekki.  Eftir að ljóst var að Sr. Ólafur Skúlason fékk á sig flaum ásakana um kynferðislega áreitni var kirkjuleiðtogum Þjóðkirkjunnar fyrst og fremst annt um að sópa málinu undir teppið, frekar en að leita sannleikans í málinu og gera það upp.  Þjóðkirkjan nýtur 2 milljarða króna í laun og sjóðsstyrki frá ríkinu árlega, umfram það sem hún fær vegna sóknargjalda.  Þetta er borgað úr vasa allra tekjuskattsgreiðanda landsins, sama hverrar lífsskoðunar þeir eru.  Ásatrúarfélagið fór þess á leit við öll trúfélög landsins (ríflega 30 talsins) og Siðmennt að mótmæla þessu sameiginlega með yfirlýsingu í blöðum snemma á þessu ári.  Nokkur kristin trúfélög, þ.á.m. Fríkirkjan í Reykjavík fóru af stað með í þessa vinnu en bökkuðu síðan öll út úr því af ótta við að brjóta á kristilegri samstöðu.  Þannig var það líkt og hjá Agnesi núna að samstaða með kristnum trúarhreyfingum vegur hærra en samstaða með mannréttindum og jafnræði.  Kristið hópsiðferði í hnotskurn.

Deildu